Wednesday, January 11, 2012

Nýja hæpið

Sem fullkomlega vanhæf þegar kemur að sagnfræðilegum staðreyndum hef ég búið til eigin veruleika í formi atburðarásar í tímaröð. Má vera að einhvern veruleika sé að finna í annars heimatilbúnum staðreyndavillum, en það má líka vel vera að allt sé uppspuni frá rótum.


Ég held að íslenska þokkadísin sé búin að fá nóg af hæpinu. Hún nennir ekki lengur að þrífa og þvo og skeina og smæla og bjóða og þiggja og gefa endalaust. Batteríin eru tóm og þau verður að hlaða í háskóla ef ljóskan á ekki að ganga af vitinu. Sérstaklega ef íslenski víkingurinn er afbrýðisamur eða í fýlu á kantinum.


Alveg frá því að fyrsti tyggjópakkinn lenti hér á skerinu fyrir misskilning sem kallast heimsstyrjöldin síðari, hefur íslenska þokkadísin haft nef fyrir því hverjir stjórni heiminum. Og hún hefur í áratugi kosið að auka kyn sitt með mönnum sem leggjast í víking (rétt eins og stöllur hennar í suður ameríku og eru íslenskum sjómönnum vel kunnugar (sumir-sumar)) og ráða yfir mörgum þrælum. Hvernig sem tíðin hefur verið, hefur það aldrei klikkað að íslenska þokkadísin þefar uppi karlmennsku og velgengni hvors sem hana er að finna í sterkum höndum, hyggindum eða hugrekki.


Veruleikafirrtir sérfræðingar með útlitsdýrkunarheilkennisrof á lokastigi sem trúðu alltaf heitar á skoðanakannanir er sannfæringu sína – hættu að virka sem söluvara eftir hrunið og fjölmiðlar auglýstu eftir nýrri ímynd karlmennsku.


Íslenski víkingurinn kom aldrei sérstaklega vel út í samanburði við hollívúddseraða smjörkúka framleidda af samkynhneygðu fólki með átröskun. Það er alveg á hreinu. Í áratugi hefur JR- dressmann-bondinn verið hin upphæpaða karlmennska vesturlanda og það vissu margar eitursnjallar íslenskar flugfreyjur. Eins og frægt er orðið. En svo gerðist svolítið merkilegt.


Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvar fræið náði að spýra – ég held að það hafi svolítið verið að gerjast síðan Dorrit tók fyrstu listalopalúðana undir sinn verndarvæng af því hún sá að þarna var ónýttur akur – margra þúsund ára velgengni bundinn í klafa af tískustjórnendum elítunnar.


Ég veit hinsvegar hver trendsetterinn er.


Hann heitir Fúsi og var í íslenska handboltalandsliðinu. Hann er holdgerfingur hinnar “nýju” karlmennsku. Á eftir honum honum hafa menn sem neita að líta út eins og hollívúddsmjörkúkar aftur og aftur skorað bæði á íslands og heimslistanum í ofurkarlmennsku. Þeir sem hafa tekið Fúsann á málin eru til dæmis hálf íslenska karlþjóðin, Mugison, næstum allir sem eiga disk með Skálmöld og ásatrúarfélagið (sem voru reyndar með þetta allan tímann).


Ég veit ekki hvort hægt er að skilja hvert ég er að fara með þessu. Til þess að lýsa best því ástandi sem ríkir hérlendis þá er það svona:


Íslenska þokkadísin hefur látið eftir sæti sitt sem aðalaðdráttarafl erlendra ferðamanna (næst á eftir náttúrunni) vegna þess að nú getur íslenski þokkapilturinn ekki bara farið olinn hér heima – hann getur farið olinn globallí. Og unnið. Hann getur orðið HIN NÝJA KARLMENNSKA HEIMSINS !


Þetta vita menn sem búa til hollívúddmyndir og ráða fyrirsætur – gangi ykkur vel drengir mínir....

...þið rúllið þessu upp =)