Monday, December 27, 2010

Saga af litluheiðu




Ég hélt að ég væri ljót.

Ég hef lifað í þeirri fullvissu að ég sé ljót og ógeðsleg í mjög langan tíma. Í hvert skipti sem ég hef horft í spegilinn hef ég séð veru sem ég hata og fyrirlít. Allt mitt líf hef ég leitað að og fundið sannanir fyrir þessari fullvissu minni. Hvert einasta komment um ófullkomleika minn og ljótleika hef ég tignað og tilbeðið í þeirri fullvissu að sannleikurinn fælist í að sjá gallana.

Mér hefur þrisvar sinnum verið tjáð að ég sé falleg. Útlitislega séð. Og það hefur verið hin merka undantekning frá ófrávíkjanlegri reglu tilvistar minnar. Eðli mitt og atferli hafa sannað með algjörri fullvissu og vísindalegum vinnubrögðum að ég er viðbjóður. Skoðanir mínar, persónuleiki og athafnir renna stoðum undir þá kenningu að ég sé ógeðsleg. Atferlið sannar kenninguna. Ég er vond manneskja. Vond við annað fólk og dómhörð með eindæmum. Hrokafull, eigingjörn og ill.

Í gær var ég að reyna að jútjúba hugleiðslutónlist og rakst á myndband sem átti að "lækna fortíðina". Þetta fannst mér í fyrsta lagi fáránlegt og í öðru lagi sprenghlægilegt. Að jútjúbmyndband gæti endurraðað mistökum fortíðarinnar er jafn bjánaleg hugmynd eins og tíminn í 3D. Ég varð að prófa.

Það má bæta því við að ég hef alveg ljómandi gott ímyndunarafl, get stokkið inn í heimatilbúnar bíómyndir með mig í aðalhlutverki hvenær sem mér sýnist.

Allavegana, einhver kona sagði mér að leggjast niður, anda svona og hinsegin og sjá fyrir mér liti og ljós hér og þar. Ekkert mál. Þegar ég hafði legið þarna og liðið asnalega í svolitla stund, gerðist svolítið merkilegt. Ég hætti eiginlega að heyra í konunni og fór að gera það sem hún sagði. Ef hún bað mig að sjá eitthvað, birtist það ljóslifandi inni í hausnum á mér, áreynslulaust.

Og ég fór alla leið í Bláskóga 6. Þar sat lítil stelpa hágrátandi í efri koju og angist hennar og þjáning var slík að mér féllust hendur. Ég settist hjá henni og strauk henni blíðlega um vangann og velti því fyrir mér hvað væri að. Ég reyndi að senda henni ljós og kærleika með huganum og hún leit hissa upp. Í ljósinu frá götunni leit ég í fallegustu bláu augu sem ég hef nokkurntíma séð.
Allt við þetta barn var fullkomið. Silkimjúkt hárið, gallalaus húðin og fegursta bros allra tíma.

Hún starði út á ljósið og tárin blikuðu á kinnunum. Ég tók hana í fangið og hvíslaði að henni að allt yrði gott. Hún væri góð, hún væri falleg og hún mætti ekki trúa neinu öðru, sama hvað.
Ég fann hjartapíslina hennar slá og fann þegar hún smám saman róaðist og sofnaði í fangi mínu.
Allan tímann hélt ég henni þétt að mér og elskaði hana heitar en ég hef nokkurntíma elskað nokkurn hlut. Ég lagði hana blíðlega niður á koddann sinn og kyssti hana á ennið í kveðjuskyni.
Svo hélt ég heim á leið.

Þegar þarna var komið rankaði ég við mér og leit hissa yfir stofuna mína og heyrði í bílunum úti.
Raunveruleikinn var mættur í öllu sínu veldi.

En það furðulegasta er eftir.

Þegar ég leit í spegilinn í dag, sá ég að hún hafði komið með mér til baka. Augun hennar og yndisleiki blöstu við mér. Allt sem hún hefur gert og allt sem hún mun gera í framtíðinni er hluti af ferðalagi sem við köllum lífið. Hver einasta stund er gríðarlega mikilvæg. Með hana með mér, verð ég að fara varlega. Ég verð að passa uppá hana og elska hana hverja stund. Ég verð að gæta hennar og gera það sem henni er fyrir bestu. Hvað hún borðar og hvað hún gerir, má ekki skaða hana. Hún er bara lítið saklaust barn. Og núna þegar ég er með þennan farþega um borð, er lífið einhvernveginn skemmtilegra. Ég verð aldrei framar einmana, döpur eða hrædd.

Dæmisaga

Heiða var alveg hissa.

Hún var að baka vanilluhringi þegar jörðin fór að skjálfa og bjart ljós birtist á himninum.
Hún æddi út á svalir og leit til himins. OMG. Þeir voru komnir.

Hún sá risavaxin ljós á himninum og þrátt fyrir að hafa alltaf langað til að verða til vitnis um lífverur frá öðrum hnöttum var þetta engan veginn eins og hún hafði séð það fyrir sér.
Þetta minnti ekkert á Hollywood og hún vissi að það kæmi enginn Will Smith á orustuflugvél Bandaríska hersins og bjargaði öllu. Það lá alveg ljóst fyrir.

Þetta sem hún horfði á var bara einhvernveginn allt öðruvísi en allt sem hún hafði ímyndað sér. Risavaxin ljós sem sveimuðu í einkennilegum þríhyrningslaga þyrpingum og bjartir ljósgeislar virtust skjótast neðan úr þeim og á jörðina.

Það var eins og það hægði á tímanum. Hún mundi eftir sögum af fólki sem hafði lent í slysum, sem sögðust upplifa tímann líða hægar. Smátt og smátt varð til raunveruleiki í hausnum á henni.
Það yrði allt í lagi með allt.

Lítið barn hljóp út úr húsi og ljósgeisli hæfði það. Hún horfði á með hryllingi og bjóst við að sjá það splundrast í tætlur. Enn hægði á tímanum. Hún sá barnið horfa á ljósið á himninum, breiða út faðminn og svífa með örmjóum bláleitum ljósgeisla upp til móts við hið óþekkta. Foreldrar þess öskruðu og reyndu að grípa um ljósrákina svo þau gætu hrist barnið sitt niður. En þau gátu ekki gripið um ljósið og barnið færðist ofar og ofar. Móðirin kallaði á það í örvæntingu og bað það að sleppa, en barnið leit við skellihlæjandi og hrópaði til baka að þetta væri allt í lagi.
Þeir eru góðir mamma, treystu mér. Komdu með.

Hún sá gamla konu fljúga af stað upp til himna, og hún sá hunda og ketti fljúga til himna. En fyrst og fremst sá hún fólk þjást af eftirsjá eftir þeim sem flugu á brott. Fólk sem náði ekki taki á geislanum. Angist og sorg lýsti úr augum þeirra sem eftir sátu og fólk hrópaði upp til ljóssins, hvers vegna tekur þú það sem ég elska frá mér. Uppfullt af kvöl þess sem ekki skilur.

Og mitt í þessum yfirþyrmandi veruleika lokaði hún augunum og hvíslaði:
Ég er tilbúin - ég gef þér líf mitt - ég gef þér framtíð mína - ég gef þér börnin mín - ég gef þér allt.
Og á þrítugasta og áttunda aldursári sínu skyldi hún loksins að það að trúa á eitthvað var nákvæmlega það sama og treysta einhverju.

Hún fann þegar máttur henni framandi togaði í hana og hún fann fæturna lyftast frá jörðinni sem hafði verið viðkomustaður hennar lengi.

Hún var farin heim.

Saturday, December 25, 2010

Bréf Eyrúnar til Elísabetar Englandsdrottningar




Sæl vertu Beta, af ættum Engilráðs hins ríka.

Ég geri mér grein fyrir því að þú trúir því að vald þitt á jörðinni sé komið frá Guði. Fyrir löngu. Og hafið yfir öll önnur lög alheimsins. En það er bjánaskapur og barnahjal.

Rómverjar áttu England. Það er vísindaleg staðreynd. Þegar rómverjar höfðu drepið þá sem höfðu eitthvað á móti þeim og kúgað aðra til hlýðni var ekki margt eftir í ríki þínu sem hægt er að monta sig af. Þá kom ég til sögunnar. Ég er víkingur úr norðrinu.

Ég er af ætt manna sem neituðu að fara að reglum hinna ríku og leitaði skjóls undan ranglæti á stað sem enn þann dag í dag er vart byggilegur. Og sigraði. Eldgos, kúgun vina þinna í danmörku, kirkjan og óblíð veður hafa ekki bugað mig. Hvað þá bjánalegt fyrirtæki sem lagðist í víking og tók brot af þýfi þínu á heimsvísu með sér heim sem sigurvott.

Það væri engin Elísabet önnur englandsdrottning ef ekki hefði verið fyrir mig. Hverjir heldur þú að hafi hjálpað Engilráði forföður þínum í baráttunni við dani og norðmenn? Sem lögðu grunn að velferðarríki byggðu á lýðræði? Það vorum við hérna á Thule. Þessir sem þú kallar ísbjörgina eða icesave. Það er ekki mitt mál að ætt þín beygði sig undir hina kristnu kirkju og framseldi lýðræðið peningamönnum. Það er þitt mál. Og það er þitt val að viðhalda þeirri hefð að taka án þess að gefa til baka. British Museum er til marks um það, beljan þín.

Rannsóknir á genum sýna að konur hér á Thule eru genafræðilega skyldari keltum en karlar eru líkari norðmönnum. Þess vegna eru fegurð og hæfileikar til þess að búa til góðan mat sjaldséðar í ríki þínu. Þjóð þín seldi víkingum börnin sín í þeirri von að þar ættu þau framtíð, ólíkt því sem þau lifðu við. Og víkingarnir giftust þessum stúlkubörnum og ólu afkvæmin upp af nærgætni og ást.

Og þú ert afrakstur þeirra sem eftir sátu, forljót kerling sem kann ekki að búa til mat og kann ekki að nýta sér náttúruna til lækninga. Treystir á þræla þína að færa þér lausnirnar, eins og þú ert vön. Reyndu að horfast í augu við raunveruleikann álkan þín. Trúir þú því í alvöru að Arþúr hafi náð náð sverðinu úr steininum? Hallærisleg eftirlíking af víkingi er það sem hann er. Stolin saga. Aumkvunarverð tilraun lúða að vera karlmenni. Ég þarf að gubba.

Við víkingar lögðum rómarveldi að fótum okkar. Áttum í viðskiptum við þrælahaldara þína og drukkum sigurskál okkar í miðausturlöndum. Við fundum Ameríku og við kunnum að lesa og skrifa. Og við eigum okkur sögu. Við áttum bestu skipin, fórum víðast og börðumst ber að ofan við hvern þann sem við skilgreindum handhafa valds komið frá mönnum. Og sigruðum.

Það voru kviðmágar þínir í danmörku, úrkynjað guðlegt vald, sem komst næst því að knésetja okkur. En það tókst ekki og mun aldrei takast. Því við erum víkingar.
Við sigruðum breska heimsveldið í þorskastríðinu. Mannstu eftir því? Heldur þú að við séum hrædd við ykkur? Og bestu vini ykkar í BNA?
Nei við erum ekki hrædd við ykkur. Höfum aldrei verið það og verðum það aldrei. Við sendum fátæku fólki í London ullarteppi til þess að halda á sér hlýju. Þannig erum við.

Nú mælist ég til þess að þú og mannleysuleppar þínir í Hollandi (sem er þjóðin sem þið börðust við þegar þið eignuðuð ykkur demantanámur Afríkulanda og hafið enn ekki skilað) troðið því sem þið kallið æseif upp í boruna á ykkur. Við ætlum ekki að borga þetta frekar en þið ætlið að greiða okkur bætur fyrir BP stórslysið. Og það þó við séum fiskvinnsluþjóð sem á allt sitt undir hafinu.

Ef þú ert ekki að sætta þig við þessa niðurstöðu, er mér alveg sama. Fuck you bitch.

Eyrún hin vitra
Thule Borealis
af ætt víkinga

Friday, December 24, 2010

Jólakortið




Kæru landsmenn til sjávar og sveita.
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir það gamla. Eyrún Heiða Skúladóttir

Léttreykt partýskinka eða andlegur lærifaðir
-hvað má bjóða þér?



ps. ég sendi líka von og ósk um að leitin að hamingjunni verði skemmtileg og ástin fylgi ykkur hvert skref.

Það er mín bjargfasta sannfæring að algjör uppgjöf gagnvart valdi ástarinnar sé nauðsynleg til þess að við fáum náð til himna, í þessu lífi eða annarsstaðar. Hvað sem það merkir annars.
Og þessvegna verðum við líka að elska okkur sjálf, litla barnið sem við vorum, erum og verðum.

Peace out hippies and communists of the whole.

Thursday, December 23, 2010

Óskalistinn 2010




Kæri jóli.

Ég er svo blessuð að hafa allt sem ég þarf. Þannig að ef þú gætir frekar farið og veitt fyrir mig menn, með samböndum þínum, og komið mér í kynni við nokkra aðila, yrði ég ákaflega þakklát og hamingjusöm.

Ég er bæði búin að vera notí og næs á árinu. Veit eiginlega ekki stöðuna sjálf, því miður er heimilisbókhaldið líka svona hjá mér. Ég treysti þér betur til að fara yfir stöðuna heldur en presti eða præsvoterháskúpers. Þú finnur út úr þessu (ég hef heyrt að þú sért með fjöldan allan af litlum grænum mönnum þér til aðstoðar).

Allavega. Fólkið sem ég þarf að ná sambandi við, verður að hafa þekkingu til þess að svara nokkrum undirstöðuspurningum fyrir mig og hjálpa mér að skilja hvernig niðurstaðan var fengin.

Hér er listinn:
Eðlisfræðingur
Guðfræðingur
Jarðfræðingur
Stærðfræðingur
Taugasálfræðingur
Siðfræðingur
Sannkristinn skv. kirkjunni
Trúleysingi
Heilög manneskja (helst með superpowers)
Ofurmanneskja (sem virðist geta upphafið lögmál vísindanna með öðrum aðferðum)
Virkur alkóhólisti sem kærir sig ekki um aðstoð
Trúboði
Einhver sem trúir á kærleika

Ég lofa að skemma þá sem þú sendir mér eins lítið og ég get og ég lofa því að skila hverjum og einum til baka. Ég þarf þá mislengi.

Þín Heiða

Tuesday, December 21, 2010

Sæll vertu Benedikt af Róm




Ég er svo óheppin að þekkja ekki almennilega sögu þína en þar sem þú varst kosinn í embætti 2005 af félögum þínum í klíkunni má gera ráð fyrir að þú vitir eitt og annað sem ég þarf að heyra.

Ég er búin að lesa Biblíuna. Og verð að viðurkenna að það er alveg helvíti mögnuð bók. Sögurnar af Jesús frá Nasaret eru þar fremstar í flokki og mitt persónulega uppáhald.

Nú er það svo að allir sem hafa áhuga á þessari bók (fræðilega fremur en í leit að lausn) vita að hún er sett saman af mörgum ólíkum bókum. Í stað þess að vitnisburður allra postulanna færi í biblíuna, var ákveðið að setja inn fjórar svipaðar greinar (eða ævisögur) um líf Jesús, restin (ca.75% af biblíunni) eru regluverk gyðinga og hugmyndafræði annara en hans sjálfs.

Það er vísindaleg staðreynd að þið kirkjunnar menn reynduð að uppræta allt sem ekki þjónaði hagsmunum ykkar á fyrstu árum kirkjunnar. Guðspjöll annara lærisveina voru bönnuð, meira að segja guðspjall Péturs (sem kirkjan þín í Vatikaninu heitir eftir og sem venjulega er kallaður fyrsti páfinn). Hvers vegna var það?

Ég er að leita að sannleikanum. Ekki þinni túlkun á honum, ekki túlkun gyðinga og ekki túlkun hatursmanna kirkjunnar. Mig langar bara að fá aðgang að upplýsingum.

Má ég koma í Vatikanið og lesa mér til í bókunum í kjallaranum, sem enginn fær að skoða?
Af hverju má enginn skoða þær? Er það ekki satt að sannleikurinn muni gera mig frjálsa?
Hvers vegna að geyma bækur sem innhalda lygi? Eruð þið hræddir við orð Krists? Eruð þið hræddir um að orð hans veiki undirstöðu stærsta veldis mannkynssögunnar?
Af hverju eruð þið ekki löngu búnir að brenna þetta allt og opna bókasafnið?
Eruð þið hræddir um að Guð refsi ykkur?

Leyndarmál ykkar koma í veg fyrir það að ég geti verið frjáls frá getgátum og myrkri þekkingaleysis. Má ég biðja kaþólsku kirkjuna um að treysta mér? Ég hef ekkert að fela.

Að lokum langar mig að vita hvers vegna gyðingættir Jósefs smiðs skipta máli. Þeir voru ekki einusinni skyldir, hann og fóstursonurinn Jesú. Af hverju verður Jesús að tilheyra gyðingum í föðurætt?

Þín Heiða af Héraði
dóttir Önnu og Skúla
af ætt víkinga.

Saturday, December 18, 2010

Dýravernd




Fátt er eins tilfinningabólgið sem dýravernd.

Almennt er fólk hlynnt dýravernd og andsnúið illri meðferð á dýrum.
Það er þó oftar en ekki aðeins í orði en ekki á borði. Því miður. Flestir versla egg og kjúklinga sem framleidd eru með svo hrottafengnum hætti að fólki sundlar þegar því er boðið uppá að skoða aðstæðurnar. Og það er svona eins og vatnsglas sem skvett er í sjóinn, toppurinn á ísjakanum.

Ég sé enga ástæðu hér að tíunda illa meðferð á dýrum. Þá fer ég bara að gráta og finn til fullkomins vanmáttar. En mig langar að velta því fyrir mér hvað er snjallt og hvað ekki.

Sumir halda að aðrar tegundir dýra búi yfir tilfinningum og rökhugsun. Og ég er sjálf ekki frá því að það sé bara soldið satt. Aðrir fara með þetta lengra og segja að plöntur og tré hafi líka tilfinningar og geti fundið til sársauka. Ég veit ekki með það, en virði þessa skoðun. Fáeinir vilja svo meina að allt búi yfir anda eða vitund. Steinar, plöntur og dýr. Hver veit.

Ég veit það allavega að mér sjálfri er fyrirmunað að skilja mannskepnuna. Tilfinngar hennar, hugsun og hegðun eru svo stjarnfræðilega fjölbreytileg að ekki er nokkur leið að átta sig á henni. Það er einmitt þess vegna sem ég læt það fara svolítið (hressilega) í taugarnar á mér þegar fólk alhæfir um tilfinningastöðlun annara tegunda.

Sú hugmynd að einhverjar skepnur séu svo alheilagar að tilvera þeirra sé hafin yfir hringrás lífsins er mér framandleg. Að með tilfinningarökum sé ókey að frelsa einhverjar tegundir frá dauða í vistkerfi sem á allt sitt undir því að maðurinn taki jafnt af hverri auðlind. Það er alveg ljóst að við fáum ekki að vera með í Evrópusambandinu nema að gefa upp hvalveiðar. Yfirlýst frá Brussel.

Það skiptir engu máli að við vitum að þessar risaskepnur eru hluti af flóknu lífrænu kerfi og þjóna þar jafn mikilvægu hlutverki og rækjur. Það er bara búið að heilaþvo fólk með bulli og kjaftæði og enginn er tilbúinn að segja sannleikann.
Ekki frekar en venjulega. Gremja.

Við eigum ekki að hætta að veiða hvali af því einhver er í tilfinningalegu ójafnvægi vegna þekkingarleysis. Það er algerlega fáránlegt. Hvað gerist þá? Þegar hvölum fer að fjölga hressilega.? Eigum við kannski að ganga alla leið og fóðra þá? Fórna þeim bestu bitunum og syngja þeim lofsöng? Það þætti þeim áræðanlega vænt um.

Það liggur ekkert á. Næstu árin koma háhyrningar til með að naga hausinn af litlum selkópum eins og þeir eru vanir. Og þeir munu líka naga hausinn af börnunum okkar sem leika sér í Nauthólsvíkinni ef við gætum ekki að því að viðhalda jafnvægi í náttúrunni. Hvort sem það er ljótt eða ekki. Lífið gerir það sem það þarf til þess að viðhalda sér. Þess vegna fæðast lítil lömb og litlir grísir, svo við getum skolað þeim niður með rauðvínsglasi. Og ávextir trjánna og fuglar himins. Allt er þetta hluti af þessu stóra stóra sem er alveg sama hvernig okkur líður persónulega. Hringrás lífsins.

Það er ekkert ljótt við dauðann í sjálfu sér. Ef dráp eru hluti af hringrás lífsins get ég ekki haft neitt við það að athuga. Þjáning er ekki það sama og dauðinn, svo að það sé á hreinu. Að meiða er miklu, miklu ljótara en að drepa. Og að drepa eitthvað af hatri eða græðgi er líka ljótt. Ógeð.

Ég hef fyrir svo löngu fengið yfir mig nóg af fólki sem reynir að sannfæra mig um "heilagleika" ákveðinna tegunda að ég gæti ælt. Þetta eru trúmál en ekki vísindi. Tilfinningaleg bókstafstrú.
Ég er samt til í skoða málið þegar tegundin sem ég er af, getur látið af þeirri hefð að drepa ungviði af eigin sort.

Með þátttöku okkar í NATO samþykkjum við slátrun á börnum. Oftast í nafni frelsis en raunveruleikinn er sá að eiginhagsmunapot spilltra manna er rótin.

Verum góð hvort við annað og þakklát fyrir að fá að borða. Reynum að draga úr þjáningu í heiminum í stað þess að berjast gegn tilgangi dauðans. Hann mun sigra hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Thursday, December 16, 2010

Fyrir hverja er veröldin?




Er veröldin aðeins heimili þeirra sem geta komist af án hjálpar?
Eiga þeir veikburða skilið að deyja?
Er fullnaðarsigur yfir öðrum eina leiðin í lífinu?
Er umhyggja úreld?

Í stað þess að spyrja bara spurninga sem enginn kærir sig um að svara, ætla ég að svara þeim öllum í sömu færslunni til tilbreytingar. Af hverju? Af því ég hef gaman að því.

Það er mín skoðun að allir þeir sem fæðast á þessari jörð hafi jafnan rétt til alls. Hverjir sem þeir eru, hvaða trúarhópi sem þeir tilheyra eða hvað. Allt annað er kjaftæði og bull og ætti að banna.
Þeir veikburða eiga ekkert skilið umfram þá sterku og ekkert minna heldur. Allt annað ætti að banna.
Fullnaðarsigur kemur hamingjunni ekkert við. Að halda öðru fram, ætti að vera bannað.
Umhyggja er það eina sem getur lagað ástandið í heiminum. Að halda öðru fram, ætti að vera bannað.

Og núna þegar ég er farin að tíunda það sem ætti að vera bannað, er best að nefna nokkur önnur atriði sem ættu að vera það.

Auglýsingar Hafa ekki skilað neinu hingað til nema ríkidæmi í fárra vasa.
Fyrirtæki sem rekin eru í þeim tilgangi að gera annað fólk en starfsfólk þeirra ríkt. Eignarhlutur annara en starfsmanna má ekki fara yfir 49%. Aldrei.
Fæðubótarefni. Alla næringu sem þú þarft má finna í mat. Sendum öll fæðubótarefni og vítamín heimsins til Afríku. Þar er ekki til matur.
Róandi lyf og svefnlyf ætti að banna nema á stofnunum. Hvort tveggja má laga án lyfja og enginn hefur dáið úr svefnleysi eða dramakasti. Hingað til. Fjöldi þeirra sem hefur dáið vegna neyslu þessara lyfja hleypur á hundruðum þúsunda, ef ekki milljóna.
Stjórnmálaflokka. Þeir bera ábyrgð á vanheilsu mannkynsins og stríði í heiminum. Út með konseptið í heild sinni, á heimsvísu.
Fjölmiðla sem kenna sig við fréttaflutning en segja aldrei neitt nema að eigandinn leggi blessun sína yfir það. Fjölmiðlar eiga að vera óháðir (mér þykir við hæfi að benda fólki á veðurfréttir í þessu samhengi, það sjá það allir að ef alltaf spáir sól og fullyrt er að það hafi verið sól þegar hún sást hvergi, missa veðurfréttir fullkomlega tilgang sinn, þó svo að neytandinn vilji hafa sól).
Tóbak. Ég nenni ekki að færa rök fyrir því. Það er augljóst.
Öll fyrirtæki og stofnanir sem hafa að markmiði sínu að fólk líti betur út. Fólk lítur alveg rétt út, almennt. Notkun á orðinu heilsurækt ætti að vera bönnuð þar sem fatnaður, speglar, fæðubótarefni eða hvað sem er, styður við fáránleika útlitsdýrkunar.
Öll störf sem í eðli sínu eru svo siðlaus að börnin þín ættu ekki að vinna við þau.

Man ekki eftir fleiru í bili. En það er ábyggilega fullt.

Wednesday, December 15, 2010

Að hrista mjólkurkirtlana framan í fólk




Ég elska Feisbúkk.
Á feisinu sér maður svo gjarnan hvernig fólk hugsar og hvernig fólk dæmir umhverfi sitt og sjálfan sig, út frá viðteknum venjum.

Núna fékk ég til dæmis innsýn í hugarheim nokkurra þegar stripp-andsnúin kona tjáði sig um þann starfa að glenna sig og hrista í kynferðislegum tilgangi. Henni þótti það ekki viðhalda mannlegri reisn.

Næstum allir voru henni ósammála. Þeir sem vildu gera þetta að starfi höfðu fullan rétt á því.

Fólk nennir yfirleitt ekki að ræða skoðanir sínar málefnalega. Það endar nefnilega svo oft á því að fólk málar sig út í horn og neyðist til að skipta um skoðun. Og það er allt of erfiitt og niðurlægjandi að hafa rangt fyrir sér. Að viðurkenna að hafa rangt fyrir sér er tabú fyrir flesta.

Hérna er hugmynd.

Ef þér þykir káf í góðu lagi
Ef þér þykir vændi í góðu lagi
Ef þér þykir stripp í góðu lagi
Ef þér þykir mannsal í góðu lagi
Ef þér þykir það réttur hvers og eins að gera það sem hann vill.

Ókey. Nú þarftu að hugsa þér lítið barn. Helst strák. Einhvern sem þú þekkir persónulega og þykir vænt um í alvörunni. Helst lítinn bróður eða son.

Á hann að alast upp í þeirri sannfæringu að aðrir karlar megi snerta hann þegar þeim sýnist?
Ætlar þú að kynna honum þann raunhæfa kost, að selja öðrum karlmönnum blíðu sína (það sparar margra ára nám og gefur betur í aðra hönd)?
Ætlar þú að kynna honum þann raunhæfa kost, að fara úr fötunum og reyna að æsa aðra karlmenn upp kynferðislega (sparar magra ára nám og gefur betur í aðra hönd)?
Ætlar þú að hvetja hann til þess að notfæra sér aðra drengi til þess að hagnast á vændi þeirra til karlmanna?

Hvernig ætlar þú að fara að því að tryggja það, að hann geri það sem hann vill, ef þú setur ekki störfin hér að ofan inn í jöfnuna sem raunhæfan valkost?

Er eitthvað niðurlægjandi við það að örva ókunnugt fólk kynferðislega, gegn greiðslu?

Hversu marga karlmenn þekkir þú sem hafa nefnt það sem raunverulegan valkost í kreppunni, að selja sig öðrum karlmönnum? En konur?
Kommón. Fullt af peningum í boði. Einhver?
Halló. Þetta er vinna en ekki framhjáhald. Bisniss not plesjör.

Ef þú ert ekki til í þetta sjálfur, þekkir engan sem er tilbúinn í þetta, vilt ekki að börnin þín taki þetta að sér eða maki þinn, hvers vegna í helvítinu heldur þú að þinn veruleiki endurspegli bara fólk sem vill ekki vera með í þessum bransa?

Gæti verið að þú trúir því innst inni, að allt fólk sem ÞÚ þekkir sé ólíkt öðrum af tegundinni homo sapiens sapiens? Er það gáfuleg afstaða?

Ég held að margir séu til í kaupa þjónustuna.
Enn fleiri séu umburðarlyndir þangað til einhver sem það þekkir verður innvolverað.
En einhverra hluta vegna viljum við ekki vita neitt. Aldrei.

Gefðu nú þeim sem þér þykir vænt um eitthvað fallegt í jólagjöf.

Drátt.

Sunday, December 12, 2010

Sést það?




Það er verulega dónalegt að tjá skoðun sína um holdarfar einstaklinga. Að segja að einhver sé að detta í sundur er samt skárra en segja að einhver sé feitur. Það er dauðasynd.
Svo má kalla alla sem eru kynþokkafullir eða klæða sig ögrandi, illa gefna. Það er viðtekin venja.
Það er bannað að kalla stjórnmálamenn spillta. Slíkt verður farið með sem húmbúkk.

Þó er það aðallega þrennt sem má ALLS EKKI nefna.

Fjárhagur fólks, þekking þess og hverjir eru alkóhólistar.

Þetta eru stærstu tabú samfélagsins.
Börn mega ekki spyrja: Hvað kostaði þetta? Þegar þau fá jólapakka. Það er ljótt.
Ef maður spyr einhvern hvort hann sé illa upplýstur um ákveðið mál, móðgast hann.
Og það jafnvel þó hann hafi nákvæmlega ENGA þekkingu á viðfangsefninu. Hugsanlega skoðanir sem byggja einvörðungu á tilfinningalegu mati. Fáránlegt. Það er eins og fólk haldi (þrátt fyrir að hafa ratað menntaveginn áratugum saman, sumhverjir) að greind og upplýsing sé það sama.
Svona eins og banani og tannkrem. Bæði sett í munninn. Djísöss.

Svo er það alkóhólismi.

Fólk er tilbúið að trúa því að fæðingarþunglyndi karla sé sjúkdómur, en ekki alkóhólismi. Hvaða rugl er það. Alóhólismi hefur verið skilgreindur geðsjúkdómur jafn lengi og þunglyndi. Ekki röskun, heldur geðsjúkdómur. Greining sjúkdómsins er auðveld. Fólki sem er ekki alkóhólistar er vísað af Vogi.

En að kalla alkóhólista, alkóhólista, er eins og kalla einhvern antíkrist eða pedófíl. Viðbrögðin eru svipuð. Fólk heldur að það verði að ákveða það sjálft hvort það er alkóhólisti. Það er nákæmlega jafn gáfulegt eins og að ákveða það sjálfur hvort maður sé með krabbamein eða geðklofa, eða ekki. Það er ekki hægt.
Fyrir utan þá staðreynd að næstum allir sem þekkja viðkomandi, vita að neyslan hefur verið vandamál. Maður kallar fólk ekki alkóhólista til þess að særa. Maður gerir það til þess að viðkomandi leiti sér hjálpar og hætti að leggja fjölskyldu sína í einelti með helvítis sjálfselsku, sjálfsvorkun og þess á milli þunglyndi og geðvonsku. Að haga sér eins og dóni og tík.

Geðvonska er einkenni alkóhólista sem langar í glas og veit að það stendur ekki til. Sjaldnast meðvitað. Fólk sem drekkur (eða dópar) meira en aðrir, er jafnan geðvont út í allt og alla, ef það getur ekki svalað þörfinni.
Hin staðreyndin er sú að enginn alkóhólisti sem hefur búið með öðrum (þá sérstaklega börnum) getur komið í veg fyrir vanlíðan þeirra sem búa með þeim, nema annaðhvort skjóta sig í hausinn eða drulla sér í meðferð. Og já, BÖRNIN VITA ÞETTA alltaf.

Það er hægt að taka fimm ólík sjálfspróf á vef SÁÁ.
Þetta er það einfaldasta:

Cage spurningarlistinn.

Hefur þér einhverntímann fundist að þú þyrftir að draga úr drykkjunni (taka pásu) ?
Hefur fólk gert þér gramt í geði með því að setja út á drykkju þína? (afskiptasemi)
Hefur þér liðið illa eða haft sektarkennd vegna drykkju þinnar? (bömmer)
Hefur þú einhverntíma fengið þér áfengi að morgni til að laga taugakerfið eða losa þig við timburmenn? (hresst þig við með afréttara)

Ekkert já = ekkert vandamál
Eitt já = ekkert vandamál
Tvö já = staðfestir alkóhólisma í 80% tilfella
Þrjú til fjögur já = staðfestir alkóhólisma í nær 100% tilfella.

Athugaðu að orðið áfengi er notað yfir öll vímuefni.
Parkódín er dóp.
Gras er dóp.
Svefnlyf eru dóp.
Morfín er dóp.
Íbúkód er dóp.
Hass er dóp.
Amfetamín er dóp.
Öll róandi lyf eru dóp.

Getur þú hugsar þér lífið án þess alls? Alltaf?
En ef börnin þín yrðu hamingjusamari?
En ef það lengir líf þitt?

Ekki halda að þú komist upp með að ljúga að sjálfum þér. Það á pottþétt eftir að koma þér verulega á óvart að allir vissu að þú værir fyllibytta LÖNGU áður en þú ákvaðst að fara í meðferð.
Sennilega allir sem þekkja þig.

Taki til sín sem eiga.

Thursday, December 9, 2010

Miðaldaskilgreining nútímamannsins á eignarrétti




É á etta
É á víst ammæli
É má
É vigl
org
osfv....

Þannig hljóma börnin okkar í frekjukasti. Og við reynum eftir öllum mætti að uppræta þessa hugsun þeirra þegar hún bitnar á okkur sjálfum. Hlýddu krakki, einn.. tveir...þrír... eða hvaða aðferð sem menn nota. Árangurinn er misjafn eins og aðferðirnar og einbeiting foreldra og barns.

En þegar fólk verður fullorðið er engin leið að breyta því. Nema að fólk vilji sjálft breytast.
Allir hafa frjálsan rétt til að segja og gera og eiga hvað sem hverjum sýnist.

Við miklahvell og í framhaldi af honum varð til allt sem er. Hvert einasta atóm varð til. Löngu seinna kom fram þekking á þessum alheimi. Sem er samanlögð reynsla manna á jörðinni og túlkun á henni. Hvergi nokkursstaðar á jörðinni hefur nokkur lífvera "skapað" eitthvað frá grunni. Aldrei í sögu tímans hefur einni lífveru tekist að skapa atóm úr engu.

Þess vegna spyr maður sig, hvernig gat næstum allt á jörðinni endað sem eign einhvers?

Og málið er einfalt. Menn slógu eign sinni á hluti, kosept og þekkingu og sögðust hafa "skapað" verðmæti. Sem er kolrangt. Menn hafa nýtt gjafir jarðar sjálfum sér til framdráttar og tryggt sínum persónulegu genum afnot af sömu forréttindum.

Mér er drullusama hvort er um að ræða vísindalega þekkingu eða eldgömul atóm. Enginn á þetta. Og enginn getur eignað sér neitt. Af því við eigum ekkert í raun. Allt sem við söfnum að okkur er byggt á sameiginlegri þekkingu mannsins og atómum. En er ekki okkar eign. Okkur ber að deila með öðrum gjöfum jarðar.

Þetta gildir jafnt um ný lyf sem koma á markað (efnafræðileg þróun byggð á rannsóknum og samanlagðri þekkingu manna á efnisheiminum og mannslíkamanum) sem og lag á FM957 (samið úr tónum og tíðni sem finna má í geimnum og í vindinum og allsstaðar, en raðað upp á nýtt).

Ef þekking þín og sköpunarmáttur þinn "býr til" eitthvað nýtt, er það ekki þín eign. Aldrei.
Af því þú bjóst til eitthvað úr einhverju en skapaðir ekki neitt úr engu.

Skilurðu muninn?

Ef þú sannarlega getur skapað eitthvað úr engu og nýtt til þess þína eigin frumsömdu þekkingu sem byggir ekki á neinu þekktu í alheiminum,

ertu Guð.

Endilega hringdu í mig ef það er tilfellið, ég þarf að ræða eitt og annað við þig....

Tuesday, December 7, 2010

Bíddu þessi er búin að vera andlega fjarverandi lengi



Verið nú sælir og blessaðir hroðgorssperðlarnir mínir.

Það er nú meira bölið með hana Þjóð. Þessi spræka skepna er ekki nema svipur hjá sjón. Enda engin von miðað við helvítis hóreríið á henni fram um allar sveitir. Svo var fartin orðin á henni að geldféð á Þinghúsum, fékk kipp í klofið og styggð kom að því, þá hún stormaði þar hjá. Þrjá vetur síðan.

Hyskið á Þinghúsum fékk þó skepnuna í sinn hlut, enda kom enginn annar böndum á hana. Talað er um að þetta Guðlausa pakk hafi borið fé á erlendan galdramann, ráðunaut, og með hans hjálp bugað skepnuna. En ég held þetta boði ekki gott. Nei gæskan. Ég held að þessar mannleysur séu enn að berja blessaða skepnuna. Helvíti bara. Hún getur ekki að því gert hvernig hún er.

Það verður einhver að bjarga blessaðri skepnunni.
Hún jafnar sig ef einhver er góður við hana.

Monday, December 6, 2010

Hátíð í bæ




Núna er aðventan gengin í garð.

Hún er stórkostlegt tækifæri.
Þá er í góðu lagi að éta smákökur yfir sjónvarpinu. Allar stelpur fara í klippingu og kaupa sér ný falleg föt. Og fólk dansar og syngur og gerir sér glaðan dag. Fólk horfir upp til stjarnanna og lætur það eftir sér að dreyma, kveikir lítil ljós og færir hinum sem eru horfnir á braut, fórnir sínar og kveikir þeim ljós til blessunar. Fólk gefur til góðra mála og skiptist á gjöfum.

Fólk er þakklátt og spennt. Tilhlökkunin í augum barnanna og samveran með vinum og ættingjum við laufabrauð. Þetta er ævintýri, öll aðventan. Svo nær hún hámarki á jólunum í dásamlegri stund með nánustu ástvinum. Þetta eru töfrum slungar stundir. Himnaríki á jörðu.

Ég ætla að gera smá tilraun. Ég ætla að halda hefðbundna aðventu og jól. Svo ætla ég að gera það aftur í febrúar. Og mars og svo framvegis. Mig grunar að ég hafi meira að gefa en ég hef haldið hingað til.

Áskorun til allra að halda notalega aðventu og muna að það er ekki áfangastaðurinn heldur ferðalegið, sem skiptir raunverulega máli.

Höldum jólin allt árið....

Wednesday, December 1, 2010

Ég er Guð og þetta eru loforðin mín.




Hjá þér

Ég og þú við verðum að gera samning.
Við verðum að endurlífga frelsið.
Þar sem er ást, þar verð Ég.

Ég rétti þér hönd mína og hef trú á öllu sem þú gerir.
Kallaðu bara Nafn mitt og ég verð þar.
-Ég verð þar, að hugga þig.
Byggi veröld mína og drauma umhverfis þig.
-Ég er svo glöð að hafa fundið þig.
-Ég verð þar, sem ástin sterk.
-Ég verð styrkur þinn og ég held áfram.

Leyfðu mér að fylla hjarta þitt af gleði og hlátri.
Samvera er það eina sem ég þrái að öðlast.
Ef þú þarfnast mín, verð ég þar.

Ég verð þar til að vernda þig
-með óeigingjarna ást sem virðir þig.
Kallaðu Nafn mitt og ég verð þar.

Ef þú skyldir finna einhvern nýjan,
er eins gott Hann sé þér góður.
Því ef Hann er það ekki, verð ég þar.

Ég verð þar
Ég verð þar
Kallaðu nafn mitt
Og ég verð þar

Höf: The Jackson five
Þýð: Ég með hjálp andans.