Wednesday, September 28, 2011

Vampíra




Ég er með torkennilegan sjúkdóm.

Hann lýsir sér þannig að ég virka alveg eins og vampíra:

Þoli ekki beint sólarljós nema að húðin steikist og meðvitund slokkni
Líkaminn neitar að vinna járn úr fæðu
Ólýsanleg velgja fyrir öllum mat
Misgott innræti

Kannast einhver við að hafa orðið að vampíru?
Er til eitthvað við þessu (annað en hvítlaukur, sem virkar alls ekki)?

Jah! Nú eru góð ráð dýr...

Tuesday, September 27, 2011

Alheimstrixið




Það er ekki leiðinlegt að fá hrós =)


Einhvernveginn hefur það orðið svo síðustu mánuði að hið undarlegasta fólk er að hafa uppi á mér og biðja mig um að spá fyrir sér. Sem er mér bæði ljúft og skylt.

Einkum og sér í lagi vegna þess að ég er ekki skyggn og þykist ekki vera það.

Mér líkar það vel að koma að gagni þó ekki sé nema til þess eins að gefa fólki tíma til þess að huga að sálarlífi sínu á eigin forsendum án þess að eiga það á hættu að vera sent út með greiningu og lyfseðil. Ég finn að fólkið sem setur sig í samband við mig er oftar en ekki í einhverri krísu og finnur ekki leið út. Ég held að það sé einfaldlega auðveldara að þyggja góð ráð, frá bláókunnugri manneskju, sem ekki fylgja neinar kvaðir eða eru settar fram sem einhver skilyrði. Þannig er ég allavegana.

Og ef það virkar að leiða hugann að fyrirfram ákveðnu kerfi og leyfa sér að kafa ofan í þúsund ára gamlar vangaveltur um tilgang lífsins, endurskilgreina forsendur eigin hamingju eftir því sem maður þroskast og breyta áherslum hins daglega lífs á þann veg sem gefur fleiri hamingjumínútur, ætla ég að halda áfram að reyna þá aðferð fyrir sjálfa mig og þá sem mér þykir vænt um.

En ég er nottlega bölvuð norn og tek ekkert tillit til þeirra viðkvæmu skoðana sem fólk kann að hafa á því sem ekki hefur verið sannað með endurteknum tilraunum.

Góðar stundir.

Sunday, September 18, 2011

Hvar er umboðsmaður fátækra?



Þeir sem ekki geta varið sig lagalega gagnvart ríkinu og sveitarfélögum og hafa engan nátengdan til þess að ganga í málin fyrir sig af festu, eiga mest bágt á Íslandi. Velferðarþjónustan er hönnuð utanum sterka félagslega einstaklinga.

Við búum í landi þar sem þar sem öllum á að vera tryggt húsaskjól og lágmarks framfærsla. Þetta er tryggt með lögum um félagsþjónustu, barnalögum, stjórnarskránni o.s.frv. . En þessum lögum er ekki framfylgt. Og það sem er verra, er að hluti þess fólks sem starfar við að veita þessa þjónustu, hefur líkt og Bjarnfreðarson – misskilið – hlutverk sitt innan kerfisins.

Stjónmálamönnum ber að fara að þessum lögum – og þeir bera ábyrgð á því að allir þeirra undirmenn geri slíkt hið sama. En þegar stjórnmálamenn senda starfsfólki sínu þau skilaboð að engir peningar séu til skiptana til þess að fæða og klæða fátæksta fólk landsins – hefur sama starfsfólk tilhnneygingu til þess að verja borgarsjóð eða ríkissjóð fyrir ágangi fátækra.

Það er ekki góð pólitík!

Þegar heimatilbúið hallæri ríkir í landinu (eins og núna) og fólk sveltur – er það fyrir neðan allar hellur að pólitíkusar skuli halda því fram að engir peningar séu til. Það er til marks um algera kúgun og uppgjöf að tala um fjárskort og glöggt merki um að viðkomandi hafi týnt tilgangi sínum í fjölmiðlaveislu sem er keyrð áfram af peningum. Fram að hruni og á hverjum degi síðan, er bara ein tegund af fólki sem er á 100% frípassa þegar kemur að réttlæti. Það fólk og fyrirtækin sem það á, hleður á sig þykku spiklagi í hverjum mánuði á kostnað allra sem búa í landinu. Þetta eru eigendur fjármálafyrirtækja. Sumir meira að segja íslenskir.

(þessa íslensku sé ég fyrir mér drekka blóð úr ungabörnum og sleikja útum, rymjandi af græðgi)

Þetta fólk ræður yfir meiri peningum en restin af landanum samanlagt. Og þetta fólk má ekki skattleggja. Af því það borgar fyrir auglýsingar stjórnmálaflokka og sturtar peningum í vasa þeirra sem ráða. Og það er nú allt sem er. Ósköp einfalt.

Í hvert skipti sem þið heyrið um niðurskurð, fátækt, matargjafir, hættuleg leiktæki við leikskóla og svöng gamalmenni, skuluð þið vita, að á bak við niðurskurðinn er feitt svín að rúnka sér með hjálp stjórnmálamanns og það er einbeittur brotavilji gagnvart þeim sem síst geta varið sig.

Og helvíti bara.

Tuesday, August 30, 2011

Dagur Eitt




Það var taugaveikluð miðaldra kona sem fálmaði sig niður tröppurnar í Stóra Salnum í Kennó (sem heitir einhverju þjóðlegu nafni sem ég man ekki) og tróð sér framhjá röð af fólki á neðsta bekk.
Einhver blómleg bóndadótturleg stúlka var að útlista frábærleika nemendafélagsins með heimakynningarrödd á meðan þessari miðaldra tókst að flækja kápuna sína í stígvélinu og dansa trylltan jafnvægisdans fyrir framan mörghundruð nýnema, á meðan egóinu blæddi út.

Í framhaldinu gat ekkert farið öðruvísi en þannig:

-að röðin af fólkinu sem konan tróð sér framhjá var stjórnarelíta Kennó (aka menntavísindasviðs hí).

Og hvert af öðru stóðu þau upp og héldu háleitar ræður um allskonar sem ég missti af vegna taugablakk-áts!

Allar frekari hugmyndir um kennarahösl eru út af borðinu í bili.
Nú reynir á framheilann!

Saturday, March 26, 2011

Ég ætla að verða gömul áður en ég verð fullorðin




Mér hefur alltaf líkað vel við börn og fólk sem er barnalegt.

Það sem kveikir óendanlega ást mína á börnum er sú staðreynd að það er ekki búið að skemma þau með höftum í hugsun og þessvegna getur allt verið allt.
Stóll getur verið bátur og pottlok getur verið stýri. Flísteppi yfir stól getur breytt heiminum í tjald sem getur flogið og engar takmarkanir eru vegi fyrir því að öll heimsins ævintýri spretti fram og umbreyti hversdagsleikanum úr grámyglu í gull.

Ég elska að fara með börnum í vettvangsferðir. Rannsaka heiminn og velta öllu fyrir mér í gegn um hugarheim þess sem tekur engu sem gefnu en gefur heiminum merkingu jafn óðum og upplifunin á sér stað. Að gefa gaum að þeim undrum alheimsins sem hinn fullorðni hefur lært að leiða hjá sér, eins og fugli á sundi eða tré í skógi. Hvað eru þau að hugsa? Hvernig líður þeim? Hver er saga þeirra. Og þegar svörin spretta fram úr hugarheimi barnsins ljúkast upp dyr að heimi sem er í senn ótakmarkaður og fagur.

Við erum uppfull af hroka þegar við ætlum að segja börnum hvernig á að vera. Við vitum best. Og heimurinn er sönnun okkar. Okkar besta er heimurinn eins og hann er.

Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur
Ég ætla að verða gömul áður en ég verð fullorðin.

Wednesday, March 23, 2011

Við mótmælum niðurskurði




Við mótmælum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu.
Við sættum okkur ekki við að fárveikt fólk sé sent heim til fátækra ættingja til aðhlynningar.
Það er fáránlegt að niðurskurður í landinu eigi að bitna á barnafólki.
Skattahækkanir geta ekki gengið lengra.
Íslenskar fjölskyldur geta ekki borgað þetta verð fyrir bensín.
Skólakerfið má ekki við öðrum eins niðurskurði og er boðaður. Andlegu og líkamlegu atgerfi framtíðarinnar er ógnað.

Svona hljóma stadusarnir og fyrirsagnirnar allsstaðar.

Mig grunar að sorglega stór hluti þess fólks sem segir þetta ætli að tryggja þetta kreppuástand til framtíðar með því að samþykkja Icesave.

Og það er svo RANGT að ég gæti grenjað.

Monday, March 21, 2011

Að lokum

Eftir að hafa verið á bólakafi í fréttum af öllu mögulegu tagi í háa herrans tíð, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það er ekki til neitt sem heitir fréttir.
Samkvæmt orðabók Háskólans merkir þetta orð frásögn. Góð saga þarf ekki endilega að vera sönn, og það vita fjölmiðlamenn.

Á Íslandi telst það til frétta að ónafngreindur maður á fullorðinsaldri hafi óvart notað píkusjampó konu sem áður var karl.
Eins er það fréttaefni að Líbíumenn ættu að ráða örlögum forseta síns. Kanabis fannst í húsi í Hafnarfirði. Árni Þór er alveg hissa að samflokksmenn hans hafi verið búnir að fá nóg. Bjarna Ben finnst hinir rífast of mikið innbyrgðis. Útlendingi var vísað út landi. Ísbjörninn Knútur var þunglyndur. Varað við Bótoxaðgerðum í heimahúsum. Góðu kallarnir sprengdu stýriflaugar í Líbíu fyrir sex milljarða á einni nóttu. Jóhanna ætlar að funda með Steingrími á næstu dögum.
Og svo framvegis.

Vitið þið hvað?

Ég dauðskammast mín fyrir að hafa tekið fréttir alvarlega fram að þessu. Þetta er keppni um peninga. Nákvæmlega það og ekkert annað. Fréttir eru áróðursherferðarmaskínur í eigu eða stjórn hagsmunahópa. Allar fréttir miða að því að auka sölu fjölmiðils í því skyni að geta selt auglýsingar fyrir meiri peninga.
Og það er ógeðslegt.

Nákvæmlega eins og pólitík er ógeðsleg.

Það er mín skoðun.

Saturday, March 19, 2011

Skólamál

Það er gefið mál að fólk vill ekki vera sammála. Og fólk vill frekar verða reitt en breytast.

Núna er í fyrsta skipti tækifæri, í mjög langan tíma, að nýta þær rannsóknir og þær aðferðir sem vísindasamfélagið hefur lagt okkur til og breyta skólakerfinu.

Rannsóknir sýna að heimanám virkar ekki.
Samt er enn stuðst við heimanám á Íslandi.
Rannsóknir sýna að íslensk börn borða ekki nægilega mikið af grænmeti og ávöxtum.
Samt fá íslensk börn ekki grænmeti og ávexti í skólanum.
Rannsóknir sýna að íslensk börn eru að fitna og þau hreyfa sig of lítið.
Samt fá íslensk börn ekki hreyfingu við hæfi í skólum.

Börn eiga að læra samvinnu með því að vinna saman í hóp.
En þeim er aldrei sagt hvernig þessi samvinna á að hjálpa þeim í framtíðinni og hvað hún endurspeglar úr samfélaginu. Niðurstaðan er sú að mörg börn gera ekkert í hópvinnu og treysta því að aðrir finni út úr verkefninu. Aðrir skila lágmarki, af því þeir hafa ekki metnað. Svo eru líka þeir sem gera verkefnin ein og af af metnaði og láta hina kvitta undir að þau hafi hjálpað.

Og þetta endurspeglast í samfélaginu.
Ég geri ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir mig.

Það er löngu kominn tími á það að íslenskir kennarar og foreldrar setji það niður á blað, hver tilgangur menntunnar sé. Og það verða þau að gera í samráði við börnin.
Þegar menn eru orðnir á eitt sáttir við það hver tilgangur menntakerfisins sé, legg ég til að sá tilgangur verði hengdur upp í hverri einustu kennslustofu á Íslandi og á öllum skólastigum.

Þá þyrftu kennarar, nemendur og foreldrar aldrei framar að spyrja sig:
Af hverju er þetta svona?

Tilgangur menntakerfisins er einfaldlega allt of loðinn og tilfinningabólginn til þess að hægt sé að gera breytingar. Breytingar eru nefnilega það eina sem við verðum alltaf að vera opin fyrir.
Börn læra stöðugt. Þau læra af foreldrum sínum, vinum, ættingjum og fjölmiðlum og sá litli hluti af þeim lærdómi sem þau taka inn í gegnum skólakerfið ætti að auðvelda þeim lífið, en ekki gera það erfiðara. Þau ættu ekki að vera dæmd úr leik af því þau hafa aðra drauma en verða prófessorar.

Monday, March 14, 2011

Hungurklám




Þegar lítið barn fæðist í fátækri Afríku, verður til von og gleði. Sama vonin og gleðin og ástin sem við finnum til þegar lítið barn fæðist í fjölskyldunni okkar. Rétt eins og foreldrar í Afríku, einsetjum við okkur að gera allt sem við getum svo að þetta litla barn fái það sem það þarfnast til þess að vera hamingjusamt og frjálst.

Við sem búum við öryggi og trygg lífskjör, setjum okkur markmið um menntun, næringu, hreyfingu og reynum með öllum mætti að tryggja afkvæmum okkar góð lífsskilyrði og hamingju. Og við viljum meina að það séu mannréttindi að börnin okkar fái að dvelja í heimi þar sem heilsugæsla, fæðuúrval og menntun séu þau bestu í veröldinni.

Allt ofantalið er mestmegnis byggt á framförum í menntun og tækniþróun. Eitt orð getur breytt Afríku í velferðarsvæði og hamingjuálfu. Hvaða orð skyldi það vera?

Þeir eiga nægt vinnuafl. Þeir geta lært. Þá má lækna. Þeir geta ræktað mat. Þeir geta stundað sjóinn. Þeir geta framleitt fæðu. Þeir geta stórgrætt á ferðamannaþjónustu. Þeir geta hvað sem þeir óska sér sjálfir að gera. Þeir eiga kol og olíu. Þeir eiga ósnortna náttúru. Það vantar bara einn fasta í velferðarjöfnuna þeirra. Hvað?

Grundvöllur þess að óskir barna í Afríku geti ræst, er að þau fái menntun. Menntun er lykillinn að velgengni. Það vita allir. En hvernig getum hjálpað þeim að mennta sig? Hvar strandar allt?

Það strandar eiginlega allt á rafmagni.
Straumi a la Tesla.

Vestulandabúar sem telja sig til umhverfissinna mótmæla alfarið því, að ár verði virkjaðar í Afríku. Að þar verði reist kjarnorkuver. Að þeir nýti kol og olíu. Þeir eiga að gjörasvovel að nota vind og sólarorku. Annars eru þeir morðingjar jarðarinnar.

Þetta meikar ekki sens. Enganveginn og alls ekki. Við einfaldlega verðum að koma straumi á Afríku. Fólk verður að geta geymt fæðu. Lýst húsakynni með öðru en því að brenna rusl. Fólk verður að geta dælt upp vatni og leitt það um allar trissur. Það verður að koma því inn í hausinn á öllum stjórnvöldum í heiminum að við berum ábyrgð á þvi að koma straumi á Afríku svo menntunin, næringin, heilsugæslan og allar framfarirnar geti farið af stað.

Afríka kemur til með að elta heiminn í notkun á grænni orku þegar við höfum fundið ódýra leið til þess að nýta hana. Það er ekki spurning. Þeir gætu jafnvel orðið á undan okkur. Fært okkur lausnina.

Ég hélt ekki að ég ætti eftir að segja þetta, en:
  • Geta þeir sem byggðu alþjóðlegu geimstöðina ekki byggt eins og nokkur kjarnorkuver um Afríku fyrir sama pening og geimstöðin kostaði?
  • Geta Afríkubúar ekki þjóðnýtt allt sem er í eigu útlendinga í Afríku?
Ég vildi að svo væri.

Tuesday, March 1, 2011

Þrjú mál




Eitt.
Enginn hefur á sannfærandi hátt fært vitsmunaleg rök fyrir því að það kerfi sem skilaði okkur í kreppu, virki ennþá í grundvallaratriðum. Þannig smjatta allir á orðum eins og sjálfbærni en fullyrða að við verðum að hafa aðgang að lánsfé erlendis og að við verðum að fá hingað erlenda fjárfesta. Þrátt fyrir að allar tilraunir í þá veru síðastliðna áratugi hafi mistekist. Allt þetta fína lánsfé sem við fengum erlendisfrá, gufaði bara upp í skítalykt.

Ég vil vera þessi erlendi fjárfestir og ég vil lána fólki í útlöndum peninga.
Annað missjón er feilmissjón.
.
Tvö.
Þekkingu aflar maður sér - Viska þroskast með manni
Menntun segir nákvæmlega ekkert um það hvort maður er vitur. Menntun getur hinsvegar verið mælistika á greind, metnað, einbeitni og allskonar annað.
Viskan mælist á því hvernig maður hagar sér í samfélagi við annað fólk.

Ég vil að íslendingar taki upp á því fyrst allra þjóða heimsins að kenna siðfræði upp í gegnum allan grunnskólann, framhaldsskólann og háskólann.
Í fokking alvöru. Þá eigum við einhvern séns.
Við getum gert þetta á kostnað dönskukennslu ef fólk fær hland fyrir hjartað vegna péninga.

Þrjú.
Ég vildi að ég gæti fengið allt sem ég vildi.

En minn vilji er bara alls ekki nógu merkilegur til þess að öfl í alheiminum hrökkvi upp og trixi í takt við eigingirni mína. Það verð ég að gjöra svo vel og sætta mig við. Og eins og það sé ekki nóg. Ég þarf að venja mig af því að hafa skoðanir líka - á öllu. Of mikil orka er að dreifast út um allt. Ég verð að taka mig í vistræna þerapíu með áherslu á geðræna sjálfbærni.

Monday, February 28, 2011

Að gera vel




Ég hef alltaf sett hamingju-mælistikuna mína á afköst.
Og það er vængefið og lítt líklegt til árangurs.
Það veit sá sem hefur á ótrúlegan hátt, læknast bæði af ofsakvíðaköstum og viðvarandi alvarlegri kvíðaröskun. Sem var hvorki sjálfgreint ástand né sjálfmeðhöndlað.

Það er nefnilega svo miklu skynsamlegra að gera vel en hratt. Með því að vanda sig og halda sig við efnið af natni og ástúð, verður til umtalsverður frjáls tími. Af því að með því að halda áfram með það sem maður er að gera, potast maður stöðugt áfram. Og maður finnur til fullnægju við að ljúka hlutunum, eins vel og maður gat. Meira getur það einfaldlega ekki orðið.

Tíminn minn er ekki peningar. Tíminn minn er líf mitt.

Þegar tíminn er búinn er allt búið. Það verður ekki tími seinna, til að njóta. Hvorki þegar námið er búið, börnin hafa stækkað, fyrirtækið verður stöndugra, þegar maður er orðinn frægur, þegar maður er orðinn grannur eða þegar maður er loksins hættur að vinna.

Nákvæmlega núna er rétti tíminn til þess að njóta.

Njóta þess sem maður er að fást við. Finna hvernig hver einasta athöfn dagsins í dag hefur þann eina tilgang að gera mann hamingjusaman. Finna lykt og snertingu, heyra orð og hljóð, sjá fegurðina í öllu sem tilheyrir alheiminum. Og fíla það í botn.

Að kjósa að verja tíma sínum í volæði og vesen er glötuð afstaða og ég nenni ekki mæla hamingju mína lengur með peningum, afköstum, framleiðni, skilvirkni, hagnaði, lausnum eða sigrum.

Ég ætla að mæla hamingjuna mína með hjartanu.

Thursday, February 24, 2011

Samfélagið í nærmynd og aðrar hrokafullar afstöður



Ég hlustaði á RUV í dag.

Það er gamall vani að stilla á Gufuna og láta sprenglærða spekúlanta reyna sitt besta að fá mann til þess að kaupa fremur þeirra takmörkuðu sýn á lífið en hinna lítt menntasjóuðu. Róar mann.

Í dag fór það all verulega í taugarnar á mér þegar þrír vitringar settu vegagerð og jarðgöng ítrekað undir sama hatt og "reddingar" og stóriðja hinsvegar.

Hvaða helvítis rugl er það?
Með hvaða rökum má afgreiða vegagerð og stóriðju á sama hátt?
Byrjar hið illa á að byggja veg?
Og svo koma spilltir verktakar og kæfa allt í stóriðju í kjölfarið?

Til þess að byggja upp gott og skilvirkt samfélag, verða samgöngur að vera til fyrirmyndar.

Þetta vita öll góð samfélög. Alls staðar á jörðinni. Og það er alltaf fylgni á milli fátæktar og lélegra samgangna. Það er til dæmis þegar afar fámenn svæði fá ekki þá þjónustu og þau lífsgæði sem því fylgja að vera þátttakandi í því samfélagi þar sem þau greiða skatta.

Í annan stað má nefna þá vísindalega mældu staðreynd að hlutfall gistinátta í ferðaþjónustu við erlenda gesti er lægri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni. Þarna er stærsti vaxtarsprotinn og sífellt meira leiðandi afl í íslensku hagkerfi um að ræða.
Það strandar allt á samgöngum.

Sem nú eru talaðar niður sem aldrei fyrr og jafnvel þó.....


.....tryggari og hraðari samgöngur gætu stuðlað að betri nýtingu á ferskvöru til lands og sjávar. Norrænn veitingastaður með norræna matarhefð var valinn Besta veitingahús í heimi 2010.
......Betri heilsugæslu og betri viðbrögðum við farsóttum, jarðhræringum, slysum og stuðlað að bættari almennum almannavörnum.
.......auknu streymi vinnuafls, auknu streymi ferðamanna, auknu streymi fræði og vísindamanna og aukið streymi á vörum og þjónustu.
.......aukið og jafnara streymi á skotsilfri.

Ef það á nú að fara að selja mér einhverjar aðrar hugmyndir um samgöngur þá get ég ekki beðið...you just try....

Sunday, February 20, 2011

Trix sjálfspróf - fyrir fullorðna

Þetta sjálfspróf er mesta trix sem ég hef séð lengi..

Þetta er svona sálfræðipróf sem reiknar út hvernig persónuleika maður hefur. Þeim mun meiri vinnu sem maður leggur í að svara, þeim mun nákvæmari verður niðurstaðan.

Maður fær sér blað og blýant og skrifar prósentutölu fyrir framan hverja fullyrðingu.
Prósentutalan sýnir hversu sammála maður er fullyrðingunni.

dæmi:

Framsóknarmaður = Fáviti
Ef ég held að 35% framsólknarmanna séu fávitar, set ég þá tölu fyrir framan 1.
Og svo koll af kolli.

  1. framsóknarmaður = fáviti

  2. feitur einstaklingur = viljalaus

  3. kristinn = illa upplýstur

  4. sjálfstæðismaður = spilltur

  5. kvenréttindakona = öfgamanneskja

  6. vísindamaður = líklega með einhverfu

  7. hollywoodstjarna = athyglissjúklingur

  8. fréttamaður = keypt skoðun

  9. ofvirkur = illa upp alinn

  10. vinstri grænn = kommúnisti

  11. kennari = nennir ekki að vinna

  12. bankastjóri = hrokagikkur

  13. háskólastúdent = nennir ekki að vinna

  14. úti á landi fólk = illa upplýst

  15. alkóhólisti = viljalaus

  16. íþróttafólk = frekar heimskt

  17. stöðumælavörður = vinalaus

  18. múhameðstrúar = terroristi

  19. hommi = perri

  20. höfuðborgarbúi = afæta

  21. listamaður = takmörkuð greind

  22. útlendingur á Íslandi = glæpamaður

  23. internetið = slæmt

  24. morgunhani = sennilega ofvirkur

  25. samfylkingarsinni = aumingi

  26. fyrirsæta = átröskunar/geðsjúklingur

  27. reykingafólk = illa gefið fólk

  28. þunglyndur = fýlugjarn

  29. búddisti = gulur

  30. bandaríkjamaður = feitur fáviti


Ókey.

Núna ertu komin með yfirlit yfir skoðanir þínar.

Skref númer tvö er að standa fyrir framan spegil og segja hátt og snjallt "Ég er" og lesa upp orðið sem stendur fyrir aftan samasem-merkið í þeim tilfellum sem prósentutalan fer yfir 25.
Þá getur þú heyrt nákvæmlega hvað þúsundum einstaklinga þykir um þig.

Næst skaltu gera lista yfir alla hópana sem skoruðu yfir 25% hjá þér og skrifa niður nöfn þeirra einstaklinga sem þú þekkir persónulega í hverjum hóp.

Þegar fengin er vísindaleg niðurstaða í skoðanakönnunum þarf a.m.k. 1000 manns til að fá marktæka niðurstöðu.

Ef þú þekkir persónulega yfir 1000 einstaklinga í einhverjum hóp, má segja að þú búir yfir þekkingu til þess að fullyrða um þann hóp. Allt annað er einfaldlega þröngsýn og tilfinningaþrungin persónuleg skoðun þín á einhverju sem þú hefur hvorki þekkingu né færni til að fullyrða um.

Síðasti hluti sjálfsprófsins er fólginn í því að þú horfist í augu við þessa staðreynd í hvert skipti sem þú alhæfir eitthvað um hóp fólks.

Þekkirðu 1000 slíka einstaklinga með nafni?

Ef ekki, er skoðun þín ekki marktæk.

Góðar stundir.

Thursday, February 17, 2011

Í smáum skömmtum læri ég betur og betur að skilja kenninguna mína um allt




Þegar ég fer að velta allskonar hlutum fyrir mér þykir mér gott að vera ein og alveg ótrufluð í langan langan tíma.
Best þykir mér að vaka á nóttunni vegna þess að þá er minni hávaði, minni mengun, minna áreiti fólks og minni geislun (hehehe)...
Og þá get ég hugsað.
Ég er að verða aftur jafn flink eins og ég var þegar ég var lítil að láta eðluheilann í mér (litla heilann) taka yfir framheilann sem er allt of hægvirkur, enda vantengdur mænunni og drekanum.

Þeir sem skilja ekki orð af því sem ég er að segja, og halda kannski að ég sé orðin eitthvað skrítnari en ég er vön, geta hugsanlega tengt við það að maður á alltaf að segja það sem manni dettur fyrst í hug í hraðaspurningum og eins þegar maður dettur í Zónið þegar maður er að púsla og getur allt í einu raðað niður helling í einu út um allt eftir að hafa verið að rembast við að finna út fræðilega hvernig þetta gerist. Þá er eðluheilinn að vinna. Flæðistöð upplýsinga.

Fyrir mér er þetta einhvernveginn þannig að það er eins og allt detti skyndilega INN og öll skynfæri samþættist í heilanum og trixi í rauntíma. Öll frumleg hugsun hverfur á einu bretti og maður er meira eins og tölva. Og þessu ástandi fylgir einhverskonar fullnægja. Ekki beint bliss heldur er maður alveg stjarnfræðilega fúnkerandi og meðvitaður um það á einhvern ópersónulegan hátt.
Það er með hliðsjón af þessu ástandi sem ég sætti mig ekki við skilgreiningar vísindanna á tímanum. Þær eru sorglega fánýtar.

Þetta ástand er akkúrat öfugt við það þegar maður plöggar sig út úr meitrixinu og er í núinu. Eitthundrað prósent að njóta án þess að það þurfi að hafa neina sérstaka merkiningu aðra en að vera. Ég held að það sé það ástand sem sumir kalla hamingjuna og aðrir návist Guðs. Þetta ástand er hægt að kalla fram með hugleiðslu, fallegum minningum, fallegu útsýni eða hverju sem er sem manni þykir fallegt. Raunverulegt eða ekki, skiptir ekki máli.
Þetta ástand getur líka teygt á tímanum eða fryst hann. Getur farið með mann fram og aftur í tíma og til annara landa og stranda og vídda og sólkerfa. Eins og manni þóknast.

Og þá er kominn smá inngangur að því sem mig langaði að segja:
ég var soldið að fatta þetta uppánýtt áðan

Veröldin öll og allt sem í henni er, er einungis mín túlkun á því sem ég hef skynjað frá fæðingu og þessvegna hverfur hann þegar ég dey.
Alheimurinn eins og hver og einn sér hann, deyr með hverjum og einum. Einmitt þess vegna er ekkert að óttast. Þegar við áttum okkur á því að lífið er einfaldlega samsuða af okkur sjálfum og alheiminum, hljótum við líka að átta okkur á því að alheimurinn er á okkar valdi og við hljótum að geta gert við hann það sem við viljum. Ef hann er ekki nógu góður fyrir okkur, þurfum við bara að breyta okkur sjálfum og afstöðu okkar á heiminum og trix..... Heimurinn blasir við okkur nýr og ferskur.
Það er þetta vald sem við búum öll yfir sem getur gert okkur frjáls. Við ein ráðum því nefnilega algerlega hvernig við hugsum, hvernig við bregðumst við, hvaða skoðanir við höfum og hvort við ætlum að vera glöð og hamingjusöm eða bitur og reið. Að heyra einhvern segja "ég er bara svona" eða "ég get ekki" án þess að reyna, sýnir mér hversu fáránlega hraustlega hægt er að fangelsa sjálfan sig með ranghugmyndum og heimskulegum skoðunum.

Maður getur alveg mælt það vísindalega hversu réttar skoðanir maður hefur. Það er mjög auðvelt. Þeim mun lengri tíma sem maður ver hamingjusamur og frjáls, þeim mun réttari skoðanir hefur maður.

Á öllu.

Tuesday, February 15, 2011

Nýja lyfið við alkóhólisma

Í BNA er þetta víst það allra heitasta...

Læknar líka allar aðrar fíknir, átröskun og fleira.
Lyfið er ekki hannað sem slíkt en reyndist hafa þessa líka brilljant aukaverkun að lækna næstum alla óþverrasjúkdóma í heila. Mér skilst að spastískir sjúklingar fái þetta við viðvarandi vöðvaspennu.

Verði ykkur að góðu:
(sjálf segi ég pass á þetta)
1
SAMANTEKT Á EIGINLEIKUM LYFS
1. HEITI LYFS
Lioresal 25 mg töflur.
2. VIRK INNIHALDSEFNI OG STYRKLEIKAR
Baclofen 25 mg.
Hjálparefni: Hveitisterkja.
Sjá lista yfir öll hjálparefni í kafla 6.1.
3. LYFJAFORM
Töflur.
4. KLÍNÍSKAR UPPLÝSINGAR
4.1 Ábendingar
Langvarandi síspenna (spasticity) sem á uppruna sinn í miðtaugakerfinu.
4.2 Skammtar og lyfjagjöf
Fullorðnir: 5 mg þrisvar sinnum á sólarhring, aukið á 3 daga fresti um 5 mg þrisvar sinnum á sólar-hring, í viðhaldsskammtinn 30-75 mg á sólarhring og í sjaldgæfum tilvikum yfir 100 mg.
Skert nýrnastarfsemi
Nota skal baclofen með varúð og í minni skömmtum hjá sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi. Hjá sjúklingum sem eru í langvarandi blóðskilun er plasmaþéttni baclofens hærri og því skal nota sérstaklega litla skammta af Lioresal, þ.e. um það bil 5 mg/sólarhring.
Einungis má nota Lioresal handa sjúklingum með nýrnabilun á lokastigi ef ávinningurinn er meiri en áhættan. Hafa skal náið eftirlit með þessum sjúklingum snemma í meðferðinni til að hægt sé að greina vísbendingar um og/eða einkenni eitrunar (t.d. svefnhöfgi og þreyta) (sjá kafla 4.4 og 4.9).
Aldraðir
Vegna þess að líklegra er að aukaverkanir komi fram hjá öldruðum sjúklingum, skal nota mjög hófsama skammta handa þessum sjúklingum, auk þess sem fylgjast skal náið með sjúklingunum.
4.3 Frábendingar
Ekki má nota Lioresal handa sjúklingum með ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna.
4.4 Sérstök varnaðarorð og varúðarreglur við notkun
Gæta skal varúðar þegar um er að ræða sjúklinga með síspennu sem á uppruna sinn í heila, sjúklinga með geðrofsraskanir, geðklofa, þunglyndi eða oflæti, ruglástand eða parkinsonsveiki. Fylgjast skal náið með þessum sjúklingum því framangreindir sjúkdómar geta versnað.
2
Gæta skal sérstakrar varúðar þegar um er að ræða sjúklinga með flogaveiki því krampaþröskuldurinn getur lækkað og stöku sinnum hafa komið fram krampar þegar meðferð með Lioresal er hætt sem og við ofskömmtun. Halda skal áfram fullnægjandi krampameðferð og fylgjast náið með sjúklingnum.
Í tengslum við meðferð með Lioresal getur komið fram bati á taugaröskunum sem hafa áhrif á tæmingu þvagblöðru.
Nota skal Lioresal með varúð hjá sjúklingum sem eru með:
• sögu um ætisár í maga
• heilaæðasjúkdóm
• öndunarbælingu
• skerta lifrar- eða nýrnastarfsemi
• ofspennu í hringvöðva þvagblöðru, því bráð þvagteppa getur komið fyrir.
Einungis má nota Lioresal handa sjúklingum með nýrnabilun á lokastigi ef ávinningurinn er meiri en áhættan (sjá kafla 4.2).
Gæta skal sérstakrar varúðar þegar Lioresal er notað ásamt lyfjum sem hafa áhrif á nýrnastarfsemi. Hafa skal náið eftirlit með nýrnastarfsemi og stilla sólarhringsskammta Lioresal í samræmi við niðurstöðurnar til að koma í veg fyrir baclofen eitrun.
Auk þess að stöðva meðferð má íhuga blóðskilun sem möguleika við meðhöndlun sjúklinga með mikla baclofen eitrun. Blóðskilun fjarlægir á áhrifaríkan hátt baclofen úr líkamanum, dregur úr klínískum einkennum ofskömmtunar og flýtir fyrir bata sjúklingsins.
Í mjög sjaldgæfum tilvikum hefur verið greint frá aukningu á SGOT, alkalískum fosfatasa og glúkósa í sermi. Því skal láta fara fram viðeigandi rannsóknir með reglulegu millibili, þegar um er að ræða sjúklinga með lifrarsjúkdóm eða sykursýki, til að koma í veg fyrir versnun þessara sjúkdóma af völdum lyfsins.
Meðferð hætt
Eftir að meðferð með Lioresal hefur verið hætt skyndilega, einkum eftir langtímameðferð, hefur verið greint frá kvíða og ruglástandi, ofskynjunum, geðrofi, oflæti eða ofsóknarkennd, krömpum (síflog), ranghreyfingum, hraðslætti, ofhita (hyperthermia) og stundum versnun síspennu (rebound phenomenon).
Ávallt skal draga hægt og rólega úr meðferðinni, með því að minnka skammta smám saman (á 1-2 vikum), nema þegar um er að ræða neyðarástand vegna ofskömmtunar eða alvarlegra auka-verkana.
Lioresal töflur inniheldur hveitisterkju. Hveitisterkja getur innihaldið glúten, en einungis í snefilmagni og er af þeim sökum talin örugg fyrir sjúklinga með glútenóþol.
4.5 Milliverkanir við önnur lyf og aðrar milliverkanir
Nauðsynlegt er að gæta varúðar og breyta skömmtum þegar eftirtalin lyf eru notuð samhliða.
Miðtaugakerfið
Aukin slæving eða öndunarbæling getur komið fram þegar baclofen er notað samhliða öðrum miðtaugakerfisbælandi lyfjum (samtengdum ópíóíðum eða áfengi (sjá kafla 4.7)). Mikilvægt er að fylgjast með starfsemi öndunarfæra og hjarta og æða hjá sjúklingum með hjarta- og lungnasjúkdóma og máttleysi í öndunarvöðvum.
Lyf við parkinsonsveiki (levodopa)
Hjá sjúklingum með parkinsonsveiki, sem eru á samhliða meðferð með Lioresal og levodopa, hefur verið greint frá ruglástandi, ofskynjunum, höfuðverk, ógleði og æsingi.
3
Þríhringlaga þunglyndislyf
Þríhringlaga þunglyndislyf geta aukið áhrif Lioresal og valdið mikilli slekju.
Blóðþrýstingslækkandi lyf
Gera á viðeigandi breytingar á blóðþrýstingslækkandi meðferð, því samhliða meðferð eykur blóðþrýstingslækkun.
Lyf sem hafa veruleg áhrif á nýrnastarfsemi geta dregið úr útskilnaði baclofens, sem veldur eituráhrifum (sjá kafla 4.4).
4.6 Meðganga og brjóstagjöf
Meðganga
Baclofen berst yfir fylgju og skal ekki nota á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til.
Baclofen sem gefið er með inntöku eykur tíðni naflahauls hjá rottufóstrum, við skammta sem eru um það bil 13-faldur sá hámarksskammtur til inntöku (mg/kg) sem er ráðlagður mönnum. Þessi fósturskemmd kemur ekki fyrir hjá músum og kanínum. Ekki hafa verið gerðar fullnægjandi samanburðarrannsóknir hjá þunguðum konum. Hugsanleg áhætta fyrir menn er ekki þekkt.
Brjóstagjöf
Nota má Lioresal á meðan barn er haft á brjósti.
Lioresal skilst út í brjóstamjólk, en ekki er gert ráð fyrir aukaverkunum hjá brjóstmylkingi við ráðlagða skammta.
4.7 Áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla
Lioresal getur vegna aukaverkana sinna, sem eru t.d. sundl, syfja, svefnhöfgi og sjóntruflanir, haft mikil áhrif á hæfni til aksturs eða notkunar véla.
4.8 Aukaverkanir
Aukaverkanir koma einkum fyrir í upphafi meðferðar (t.d. slæving og svefnhöfgi), ef skammturinn er aukinn of hratt og þegar notaðir eru stórir skammtar. Aukaverkanirnar eru oft tímabundnar og úr þeim dregur eða þær hverfa ef skammtar eru minnkaðir. Aukaverkanirnar eru sjaldan það alvarlegar að hætta þurfi notkun lyfsins. Hjá sjúklingum með geðsjúkdóma, sögu um heilaæðasjúkdóma (t.d. heila-áfall) og hjá öldruðum sjúklingum má vera að alvarlegri aukaverkanir komi fram. Hjá sumum sjúklingum hefur komið fram aukin vöðvastífni sem svörun við lyfinu.
Rannsóknaniðurstöður
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Minnkað hjartaútfall.
Sjaldgæfar (≥1/1.000 til < 1/100)
Þyngdaraukning.
Hjarta
Mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til < 1/1.000)
Hjartsláttarónot, brjóstverkur, yfirlið.
Taugakerfi
Mjög algengar (≥ 1/10)
Slæving, svefnhöfgi/svefndrungi.
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Vönkun, þróttleysi, örmögnun, sundl, höfuðverkur, slingur, skjálfti.
Mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til < 1/1.000)
Krampar1, lækkaður krampaþröskuldur, dofi/náladofi, þvoglumæli.
4
Augu
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Sjóntruflanir, sjónstillingartruflanir (þokusýn, rangeygi, ljósopsþrenging), augntin.
Eyru og völundarhús
Mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til < 1/1.000)
Eyrnasuð.
Öndunarfæri, brjósthol og miðmæti
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Öndunarbæling.
Meltingarfæri
Mjög algengar (≥ 1/10)
Ógleði.
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Meltingartruflanir, uppköst, hægðatregða, niðurgangur, munnþurrkur, truflað bragðskyn.
Mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til < 1/1.000)
Kviðverkir.
Nýru og þvagfæri
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Óeðlilega tíð þvaglát, þvagtregða, þvagleki.
Mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til < 1/1.000)
Þvagteppa.
Húð og undirhúð
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Ofsvitnun, útbrot.
Sjaldgæfar (≥1/1.000 til < 1/100)
Kláði.
Stoðkerfi og stoðvefur
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Máttleysi í vöðvum, vöðvaverkir.
Mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til < 1/1.000)
Vöðvastífni.
Sjaldgæfar – mjög sjaldgæfar (< 1/1.000)
Trufluð vöðvaspenna.
Æðar
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Lágþrýstingur.
Almennar aukaverkanir og aukaverkanir á íkomustað
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Þreyta.
Sjaldgæfar (≥1/1.000 til < 1/100)
Bjúgur á ökklum eða útlimum.
Koma örsjaldan fyrir (< 1/10.000)
Lághiti (hypothermia).
Lifur og gall
Mjög sjaldgæfar (≥1/10.000 til < 1/1.000)
Óeðlileg lifrarstarfsemi.
Æxlunarfæri og brjóst
Sjaldgæfar (≥1/1.000 til < 1/100)
Vandamál í tengslum við kynlíf (getuleysi, vandamál við sáðlát).
5
Geðræn vandamál
Algengar (≥ 1/100 til < 1/10)
Ofskynjanir, þunglyndi, ringlun/vistarfirring, svefntruflanir þ.m.t. svefnleysi, vellíðunarkennd, martraðir.
1Krampar koma einkum fyrir hjá flogaveikum.
4.9 Ofskömmtun
Eitrun
Fullorðnir
100-200 mg: Í meðallagi alvarleg eitrun.
240-450 mg: Alvarleg eitrun.
0,5 g og 1,5 g: Mjög alvarleg eitrun.
1 g veldur meðvitundarleysi.
1,25 g – 2 g hafa valdið dauða.
Aldraðir
100 mg: Í meðallagi alvarleg eitrun.
Börn
120 mg handa 2 ára: Alvarleg eitrun.
75 mg handa 10 ára: Í meðallagi alvarleg eitrun.
Einkenni
Mest áberandi eru einkenni bælingar miðtaugakerfis, t.d. svefndrungi, skert meðvitund, dá og öndunarbæling.
Önnur einkenni sem komið geta fram eru: Ringl, ofskynjanir, æsingur, krampar, breytingar á heilarafriti (EEG) („burst suppression“ mynstur, þrífasa bylgjur) sjónstillingartruflanir, sjáaldur dregst ekki saman, almenn vöðvaslekja, vöðvakippir, minnkuð viðbrögð, útæðavíkkun, lágþrýstingur eða háþrýstingur, hægsláttur, hraðsláttur eða hjartsláttaróregla, lághiti, ógleði, uppköst, niðurgangur, mikil munnvatnsmyndun, hækkuð gildi lifrarensíma.
Versnun ofskömmtunarheilkennis getur komið fram ef önnur efni eða lyf sem hafa áhrif á miðtauga-kerfið eru tekin inn samtímis, t.d.: áfengi, diazepam og þríhringlaga þunglyndislyf.
Meðferð
Ekkert sértækt mótefni er til.
Meðferð í samræmi við fylgikvilla, t.d. lágþrýsting, háþrýsting, krampa, meltingartruflanir og öndunarbælingu eða bælingu á hjarta- og æðastarfsemi.
Eftir inntöku skammta sem e.t.v. geta valdið eitrunum skal íhuga að gefa lyfjakol ef skammt er um liðið frá inntöku. Fyrst eftir inntöku skammts (60 mínútur) sem hugsanlega getur verið lífshættulegur, skal íhuga magatæmingu (t.d. magaskolun) í hverju tilviki fyrir sig. Ef um er að ræða sjúklinga í dái eða sjúklinga með krampa skal barkaþræða þá, áður en magatæming hefst.
Vegna þess að lyfið skilst einkum út um nýru skal gefa mikinn vökva, ef unnt er ásamt þvagræsingu. Ef um alvarlega eitrun er að ræða, ásamt nýrnabilun, getur blóðskilun komið að gagni (sjá kafla 4.4). Komi fram krampar skal gefa diazepam i.v. með varúð.
6
5. LYFJAFRÆÐILEGAR UPPLÝSINGAR 5.1 Lyfhrif
Flokkun eftir verkun: Vöðvaslakandi lyf, sem hafa miðlæg áhrif, ATC flokkur: M03BX01.
Lioresal er krampalosandi lyf. Það bælir eintaugamóta- og fjöltaugamóta taugaviðbrögð í mænu með því að örva GABAB-viðtaka. Þessi örvun hindrar losun glutamats og aspartats.
Lioresal hefur ekki áhrif á tauga-vöðvaboð.
Lyfið örvar seytingu magasýru.
5.2 Lyfjahvörf
Lioresal frásogast hratt og að fullu úr meltingarvegi.
0,5-1,5 klst. eftir inntöku eins 10 mg skammts næst 180 ng/ml hámarksþéttni í plasma, 340 ng/ml eftir 20 mg skammt og 650 ng/ml eftir 30 mg skammt.
AUC er í réttu hlutfalli við skammtastærð. Dreifingarrúmmálið er 0,7 l/kg og próteinbinding er um það bil 30%. Þéttni í heila- og mænuvökva er um 8,5 sinnum lægri en í plasma.
Helsta umbrotsefnið er lyfjafræðilega óvirk β-(p-klórófenýl)-4-hýdroxýbutansýra, en Lioresal um-brotnar að litlu leyti. Helmingunartíminn er 3-4 klst. og lyfið útskilst að mestu á óbreyttu formi. Eftir 72 klst. hefur brotthvarf um 75% af skammtinum átt sér stað um nýrun, þar af um 5% sem umbrotsefni. Brotthvarf þess sem eftir er af skammtinum verður í hægðum. Lyfjahvörf hjá öldruðum eru eins og hjá yngri sjúklingum.
5.3 Forklínískar upplýsingar
Lioresal hefur hvorki krabbameinsvaldandi né stökkbreytandi eiginleika.
6. LYFJAGERÐARFRÆÐILEGAR UPPLÝSINGAR
6.1 Hjálparefni
Vatnsfrí kísilkvoða, örkristölluð sellulósa, magnesíumsterat, polyvidon, hveitisterkja.
6.2 Ósamrýmanleiki
Enginn.
6.3 Geymsluþol
4 ár.
6.4 Sérstakar varúðarreglur við geymslu
Geymið við lægri hita en 25°C.
Geymið í upprunalegum umbúðum til varnar gegn raka.
6.5 Gerð íláts og innihald
Þynnupakkning.
7
6.6 Sérstakar varúðarráðstafanir við förgun og önnur meðhöndlun
Engin sérstök fyrirmæli.
Farga skal öllum lyfjaleifum og/eða úrgangi í samræmi við gildandi reglur.
7. MARKAÐSLEYFISHAFI
Novartis Healthcare A/S
Lyngbyvej 172
2100 København Ø
Danmörk
8. MARKAÐSLEYFISNÚMER
MTnr 772127 (IS)
9. DAGSETNING FYRSTU ÚTGÁFU MARKAÐSLEYFIS/ENDURNÝJUNAR MARKAÐSLEYFIS
Dagsetning fyrstu útgáfu markaðsleyfis: 15. apríl 1971.
Dagsetning endurnýjunar markaðsleyfis: 22. desember 2005.
10. DAGSETNING ENDURSKOÐUNAR TEXTANS
21. janúar 2009.

Saturday, February 12, 2011

Sjö milljarðar




Við erum bráðum að detta í sjö milljarða.

Sem er alveg fáránlegt til þess að hugsa, þegar maður hefur verið á Gay pride og Menningarnótt og þótt margir á ferli. Örfáar hræður í rauninni. Eiginlega eru íslendingar örfáar hræður.

Samt eru fleiri plánetur en sandkorn og saga tímans lengri en hægt er að búa til mynd af í hausnum á sér. Og þrátt fyrir óendanlega smæð okkar, tilgangsleysi í stóra samhenginu og nanósekúndan sem líf okkar spannar ÞÁ ERUM VIÐ HVERT OG EITT ALVEG EINSTAKT FYRIRBRIGÐI MEÐ VALD TIL AÐ VERA HAMINGJUSÖM HVERJA STUND.


Hver fruma sem skapar með tilvist sinni möguleika fyrir tilveru minni, hefur markvissan tilgang og sá tilgangur er algerlega í mínu valdi. Ég ræð.

Ég hef tekið þann pól í hæðina að leika Guð og Örlögin og ráða. Og annaðhvort er ég endanlega orðin biluð eða ég hef loksins fundið svar.

Mig langar bara að vera ég. Hef misst áhugann á því að vera eitthvað annað. Nenni ekki að þóknast einum né neinum á neinn hugsanlegan hátt nema að það þjónu mínum persónulegu hagsmunum og geti gert líf mitt betra, samkvæmt minni eigin túlkun á hamingjunni.

Egóismi dauðans er saga mín héðan í frá sem hingað til. Burtséð frá því hvort nokkur skilji orð af því sem ég er að reyna að segja. Mér er líka orðið skítsama um það.

Og mikið er það gott.