Mér hefur alltaf líkað vel við börn og fólk sem er barnalegt.
Það sem kveikir óendanlega ást mína á börnum er sú staðreynd að það er ekki búið að skemma þau með höftum í hugsun og þessvegna getur allt verið allt.
Stóll getur verið bátur og pottlok getur verið stýri. Flísteppi yfir stól getur breytt heiminum í tjald sem getur flogið og engar takmarkanir eru vegi fyrir því að öll heimsins ævintýri spretti fram og umbreyti hversdagsleikanum úr grámyglu í gull.
Ég elska að fara með börnum í vettvangsferðir. Rannsaka heiminn og velta öllu fyrir mér í gegn um hugarheim þess sem tekur engu sem gefnu en gefur heiminum merkingu jafn óðum og upplifunin á sér stað. Að gefa gaum að þeim undrum alheimsins sem hinn fullorðni hefur lært að leiða hjá sér, eins og fugli á sundi eða tré í skógi. Hvað eru þau að hugsa? Hvernig líður þeim? Hver er saga þeirra. Og þegar svörin spretta fram úr hugarheimi barnsins ljúkast upp dyr að heimi sem er í senn ótakmarkaður og fagur.
Við erum uppfull af hroka þegar við ætlum að segja börnum hvernig á að vera. Við vitum best. Og heimurinn er sönnun okkar. Okkar besta er heimurinn eins og hann er.
Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur
Ég ætla að verða gömul áður en ég verð fullorðin.