
Fyrst skoðaði ég mjög nákvæmlega 10% slembiúrtak frambjóðenda til stjórnlagaþings án tillits til kyns. Það var nóg til þess að ég sannfærðist um að sú hugmynd mín um að kjósa einungis konur væri góð.
Ég nenni ekki að tíunda þá niðurstöðu mína frekar hér en þeir sem hafa áhuga á að vita meira um það geta sent mér tölvupóst.
Fólk var spurt þriggja spurninga.
Í fyrsta lagi hvort þyrfti að breyta stjórnarskránni núna.
Margir telja að tímasetningin skipti ekki máli. Það er kolrangt. Núna er nákvæmlega besti tíminn til þess að breyta henni. Það er söguleg staðreynd að bestu stjórnarskrár heimsins hafa verið samdar til þess að friða öskureiðar þjóðir sem hafa gert byltingu og heimtað réttlæti í kjölfar kúgunnar og óréttlætis. Það eru nákvæmlega þær aðstæður sem ríkja hér á landi. Fólk er einfaldlega ekki tilbúið um að semja um bita af köku sem það bæði bakaði og á.
Svo eru þeir sem segja að hún hafi staðist tímans tönn en þar sem sé búið að sólunda fjármunum í þennan málaflokk hvort sem er, sé eins gott að klára þetta. Alla frambjóðendur sem hafa þessa skoðun ætti að hýða opinberlega öðrum til varnaðar. Þetta fólk hefur smekk fyrir þessari skoðun á sama tíma og bankakerfið fellir niður milljarðaskuldir óhæfra stjórnenda og lánar þeim svo upp á nýtt. Sama óhæfa fólkið lánar sama siðspillta pakkinu peningana okkar. Ef einhver nefnir bruðl varðandi þetta stjórnlagaþing ætti sá hinn sami að skammast sín. Sú skoðun að stjórnarskráin hafi staðist tímans tönn er líka grundvölluð á svo eiginhagsmunalegum grundvelli að hún fellur um sjálfa sig. Stjórnarskráin skilaði okkur nákvæmlega í hrunið 2008. Þráðbeint og markvisst.
Næsta spurning var hverju þyrfti helst að breyta.
Ég veit ekki hvort þetta ÁTTI að vera trikk-spurning eða ekki en hún ER það engu að síður.
Það sem kemur mér mest á óvart er að fólk er fullkomlega blint á þá staðreynd að það þarf ekki að breyta stjórnarskránni heldur semja nýja. Fólk er alveg stjarnfræðilega hrætt við þá hugmynd að faxa þessa helvíts tímaskekkju aftur upp í rassgatið á Margréti Þórhildi.
Flestir frambjóðendur vilja að farið sé lið fyrir lið yfir stjórnarskrána og henni breytt. Mikilvægast af öllu sé að halda í það góða sem í henni er. Enginn nefndi dæmi og þetta góða. Hvers vegna ætli það sé? Einn frambjóðandi hélt því meira að segja fram að grunnur stjórnarskrárinnar væri einhverskonar siðfræðileg niðurstaða vestrænnar baráttu fyrir réttlæti. Guð Almáttugur hjálpi mér ef það fífl nær þarna inn.
Síðasta spurningin var hversvegna frambjóðendur buðu sig fram. Merkilegt nokk, mjög fáir klúðruðu því svari. Næstum allir vilja taka þátt í því að skapa réttlátt samfélag.
Þetta var gert nákvæmlega svona:
1874 var okkur afhent þessi stjórnarskrá af danska konunginum. ÁTJÁNHUNDRUÐSJÖTÍUOGFJÖGUR.
1944 var hún svo samþykkt sem stjórnarskrá landsins af 95% þjóðarinnar sem treysti nýtilkomnum forráðamönnum landsins til að standa við það að henda henni og gera nýja að ári.
Það er fyrsta kosningaloforð flokkræðisins sem ákveðið var að svíkja. Og það ekki að ástæðulausu. Þetta mölétna konungsræðisplagg hentaði nefnilega MJÖG svo vel til að vildhalda völdum, kóngurinn fær vald sitt frá Guði og valdið þessvegna hafið yfir gagnrýni. Þó svo að orðinu konungur hafi verið skúbbað út er inntakið óbreytt. Og það var vandamálið.
Í meira en sextíu ár hafa flokkarnir mygið utan í þá hugmynd að gera eitthvað í þessu, sérstaklega þegar hefur kurrað reiðilega í þjóðinni, en kjaftað málið af fagmennsku inní frumskóg nefnda og álitsgjafa sem skila svo engri niðurstöðu, aldrei.
2009 í kjölfar Hrunsins heyrðist ekki kurr lengur í þjóðinni. Í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins lét þjóðin í sér heyra. Ég held að þjóðfundurinn hafi verið tilraun stjórnvalda til að svæfa málið eina ferðina enn. Það tókst bara ekki. Fólkið mætti fullt eldmóðs og þjóðin fylgdist spennt með. Niðurstöður voru ekki bara skýrar, heldur róttækar.
Æææ. Og stjórnlagaþingið er næsta tilraun til að stoppa okkur. Andskotinn að við komumst að samkomulagi þar, það getur ekki verið. Ég held að sumir frambjóðendur bjóði sig fram til þess eins að reyna að viðhalda þinghefðum okkar sem grundvallast í baráttu en ekki samvinnu. Séu það sem í dag er kallað terroristi. Þeir fara inn til þess að verjast breytingum. En það má ekki virka hjá þeim.
Að lokum ætlar svo alþingi að skoða málið.
Ég legg til að alþingi fái fyrirfram ákveðinn frest til að afgreiða málið. Ég tel að tveir mánuðir séu algert hámark. Við skulum átta okkur á þvi að þeir hafa haft yfir 60 ár til umhugsunnar.
Ef alþingismenn hafa uppi einhver önnur áform en að vísa frumvarpinu beint til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu vil ég fá að vita af því NÚNA svo ég geti terroræsað þá einstaklinga sem landráðamenn allan tímann sem stjórnlagaþingið starfar. Best að senda þeim póst. Öllum.