Saturday, March 26, 2011

Ég ætla að verða gömul áður en ég verð fullorðin




Mér hefur alltaf líkað vel við börn og fólk sem er barnalegt.

Það sem kveikir óendanlega ást mína á börnum er sú staðreynd að það er ekki búið að skemma þau með höftum í hugsun og þessvegna getur allt verið allt.
Stóll getur verið bátur og pottlok getur verið stýri. Flísteppi yfir stól getur breytt heiminum í tjald sem getur flogið og engar takmarkanir eru vegi fyrir því að öll heimsins ævintýri spretti fram og umbreyti hversdagsleikanum úr grámyglu í gull.

Ég elska að fara með börnum í vettvangsferðir. Rannsaka heiminn og velta öllu fyrir mér í gegn um hugarheim þess sem tekur engu sem gefnu en gefur heiminum merkingu jafn óðum og upplifunin á sér stað. Að gefa gaum að þeim undrum alheimsins sem hinn fullorðni hefur lært að leiða hjá sér, eins og fugli á sundi eða tré í skógi. Hvað eru þau að hugsa? Hvernig líður þeim? Hver er saga þeirra. Og þegar svörin spretta fram úr hugarheimi barnsins ljúkast upp dyr að heimi sem er í senn ótakmarkaður og fagur.

Við erum uppfull af hroka þegar við ætlum að segja börnum hvernig á að vera. Við vitum best. Og heimurinn er sönnun okkar. Okkar besta er heimurinn eins og hann er.

Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur
Ég ætla að verða gömul áður en ég verð fullorðin.

Wednesday, March 23, 2011

Við mótmælum niðurskurði




Við mótmælum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.
Við sættum okkur ekki við að fárveikt fólk sé sent heim til fátækra ættingja til aðhlynningar.
Það er fáránlegt að niðurskurður í landinu eigi að bitna á barnafólki.
Skattahækkanir geta ekki gengið lengra.
Íslenskar fjölskyldur geta ekki borgað þetta verð fyrir bensín.
Skólakerfið má ekki við öðrum eins niðurskurði og er boðaður. Andlegu og líkamlegu atgerfi framtíðarinnar er ógnað.

Svona hljóma stadusarnir og fyrirsagnirnar allsstaðar.

Mig grunar að sorglega stór hluti þess fólks sem segir þetta ætli að tryggja þetta kreppuástand til framtíðar með því að samþykkja Icesave.

Og það er svo RANGT að ég gæti grenjað.

Monday, March 21, 2011

Að lokum

Eftir að hafa verið á bólakafi í fréttum af öllu mögulegu tagi í háa herrans tíð, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki til neitt sem heitir fréttir.
Samkvæmt orðabók Háskólans merkir þetta orð frásögn. Góð saga þarf ekki endilega að vera sönn, og það vita fjölmiðlamenn.

Á Íslandi telst það til frétta að ónafngreindur maður á fullorðinsaldri hafi óvart notað píkusjampó konu sem áður var karl.
Eins er það fréttaefni að Líbíumenn ættu að ráða örlögum forseta síns. Kanabis fannst í húsi í Hafnarfirði. Árni Þór er alveg hissa að samflokksmenn hans hafi verið búnir að fá nóg. Bjarna Ben finnst hinir rífast of mikið innbyrgðis. Útlendingi var vísað út landi. Ísbjörninn Knútur var þunglyndur. Varað við Bótoxaðgerðum í heimahúsum. Góðu kallarnir sprengdu stýriflaugar í Líbíu fyrir sex milljarða á einni nóttu. Jóhanna ætlar að funda með Steingrími á næstu dögum.
Og svo framvegis.

Vitið þið hvað?

Ég dauðskammast mín fyrir að hafa tekið fréttir alvarlega fram að þessu. Þetta er keppni um peninga. Nákvæmlega það og ekkert annað. Fréttir eru áróðursherferðarmaskínur í eigu eða stjórn hagsmunahópa. Allar fréttir miða að því að auka sölu fjölmiðils í því skyni að geta selt auglýsingar fyrir meiri peninga.
Og það er ógeðslegt.

Nákvæmlega eins og pólitík er ógeðsleg.

Það er mín skoðun.

Saturday, March 19, 2011

Skólamál

Það er gefið mál að fólk vill ekki vera sammála. Og fólk vill frekar verða reitt en breytast.

Núna er í fyrsta skipti tækifæri, í mjög langan tíma, að nýta þær rannsóknir og þær aðferðir sem vísindasamfélagið hefur lagt okkur til og breyta skólakerfinu.

Rannsóknir sýna að heimanám virkar ekki.
Samt er enn stuðst við heimanám á Íslandi.
Rannsóknir sýna að íslensk börn borða ekki nægilega mikið af grænmeti og ávöxtum.
Samt fá íslensk börn ekki grænmeti og ávexti í skólanum.
Rannsóknir sýna að íslensk börn eru að fitna og þau hreyfa sig of lítið.
Samt fá íslensk börn ekki hreyfingu við hæfi í skólum.

Börn eiga að læra samvinnu með því að vinna saman í hóp.
En þeim er aldrei sagt hvernig þessi samvinna á að hjálpa þeim í framtíðinni og hvað hún endurspeglar úr samfélaginu. Niðurstaðan er sú að mörg börn gera ekkert í hópvinnu og treysta því að aðrir finni út úr verkefninu. Aðrir skila lágmarki, af því þeir hafa ekki metnað. Svo eru líka þeir sem gera verkefnin ein og af af metnaði og láta hina kvitta undir að þau hafi hjálpað.

Og þetta endurspeglast í samfélaginu.
Ég geri ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir mig.

Það er löngu kominn tími á það að íslenskir kennarar og foreldrar setji það niður á blað, hver tilgangur menntunnar sé. Og það verða þau að gera í samráði við börnin.
Þegar menn eru orðnir á eitt sáttir við það hver tilgangur menntakerfisins sé, legg ég til að sá tilgangur verði hengdur upp í hverri einustu kennslustofu á Íslandi og á öllum skólastigum.

Þá þyrftu kennarar, nemendur og foreldrar aldrei framar að spyrja sig:
Af hverju er þetta svona?

Tilgangur menntakerfisins er einfaldlega allt of loðinn og tilfinningabólginn til þess að hægt sé að gera breytingar. Breytingar eru nefnilega það eina sem við verðum alltaf að vera opin fyrir.
Börn læra stöðugt. Þau læra af foreldrum sínum, vinum, ættingjum og fjölmiðlum og sá litli hluti af þeim lærdómi sem þau taka inn í gegnum skólakerfið ætti að auðvelda þeim lífið, en ekki gera það erfiðara. Þau ættu ekki að vera dæmd úr leik af því þau hafa aðra drauma en verða prófessorar.

Monday, March 14, 2011

Hungurklám




Þegar lítið barn fæðist í fátækri Afríku, verður til von og gleði. Sama vonin og gleðin og ástin sem við finnum til þegar lítið barn fæðist í fjölskyldunni okkar. Rétt eins og foreldrar í Afríku, einsetjum við okkur að gera allt sem við getum svo að þetta litla barn fái það sem það þarfnast til þess að vera hamingjusamt og frjálst.

Við sem búum við öryggi og trygg lífskjör, setjum okkur markmið um menntun, næringu, hreyfingu og reynum með öllum mætti að tryggja afkvæmum okkar góð lífsskilyrði og hamingju. Og við viljum meina að það séu mannréttindi að börnin okkar fái að dvelja í heimi þar sem heilsugæsla, fæðuúrval og menntun séu þau bestu í veröldinni.

Allt ofantalið er mestmegnis byggt á framförum í menntun og tækniþróun. Eitt orð getur breytt Afríku í velferðarsvæði og hamingjuálfu. Hvaða orð skyldi það vera?

Þeir eiga nægt vinnuafl. Þeir geta lært. Þá má lækna. Þeir geta ræktað mat. Þeir geta stundað sjóinn. Þeir geta framleitt fæðu. Þeir geta stórgrætt á ferðamannaþjónustu. Þeir geta hvað sem þeir óska sér sjálfir að gera. Þeir eiga kol og olíu. Þeir eiga ósnortna náttúru. Það vantar bara einn fasta í velferðarjöfnuna þeirra. Hvað?

Grundvöllur þess að óskir barna í Afríku geti ræst, er að þau fái menntun. Menntun er lykillinn að velgengni. Það vita allir. En hvernig getum hjálpað þeim að mennta sig? Hvar strandar allt?

Það strandar eiginlega allt á rafmagni.
Straumi a la Tesla.

Vestulandabúar sem telja sig til umhverfissinna mótmæla alfarið því, að ár verði virkjaðar í Afríku. Að þar verði reist kjarnorkuver. Að þeir nýti kol og olíu. Þeir eiga að gjörasvovel að nota vind og sólarorku. Annars eru þeir morðingjar jarðarinnar.

Þetta meikar ekki sens. Enganveginn og alls ekki. Við einfaldlega verðum að koma straumi á Afríku. Fólk verður að geta geymt fæðu. Lýst húsakynni með öðru en því að brenna rusl. Fólk verður að geta dælt upp vatni og leitt það um allar trissur. Það verður að koma því inn í hausinn á öllum stjórnvöldum í heiminum að við berum ábyrgð á þvi að koma straumi á Afríku svo menntunin, næringin, heilsugæslan og allar framfarirnar geti farið af stað.

Afríka kemur til með að elta heiminn í notkun á grænni orku þegar við höfum fundið ódýra leið til þess að nýta hana. Það er ekki spurning. Þeir gætu jafnvel orðið á undan okkur. Fært okkur lausnina.

Ég hélt ekki að ég ætti eftir að segja þetta, en:
  • Geta þeir sem byggðu alþjóðlegu geimstöðina ekki byggt eins og nokkur kjarnorkuver um Afríku fyrir sama pening og geimstöðin kostaði?
  • Geta Afríkubúar ekki þjóðnýtt allt sem er í eigu útlendinga í Afríku?
Ég vildi að svo væri.

Tuesday, March 1, 2011

Þrjú mál




Eitt.
Enginn hefur á sannfærandi hátt fært vitsmunaleg rök fyrir því að það kerfi sem skilaði okkur í kreppu, virki ennþá í grundvallaratriðum. Þannig smjatta allir á orðum eins og sjálfbærni en fullyrða að við verðum að hafa aðgang að lánsfé erlendis og að við verðum að fá hingað erlenda fjárfesta. Þrátt fyrir að allar tilraunir í þá veru síðastliðna áratugi hafi mistekist. Allt þetta fína lánsfé sem við fengum erlendisfrá, gufaði bara upp í skítalykt.

Ég vil vera þessi erlendi fjárfestir og ég vil lána fólki í útlöndum peninga.
Annað missjón er feilmissjón.
.
Tvö.
Þekkingu aflar maður sér - Viska þroskast með manni
Menntun segir nákvæmlega ekkert um það hvort maður er vitur. Menntun getur hinsvegar verið mælistika á greind, metnað, einbeitni og allskonar annað.
Viskan mælist á því hvernig maður hagar sér í samfélagi við annað fólk.

Ég vil að íslendingar taki upp á því fyrst allra þjóða heimsins að kenna siðfræði upp í gegnum allan grunnskólann, framhaldsskólann og háskólann.
Í fokking alvöru. Þá eigum við einhvern séns.
Við getum gert þetta á kostnað dönskukennslu ef fólk fær hland fyrir hjartað vegna péninga.

Þrjú.
Ég vildi að ég gæti fengið allt sem ég vildi.

En minn vilji er bara alls ekki nógu merkilegur til þess að öfl í alheiminum hrökkvi upp og trixi í takt við eigingirni mína. Það verð ég að gjöra svo vel og sætta mig við. Og eins og það sé ekki nóg. Ég þarf að venja mig af því að hafa skoðanir líka - á öllu. Of mikil orka er að dreifast út um allt. Ég verð að taka mig í vistræna þerapíu með áherslu á geðræna sjálfbærni.