Tuesday, March 13, 2012

ADHD

Ég er með kenningu um adhd.
Ég held að það sé ekki sjúkdómur. Ég held að það ætti enginn að reyna að lækna það ástand. Ég held að þeir sem greinist með adhd séu börn sem fá ekki það sem adhd börn þurfa heima hjá sér og ég held að þeir sem greinist séu afar fáir af þeim stóra hópi sem er svona frá fæðingu.
Ég hef spurt sjálfa mig að eftirfarandi spurningu án þess að nokkur geti svarað henni fyrir mig og mig langar að auglýsa eftir vangaveltum um málið. Um möguleikann að ég geti haft rétt fyrir mér hvað þetta varðar.
Hvar eru adhd börnin sem gengur vel í lífinu?
Þessi sem fá ekki greiningu af því þau fá nákvæmlega þann félagslega og tilfinningalega stuðning sem þau þurfa frá byrjun og valda þessvegna samferðafólki sínu síður truflun.
Ég er ekki greind með adhd ennþá. Ég efast um að ég láti greina það hjá mér. Ég er búin að fá svo margar tilgangslausar greiningar að mér er í sjálfu sér skítsama hvað Einhverjum Einhverssyni finnst um andlegt heilbrigði mitt. En ég tengi ákaflega sterkt við bækling adhd samtakanna um stúlkur og adhd.
Það veldur mér ekki bara óhug og sorg að þennan bækling lesi foreldrar sem trúa því að dætur þeirra gætu þurft spítt til þess að ná stjórn á lífi sínu á barnsaldri - heldur fór ég hreinlega að gráta þegar ég sá hvaða einkenni adhd stelpur eiga sameiginleg. Þar gefa samtökin sér orsakir og f0rsendur sem ekki bara niðurlægja einstaklinga út frá kyni - heldur er hamrað á því að hægt sé að breyta þessum stúlkum í hljóðar og prúðar englastelpur með því að uppræta eðlislæg einkenni þeirra.
Að börn "þjáist" af adhd er líka viðbjóðsleg framsetning á ástandi sem er ólæknanlegt með öllu.
Ég trúi því nefnilega að ofvirkni sé ekkert neitt of. Það er einfaldlega viðvarandi meiri virkni og það getur verið skaðlegt fyrir barnið að stöðugt verið að halda aftur af því og banna því að vera eins og því er eðlilegt. Pabbi minn var látinn læra að skrifa með hægri af því það var ekki "eðlilegt" að vera öfugur og skrifa með vinstri.
Ef ég er ofvirk veit ég að þörfin fyrir hreyfingu er jafnsterk og þörfin fyrir að fara á klósettið.
Ég upplifi skólagöngu mína sem einn allsherjar terror.
Af því að það var aldrei vinnufriður. Ég þarf algjöran frið til að læra. Ef ástandið í skólastofunni var þannig að þar var ekki þögn og friður - náði ég hvort sem er ekki að festa hugann.
Ég lærði að lesa og skrifa heima hjá mér áður en ég fór inn í skólakerfið og það varð menntunarlegri framtíð minni til bjargar.
Af því ég get ekki verið kyrr og steinþagað nema í afar stuttan tíma í einu og þarf líkamlega útrás á hverjum einasta degi. Það hefur nákvæmlega ekkert breyst en kemur ennþá í veg fyrir að ég fari aftur í nám.
Af því að þær reglur sem voru settar voru ólög sem aldrei var farið eftir. Það er mín reynsla að maður geti beygt og brotið allar reglur í skólakerfinu án þess að það hafi nokkrar afleiðingar. Maður kjaftar sig bara út úr vandræðunum, aftur og aftur og aftur og aftur og aftur......
Það er mín trú að þau börn sem í dag eru kölluð foringjaefni og efni í afreksíþróttafólk séu einmitt hinn endinn á adhd flórunni. Einstaklingarir sem við lítum öll upp til og viljum líkjast. Hetjur sem láta að sér kveða með sjaldséðum innri krafti og marka djúp spor í líf þeirra sem fylgja þeim.
Ég ætla aldrei að líta á barn með adhd sem gallaðan eða veikan einstakling. Ég ætla að líta svo á að það barn hafi möguleika sem barn með lága virkni getur aldrei látið sig dreyma um.
Hetju og Hollywooddraumar geta ræst hjá þeim hafa POWER!
............ekki hinum

Saturday, March 10, 2012

Þroskaröskunarheftun


Ég er einkar ófullkomin mannvera. Dómhörð með eindæmum og svarthvít í hugsun. Til þess að halda sönsum reyni ég stöðugt að koma heildarmynd á heiminn og mannfólkið en ég veit að það verður aldrei neinn allsherjarsannleikur sem kemur út úr þeim fálmkenndu þreyfingum.
Minn sannleikur verður aldrei annað en minn. Og hann verður aldrei endanlegur því ég er stöðugt að þroskast og breytast. Á hverju ári fæ ég aukinn umburðarlyndiskvóta og þegar ég verð orðin gömul og grá, reikna ég með því að hafa öðlast gjöf friðarins í hjartanu. Stundum held ég að það sé snilldin í þessu öllu. Þegar ég get horft á og fylgst með öðrum án þess að finna nagandi þörf fyrir að tjá mig um það eða dæma það - þá verð ég loksins orðin fullorðin. Þegar ég hætti að leika Guð og fæ að vera gott og hlýðið barn.
En það er þannig með þroskann. Hann á það til að vera sársaukafullur. Sérstaklega fyrir egóið. Ég finn fyrir líkamlegum höfnunarviðbrögðum þegar fólk reynir að þrýsta á samvisku mína og benda mér á að ég sé að haga mér eins og barn. En friðurinn sem fylgir því að gera rétt er einfaldlega það langstærsta og langbesta sem ég hef upplifað og þannig svo stærsta ráðandi aflið í lífi mínu að ég er háð því að reyna að laga til rangindin og reyna að vera góð.
Miðað við hversu stjarnfræðilega oft ég hef haft rangt fyrir mér og framkvæmt eins og fáviti - held ég að ég sé þessi týpa sem þarf einhverskonar kerfisbundið samviskukerfi til að minna mig á það - daglega og helst oftar - að ég er ekki Guð, ég er ekki betri og ég ber ábyrgð.
Það var nú allt =)