Tuesday, November 30, 2010

Karllæg gildi samfélagsins



Flestir karlar snúast til varnar þegar hugmyndir á borð við kynjakvóta eru viðraðar. Hvort sem um er að ræða í stjórnmálum eða annars staðar. Karlar fullyrða að slíkur kvóti sé óréttlátur og siðlaus.

Ef málið er skoðað með opnum huga og vísindalegum aðferðum má sjá að kynjakvóti er ekki bara nauðsynlegur heldur í meira lagi réttlátur.


Jörðinni er stjórnað af körlum. Og þannig hefur það alltaf verið síðan í árdaga mannkyns. Margir halda að í heiðnum sið hafi verið jafnræði á með kynjum en svo er ekki og engar rannsóknir benda til þess. Reyndar eru bara til mýtur um kvennaveldi eða jafnréttisveldi. Engar vísbendingar eða vísindalegar sannanir benda til þess að slíkur Edengarður mannlegs eðlis hafi nokurntíma verið til.


Þetta merkir að flest samfélgasleg gildi eru karllæg. Þau hljóta að vera það og ef þau eru skoðuð nákvæmlega má finna fjölmargar sannanir þess að svo er.

Sem dæmi má nefna að laun með tilliti til menntunnar eru ekki reiknuð með þjóðfélagslega hagkvæmni að grundvelli, heldur eru stéttir og störf metnar til fjár út frá áhugasviðum karla.

Þannig er það betur borgað að vera handlangari hjá málara en háskólamenntaður kennari (kennarar nutu virðingar þjóðarinnar og fengu há laun á meðan karlar voru þar í meirihluta).


Hjúkrunarfræðingur er verr borgað starf en tannlæknir. Hvers vegna?

(og hvers vegna er ekki til stétt tannviðgerðarmanna?)


Hvers vegna eru ummönunarstörf ekki jafn verðmæt og ruslabílaakstur?


Það er alls ekki nóg að setja lög sem tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu. Það þarf að tryggja kvenlægum gildum brautargengi með peningalegum verðlaunum.


Ég skora á karlmenn sem trúa því innst inni að konur verðskuldi réttindi og virðingu til jafns við karla að berjast fyrir réttlæti með því að hafna regluverki karllægra gilda og berjast fyrir réttindum dætra sinna, eiginkvenna og mæðra. Konur eiga aldrei eftir að ná fram leiðréttingu á kjörum sínum og öðlast tækifæri til hamingjunnar án hjálpar réttsýnna karla. Og þeir fjölmargir og við elskum þá alla.


Þeir karlar sem trúa því að kerfið sé réttlátt og endurspegli jafnrétti kynjanna eru að mínu mati annaðhvort illa upplýstir eða illa innrættir. Breytinga er þörf og það vita þessir illa innrættu og berjast af heift fyrir því að viðhalda kerfinu. Það er afar skynsamlegt fyrir þá sjálfa, með tilliti til þeirra forréttinda sem þeir njóta.


Svo mörg voru þau Orð.

Monday, November 29, 2010

Þjóðsöngurinn




Næstum allir frambjóðendur til stjórnlagaþings vilja aðskilnað ríkis og kirkju.
Ber að virða það.

Allir sem ekki eru í þjóðkirkjunni vilja aðskilnað ríkis og kirkju.
Skiljanlega.

EN ENGINN vill skipta út þjóðsöngnum?
..............eins og það sé ekki í samhengi eða eitthvað...............

Þjóðsöngurinn er sálmur. Söngur til dýrðar Drottni Biblíunnar. Þeir sem trúa mér ekki geta lesið textann.


Lofsöngur

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

AMEN

Saturday, November 27, 2010

Í tilefni dagsins




Þetta kvæði er eftir Davíð Þór Jónsson.

Kosningar

Senn eru kosningar, kátt er í bænum,
hjá kapítalistum sem vinstrigrænum
menn biðja um stuðning sem blíðast.
Alls staðar eru á faraldsfæti
frambjóðendur með ys og læti
vinsælda að afla sem víðast
og þjóðin kinkar kolli hissa
og krossinn ákveður að rissa
við sama fólkið og síðast.

Þetta er til þess að þjóðin velji
þá sem hún vill að sig píni og kvelji
og fari með landið til fjandans,
hækki vexti og skuldir og skatta,
skósveina útlenskra pípuhatta
og aðra óvini landans,
þó að þeir vitaskuld þykist allir
þjóðhollir, réttsýnir, greindir og snjallir
vinir vegfarandans.

Í útvarpi og sjónvarpi er masað mikið
og minnt á allt sem var logið og svikið.
Þótt fjaðrir af flokkunum reytist
og þingmannsefnin sér hrósi og hæli
og hræðsluáróðri frá sér dæli
þjóðin hún hreinlega þreytist.
Á endanum sigri allir fagna,
áróðursraddirnar hljóðna og þagna
og ekkert að eilífu breytist.

Svona er lýðræði lélegt kerfi
og litlu skrárra en að völdin erfi
kóngur af aðalsættum,
því þrátt fyrir þetta lýðræði landa
lenda þau jafnan í slæmum vanda
og hagfræðilegum hættum.
Enn eru hér til yfirstéttir
og aðrir miklu lægra settir
í Bónusfötum bættum.

Friday, November 26, 2010

Almenna kenningin







Almenna kenningin.
(sem er græn)

Orð eru til alls fyrst.

1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekkert, sem er til.
4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.
5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Þetta er formúla sem kall sem hét Jói skellti fyrir framan frásögn af gaur sem hann þekkti.

Ef við reynum að fá botn í nr. 1 þá er það helst svo að skilja að Guð sé orð. Öll orð sem hafa verið, eru og verða. Það er nú talsvert, er það ekki. Hvað ætli þau séu komin upp í mörg? Og ef til eru geimverur bætast orð þeirra við líka, og draugar og englar og hvert orð sem við hugsum líka.
Það er alveg á hreinu að öll þessi súpa orða er alveg merkingarlaus nema hvert orð sé skoðað í samhengi. Ef orð eru sett saman í samhengi mynda þau þekkingu. Rökhugun. Og þannig er Orðið það sama og við köllum vísindi.

Svolítið yfirþyrmandi.
Dæmigerður Guð, ekki satt.

En áttum okkur á því að Orðið var líka guð. Þekkingu fylgir vald og sá sem getur beitt þessu valdi ber ábyrgð. Heilög skylda að beita því ekki til ills. Sem þýðir að hverri veru sem getur hugsað í orðum ber skylda að beita ekki því valdi öðrum til tjóns. Skilurðu?

Orðið var hjá Guði. Þekkingin og valdið eru óaðskiljanlegir hlutir. Við treystum á samvisku okkar þegar rök brestur, Jarðnesk tilfinning sker úr um hvort við rísum undir þeirri heilögu skyldu okkar að vera góð.

Þegar við vitum að Orðið Guð merkir í sjálfu sér vald rökhugsunnar, getum við haldið áfram að skoða hugmyndir Jóa.

Ef við setjum alheiminn og eðliskrafta hans í stað orðsins Hann í nr.2 , er auðvelt að túlka setninguna sem svo að ef alheimurinn væri ekki gæddur eðliskröftum, væru orð merkingarlaus og engin vísindi til. Eðliskraftar alheimsins skapa orðin. Og orðin eru þekking. Og þekking er vald. Og valdið skapar heilaga skyldu valdhafans.

Er ég nokkuð að skjóta alveg út í bláinn? Er einhver sem ekki skilur? Þetta krefst smá víðsýni ég skil það, þetta eru svolítið róttækar hugmyndir. En við erum að tala um ný trúarbrögð. Nýjan Guð.

Núna segir nr. 3 sig sjálft. Allir hlutir urðu fyrir náttúrukrafta, án þeirra hefur ekkert orðið, sem er til. Stytting: Allt hefur orðið til vegna náttúrukrafta.

Nú er ég farin að æða áfram. (sjáið til þegar grunnurinn er ljós er svo auðvelt að skilja restina, alveg eins og í stærðfræði)

Nr. 4 liggur líka mjög einfaldlega fyrir, enda vita allir að lífið býr í alheiminum og náttúrukraftarnir viðhalda því.
Ljósið merkir vonina og ástina. Lífið er ástkær von veraldarinnar.

Ljós sólarinnar nærir jörðina eins móðurmjólkin nærir barnið. Vonin er fólgin í að kærleikurinn næri lífið.

Vá, hvað þessi trú á þessa kenningu gæti dregið úr spillingu og ofbeldi. Spáið í því.


Að lokum í nr. 5 er okkur svo að endingu tjáð að ástin og vonin skíni í myrkrinu. Myrkrið er þekkingarleysið og óttinn sem því fylgir. Vonin og ástin nær ekki til þess sem ekki skilur tilgang hennar. Ímyndanir óttans um framtíðina hverfa þegar ástinni og voninni er beitt að vopni. En sá sem skilur það ekki viðheldur myrkri þekkingarleysisins.

Jæja. Svo mörg voru þau Orð.

Það er alveg svakalega gaman að reyna þessa kenningu á orð Jesú Krists. Sjá hvort þessar orðskýringar virðast opna á þá hugmynd að hann hafi verið hér til að reyna eitthvað annað en láta hefta sig á plús.

Ef einhver töggur er ennþá í mönnum Péturs í Róm eru allar líkur til þess að ég verði sjálf heftuð á plús ef þessi nýja kenning mín fær almennt fylgi kristinna manna.

Og segið svo að það sé ekki gaman að lesa Biblíuna. Jói var allavega eldklár. Hann er kannski sá eini sem tókst að koma inntaki upprunalegu guðshugmyndarinnar sem Jesú Kristur predikaði, inn í hina heilögu ritningu, fram hjá eftirlitskerfi jarðneska valdsins, Kaþólsku kirkjunnar.

Hver veit?

Svo er nottlega líka svakalega gaman að setja þetta fram sem kenningu þó ekki væri nema til þess að opna möguleikann á einhverri þróun í kristni með gagnrýnni hugsun. Þá á ég við að fleiri og helst allir komi með kenningar sjálfir.

Og ef ég hef rétt fyrir mér er ég andlegur Einstein og sennilegast gáfaðasta manneskja jarðarinnar. En ég hef engar verulegar áhyggjur af því í bili að þessi skýring höfði jákvætt til margra, til þess er hún alltof róttæk. Við erum ekki tilbúin til þess að rísa undir því að guðdómurinn búi í okkur sjálfum og náttúrunni. Við erum týnd í myrkri óttans og höfnum hugmyndinni um kærleika sem leiðandi og lifandi lögmáli.

Hún geyspaði og hló. Velti því fyrir sér hvort róttækar skoðanir hennar bæru geðveikismerki. Já sjálfsagt. En henni var eiginlega alveg sama. Ekki endurspeglaði samfélag manna á Íslandi neitt andlega heilbrigt í fréttatímanum. Veröldin er klikk ákvað hún og gekk til jólahreingerninga.

es. Ég ákvað að benda fólki á það eftir á , að samkvæmt Almennu kenningunni (sem er græn) var rökhugsunin með frá byrjun. Alls. >=)

ees. Ætli ég geti komist í heimsmetabókina fyrir stystu trúarkenningu allra tíma?

eees. Vissir þú að nafnið mitt merkir Viska/Galdur Eyjunnar-Hin bjarta. Mamma ákvað nafnið mitt þegar hún var sjálf lítil.

eeees. Ég persónulega kýs að trúa ekki á yfirnáttúru

Wednesday, November 24, 2010

Ranghugmyndir um stjórnarskránna




Fyrst skoðaði ég mjög nákvæmlega 10% slembiúrtak frambjóðenda til stjórnlagaþings án tillits til kyns. Það var nóg til þess að ég sannfærðist um að sú hugmynd mín um að kjósa einungis konur væri góð.
Ég nenni ekki að tíunda þá niðurstöðu mína frekar hér en þeir sem hafa áhuga á að vita meira um það geta sent mér tölvupóst.

Fólk var spurt þriggja spurninga.

Í fyrsta lagi hvort þyrfti að breyta stjórnarskránni núna.

Margir telja að tímasetningin skipti ekki máli. Það er kolrangt. Núna er nákvæmlega besti tíminn til þess að breyta henni. Það er söguleg staðreynd að bestu stjórnarskrár heimsins hafa verið samdar til þess að friða öskureiðar þjóðir sem hafa gert byltingu og heimtað réttlæti í kjölfar kúgunnar og óréttlætis. Það eru nákvæmlega þær aðstæður sem ríkja hér á landi. Fólk er einfaldlega ekki tilbúið um að semja um bita af köku sem það bæði bakaði og á.

Svo eru þeir sem segja að hún hafi staðist tímans tönn en þar sem sé búið að sólunda fjármunum í þennan málaflokk hvort sem er, sé eins gott að klára þetta. Alla frambjóðendur sem hafa þessa skoðun ætti að hýða opinberlega öðrum til varnaðar. Þetta fólk hefur smekk fyrir þessari skoðun á sama tíma og bankakerfið fellir niður milljarðaskuldir óhæfra stjórnenda og lánar þeim svo upp á nýtt. Sama óhæfa fólkið lánar sama siðspillta pakkinu peningana okkar. Ef einhver nefnir bruðl varðandi þetta stjórnlagaþing ætti sá hinn sami að skammast sín. Sú skoðun að stjórnarskráin hafi staðist tímans tönn er líka grundvölluð á svo eiginhagsmunalegum grundvelli að hún fellur um sjálfa sig. Stjórnarskráin skilaði okkur nákvæmlega í hrunið 2008. Þráðbeint og markvisst.

Næsta spurning var hverju þyrfti helst að breyta.
Ég veit ekki hvort þetta ÁTTI að vera trikk-spurning eða ekki en hún ER það engu að síður.
Það sem kemur mér mest á óvart er að fólk er fullkomlega blint á þá staðreynd að það þarf ekki að breyta stjórnarskránni heldur semja nýja. Fólk er alveg stjarnfræðilega hrætt við þá hugmynd að faxa þessa helvíts tímaskekkju aftur upp í rassgatið á Margréti Þórhildi.
Flestir frambjóðendur vilja að farið sé lið fyrir lið yfir stjórnarskrána og henni breytt. Mikilvægast af öllu sé að halda í það góða sem í henni er. Enginn nefndi dæmi og þetta góða. Hvers vegna ætli það sé? Einn frambjóðandi hélt því meira að segja fram að grunnur stjórnarskrárinnar væri einhverskonar siðfræðileg niðurstaða vestrænnar baráttu fyrir réttlæti. Guð Almáttugur hjálpi mér ef það fífl nær þarna inn.

Síðasta spurningin var hversvegna frambjóðendur buðu sig fram. Merkilegt nokk, mjög fáir klúðruðu því svari. Næstum allir vilja taka þátt í því að skapa réttlátt samfélag.

Þetta var gert nákvæmlega svona:
1874 var okkur afhent þessi stjórnarskrá af danska konunginum. ÁTJÁNHUNDRUÐSJÖTÍUOGFJÖGUR.
1944 var hún svo samþykkt sem stjórnarskrá landsins af 95% þjóðarinnar sem treysti nýtilkomnum forráðamönnum landsins til að standa við það að henda henni og gera nýja að ári.
Það er fyrsta kosningaloforð flokkræðisins sem ákveðið var að svíkja. Og það ekki að ástæðulausu. Þetta mölétna konungsræðisplagg hentaði nefnilega MJÖG svo vel til að vildhalda völdum, kóngurinn fær vald sitt frá Guði og valdið þessvegna hafið yfir gagnrýni. Þó svo að orðinu konungur hafi verið skúbbað út er inntakið óbreytt. Og það var vandamálið.
Í meira en sextíu ár hafa flokkarnir mygið utan í þá hugmynd að gera eitthvað í þessu, sérstaklega þegar hefur kurrað reiðilega í þjóðinni, en kjaftað málið af fagmennsku inní frumskóg nefnda og álitsgjafa sem skila svo engri niðurstöðu, aldrei.
2009 í kjölfar Hrunsins heyrðist ekki kurr lengur í þjóðinni. Í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins lét þjóðin í sér heyra. Ég held að þjóðfundurinn hafi verið tilraun stjórnvalda til að svæfa málið eina ferðina enn. Það tókst bara ekki. Fólkið mætti fullt eldmóðs og þjóðin fylgdist spennt með. Niðurstöður voru ekki bara skýrar, heldur róttækar.
Æææ. Og stjórnlagaþingið er næsta tilraun til að stoppa okkur. Andskotinn að við komumst að samkomulagi þar, það getur ekki verið. Ég held að sumir frambjóðendur bjóði sig fram til þess eins að reyna að viðhalda þinghefðum okkar sem grundvallast í baráttu en ekki samvinnu. Séu það sem í dag er kallað terroristi. Þeir fara inn til þess að verjast breytingum. En það má ekki virka hjá þeim.

Að lokum ætlar svo alþingi að skoða málið.

Ég legg til að alþingi fái fyrirfram ákveðinn frest til að afgreiða málið. Ég tel að tveir mánuðir séu algert hámark. Við skulum átta okkur á þvi að þeir hafa haft yfir 60 ár til umhugsunnar.
Ef alþingismenn hafa uppi einhver önnur áform en að vísa frumvarpinu beint til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu vil ég fá að vita af því NÚNA svo ég geti terroræsað þá einstaklinga sem landráðamenn allan tímann sem stjórnlagaþingið starfar. Best að senda þeim póst. Öllum.

Tuesday, November 23, 2010

Svar óskast

Ég fékk tölvupóst frá frambjóðanda til Stjórnlagaþings. Viðkomandi sendi mér póstinn úr vinnunni þar sem hann vinnur hjá Vinnumálastofnun og hann fékk netfangið mitt í vinnunni. Og hann notfærði það sér til framdráttar. Ég reikna með að hann hafi sent þennan áróðurspóst á öll netföngin sem hann komst yfir í vinnunni.

Með öðrum orðum:
Hann misnotaði tengsl Vinnumálastofnunar sér til framdráttar.
Hann misnotaði aðstöðu sína.

Af geðvonsku ákvað ég að svara póstinum.
Svona hljómaði það:

Sæll Gissur og takk fyrir sýndan áhuga á atkvæði mínu.

Það er skoðun mín sem Íslendings að allir sem bjóða sig fram til Stjórnlagaþings með stefnuskrá eins og þína (sem segir mér ekkert um afsöðu þína til nokkurs og sem virðist endurspegla stefnuskrá fjórflokksins um að segja ekkert sem gæti fælt kjósendur frá í stað þess að segja þeim hreint út hver þú ert og hvað þú raunverulega vilt) séu að sækja um notalegt starf sem lagi stöðuna í kreppunni.

Þú gerir þau taktísku mistök að segja mér hvar þú hefur unnið og hvað þú hefur lært í stað þess að segja mér hver afstaða þín er til samkynhneigðar, kynjakvóta, þjóðnýtingu kvótans, EB og þar fram eftir götunum. Það eru skoðanir þínar sem endurspegla hver þú ert ekki stofnanir og skólar með ártölum. Ég veit ekki einusinni hvað þú ert gamall hvað þá annað.

Svo virðist sem copy-paste framboðsræða þín sem sennilega hefur átt að laða fólk að með notkun á orðum eins og málefnalegri umræðu, aðskilnað valds og þjóðaratkvæðagreiðslum sé sódastrímtæki pólitíkurinnar. Söluvara sem lofar engu, segir ekkert og gefur engin fyrirheit um persónulegan heiðarleika þinn og staðfestu.

En ég ætla að gefa þér annað tækifæri. Stórt.

Sendu mér e-mail sem segir mér eitthvað um þig. Segðu mér sögu af því hvernig þú hefur hjálpað fólki sem þú þekkir ekki neitt. Segðu mér í hvaða fyrirtækjum þú átt. Segðu mér í hvaða stjórnmálaflokki þú ert. Segðu mér í hvaða trúfélagi þú ert. Reyndu að setja saman texta sem endurspeglar að samviska þín virki. Hvað hefur þú afrekað annað en nám og starf? Er það það eina sem þú ert stoltur af í þínu lífi? Hver ertu?

Að lokum verður þú svo að færa rök fyrir því hvers vegna þú ert hæfari í þetta starf en móðir þín (heitin?) og rökstyðja með skýrum hætti hvað gerir þig verðan þess að ákveða hvað er réttlátt í framtíð barnanna minna. Afstaða þín til Schengen, Nato, EB, Evrusvæðisins og þar fram eftir götunum segði líka heilmikið um persónugerð þína. Er í lagi að framselja löggjafarvald að hluta í hendur annars ríkis eða stofnunar? Er það landráð? Hvað ætti að skilgreina sem landráð að þínu mati?

Ef þú svarar mér ekki sendi ég öllum sem ég þekki skilaboð um að kjósa þig alls ekki og reyni að koma í veg fyrir kosningu þína.

Ef þú svarar á þann hátt að mér sýnist þú hafa eitthvað til að bera að geta valdið þessu starfi mun ég hins vegar persónulega ganga í það að greiða götu þína og aulýsa þig sem eina raunhæfa valkostinn í stöðunni.

Kær kveðja
Heiða Skúladóttir


Þar sem kappinn lagði ekki kapp á að svara mér ákvað ég að pósta þessu hér.

Sunday, November 21, 2010

Aðskilnaður ríkis og kirkju breytir engu.




Af hverju er fólki svona ofboðslega tilfinningalega umhugað um að hér skuli ekki vera þjóðkirkja?

Þjóðkirkjur eru út um allt og eru minnismerki frá þeim tíma þegar kóngurinn þáði vald sitt frá Guði. Eins og málin hafa þróast er aðeins eitt vald í boði. Ríkisvaldið (og Auðvaldið sem stjórnar því). Andlega valdinu var sturtað niður með upplýsingunni. Annars brenn ég í Helvíti.

Ég er í sjálfu sér alveg sammála því að aðskilnaður ríkis og kirkju verður að ganga í gegn fyrr eða síðar, en eins og ástandið er í þjóðfélaginu er mér algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna sú rándýra lögfræðiálitsveisla þarf að fara fram akkúrat núna.

Það er eins og fólk haldi að Þjóðkirkjan hafi einhver frímúrarísk klíkuvöld sem nái til æðstu embættismanna þjóðarinnar og við lifum við trúarlegt ofstæki.
Ef menn kalla fermingarfræðsluboðsmiðana og kannski einhverjar heimsóknir lúðalegra trúboða í skóla ofstæki eru menn á rangri leið. Ég þekki persónulega ENGANN sem hefur frelsast í kjölfar fræðslu Þjóðkirkjunnar. ENGANN. Og ef einhver sem þekkir einhvern sem sem hefur HEYRT um að barn hafi snúist í trú sinni eða trúleysi á band með Þjóðkirkjunni vegna trúboðs í skólum langar mig AFAR mikið að heyra af því. Hinsvegar þekki ég MARGA sem hafa hætt í Þjóðkirkjunni vegna þessa. Ég er sammála því að Þjóðkirkjan eigi að hypja sig úr skólum landsins. Hér ríkir trúfrelsi. En hættum að gera úlfalda úr mýflugu.

Það má leiða líkur að því miðað við málflutning aðskilnaðarsinna að Nýtt Ísland líti dagsins ljós við þennan stórkostlega aðskilnað. Ég reyni með eins miklu ímyndunarafli og mér er unnt (sem er umtalsvert) að sjá þetta fyrir mér. En mér er það bara algerlega fyrirmunað. VEGNA ÞESS AÐ ÞESSI AÐSKILNAÐUR BREYTIR ENGU

Hvaða rannsóknir benda til áhrifa sitjandi kirkjuþings og biskups, á hverjum tíma, á störf Alþingis? Hæstarétts? Stefnu Háskólans? Héraðsdóms? Störf einstakra stjórnmálamanna?
Hvaða gengdarlausu fjárútlát má sanna að ríkisstofnanir hafi veitt kirkjunnar mönnum síðustu 10 ár? Eða brautargengi? Eða lendur eða sálir eða yfirhöfuð HVAÐ?

Aðskilnaður ríkis og kirkju fer fram með þeim hætti að Ríkið og Þjóðkirkjan setjast niður og semja um þann auð sem Danakonungur stal af heiðnum forfeðrum okkar (það sem ekki var flutt sjóleiðis til Kaupmannahafnar). Það er allt og sumt. Ekkert annað breytist.

Eða bíddu við........

Kannski verður aðskilnaðurinn til þess að Þjóðkirkjan SETUR MIKLA PENINGA Í AÐ LOKKA FÓLK TIL LIÐS VIÐ SIG eins og gerist í þeim löndum sem þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju er veruleiki. Ef fólk á erfitt með að sjá fyrir sér hvernig það virkar er auðveldast að skoða Bandaríkin. Þar nota kristnar kirkjur fjölmiðla, þar áttu skjól hjá kirkju sem þráir þig mjög heitt og elskar þig jafnvel meira. Annað en hér (og víðast í Evrópu þar sem ríkiskirkjan er staðreynd) þar sem ÖLLUM er skítsama um þennan málaflokk nema á jólunum.

En hvað sem öllu líður og hvað sem verður þá nenni ég ekki að ræða þetta framar sem eitthvað aðkallandi issjú í þjóðfélaginu. Þetta er dramakast og ekkert annað. Uppblásin tilfinningabólga fólks sem er svo blint í trú sinni á trúleysi að það neitar að vera annað en mannréttindafótumtroðin fórnarlömb kerfis sem er illt.

Get the fokking over yourself.

When I find myself in times of trouble




Á kynjafræðilegan hátt hefur verið staðið ranglega að stjórnlaga-þings-framboðinu.

Ekkert við þetta fyrirkomulag hefur hvatt eina stórkostlegustu konu landsins til að taka þátt. Samt er hún eina manneskjan sem ég myndi persónulega (eins og sennilega langflestir íslendingar) alltaf treysta fyrir leyndarmálum og vangaveltum um allt frá ástinni til Guðs, ég myndi treysta henni til þess að gæta barnanna minna þó ég færi í stríð og ég myndi líka biðja hana um að gæta að eigum mínum umfram alla aðra.
Ég held að flestir treysti henni skilyrðislaust án þess að velta því nokkuð sérstaklega fyrir sér. Hún hefur jú alltaf verið þarna. Og aldrei brugðist okkur.
Hljóð og góð. Vitur og fróð.
Ég sakna hennar alltaf og sérstaklega sakna ég hennar þegar taka á afdrifaríkar ákvarðanir á þingi en hún er bara þannig gerð sjáðu. Hún er hógværðin uppmáluð og tæki ekki í mál að vera að trana sér fram með þessum hætti. En hún myndi baka stóran bunka af pönnukönum og steikja kleinur fyrir þann sem hún elskar þó hún fái aðeins örfáar krónur á mánuði núorðið. Þrátt fyrir bogið bak og endalausa fórnfýsi fyrir okkur hin.
Hún er konan sem ég hefði kosið að tæki völd.
Hún Amma.

Af virðingu við hana ætla ég bara að kjósa konur.

Ég hvet þær konur sem settu X við frú Vigdísi og breyttu heiminum að hafa trú á konunum sem buðu sig fram til stjórnlagaþings og halda áfram að breyta heiminum til batnaðar.
Nú er komið að því að við látum hjartað ráða og treystum hvor á aðra.
Konur til sigurs........

Friday, November 12, 2010

Glópagull




Líður að jólum. Bara orðið sjálft er farið að svífa yfir vötnum. Á ljósvakamiðlum er okkur boðið að koma á tónleika og sýningar, messur og markaði. Fólk kaupir brosandi, varning til styrktar hinum ýmsu hópum, með hjartað fullt af nágungakæreika og allt er dásamlegt.

Fólk missir sig í happdrættiskaup, til styrktar íþróttum, fötluðum, glötuðum og fátækum. Sem betur fer. Mörg góðgerðarmaskínan treystir á þennan stuðning til að greiða götu skjólstæðinga sinna út árið. Björgunarsveitir treysta alfarið á gjafmildi okkar. Og Guð sá að það var gott.

En það er önnur hlið á þessum gullpeningi. Hann er ekki svona fallegur og yndislegur....

Í landinu okkar er eftirfarandi hópum ekki séð fyrir því nauðsynlegasta:
Veikum
Fátækum
Öldruðum
Öryrkjum

Þetta fólk þyggur ölmusu. Sem skaðar mannlega virðingu hvers og eins.

Mig langar að biðja þig að borga happdrættismiðana sem streyma heim til þín. En ekki láta staðar numið þar heldur heimta að skattarnir sem við öll greiðum sé skipt þannig að enginn sé útundan.
Svo er líka hægt að vera góður án þess að kaupa neitt.
Ég mæli með því, það lyftir andanum og sáinni upp á við.
Amen

Tuesday, November 9, 2010

Ich bin auf Gnarrenburg gekommen




Það hlýtur að teljast til tíðinda að maður sem þekktastur er fyrir kjánaskap skuli blása í lúðra og gefa kost á sér í pólitík. Það þarf hugrekki til. Sérstaklega ef maður á fortíð. Hefur jafnvel látið út út sér allskonar vitleysu sem andstæðingar túlka að eigin geðþótta sem neikvæð persónueinkenni fremur en að Gnarrinn sé viljandi að hræra í hausnum á þeim.

Pólitík snýst um ákveðinn kjarna.
Að viðhalda völdum sínum eða auka við þau!

Allir flokkar, líka Bestiflokkurinn, eru klíkur. Innan Bestaflokksins er samt fólk sem hvorki vill né getur logið jafn áreynslulaust og sérþjálfaðir flokksgæðingar. Það reynir ekki að koma sér undan ábyrgð með því að kjósa gegn samvisku sinni í skjóli flokksins. Það má alveg láta reyna á hvort mannleg samviska skili okkur betra samfélagi en ísköld og svört krumla hinnar heilögu ritningu; Stefnuskránni. Þvaðri sem enginn tekur mark á og enginn tekur alvarlegt.

Þetta kerfi er orðið algjörlega úrelt og útbrunnið. Það verður aldrei sátt um áframhald á þessu kerfi. Það eru ekki bara einstaklingarnir sem við verðum að losna við, það eru helvítis flokkarnir líka. Öll þjóðin ætti að vera í einum flokki sem kallast Íslendingar og allir í framboði. Allir þingmenn skili vinnuskírslum í lok vikunnar og birti á netinu. Þar ætti að sjálfsögðu að koma fram afstaða sem varða öll lög sem koma til kasta þingsins. Auk þess allar tengingar viðkomanda í samfélaginu, fjölskyldu og fyrirtækja. Allir yrðu að gera sér prófæl á netinu þar sem kemur fram persónuleg afstaða gagnvart samkynhneigð, feminisma, lögleiðingu eiturlyfja, eignarrétti og svo framvegis.
Menn ættu að þurfa að raða eftirfarandi lista með tilliti til mikilvægis.
Menntakerfið - Heilbrigðiskerfið - Tryggingakerfið - og svo framvegis.
Menn ættu að gefa upp skýra afstöðu í klíkumálum landsins með því að velja hvaða klíkum við ættum að vera í og þannilg líka úr hverjum við ættum kannski að segja okkur.
Schengen, EB, Nató og svo framvegis.
Hugmyndir einstaklingsins varðandi íslenska náttúru.

Jæja.
Þetta er allavega hugmynd.

Mér þykir hún góð. 100 % gagnsæi og lýðræði. Það er það sem þarf.

Saturday, November 6, 2010

Afsakaðu ég var ekki að hlusta




Það er synd og skömm að yfirvöld skuli ekki ná því, hvorki gegnum mótmæli, fréttaflutning af skelfingu né stjörnuvitlaust fólk á netinu, að fólk treystir ekki kerfinu lengur. Þetta hyski er svo tilsniðið í framheilanum að vitund þeirra getur ekki lengur treyst taugakerfinu og tilfinningunum.
Heili þeirra hafnar hugmyndinni um stjórnarfarsbyltingu.

Það er lögmál sem tryggir eitt lögmál. Það er alltaf þannig. Og þess vegna verður engu hafnað nema það sé tætt í sundur í frumeindir og gert að engu. Það er mikil vinna en einhversstaðar verður maður að byrja og innblástur veitti fréttaflutningur af fullum fangelsum á sama degi og Albaníu og einhverjum öðrum var boðið að vera með í mesta bull kerfi sem nokkurn tíma hefur verið búið til. Schengen.
Sjengen

Ef þú ætlar að bóka hótelherbergi á Spáni, leigja íbúð í Tékklandi eða skrá þig í skóla í London verður þú að hafa........????????????

Já. Já og Já. Vegabréf.

Ef þú býrð í fátæku austantjaldsríki, ert með slæmar tennur, atvinnulaus og hatar tengdamóðir þína þá............????????????

Ég veit. Þú setur þig í samband við Tjkztanísku mafíuna í Reykjavík og þeir stilla upp fyrir þig samningi. Þú kemur með helling af dópi inn í landið og ef það tekst færðu fullt af peningum og um þig séð, ef það klúðrast ferðu í sumarbúðir í upphituðum húsum, læknisþjónustu, sálfræðiþjónustu, lífstílsráðgjöf, tannlækni, dóp, vinnu, klippingu og frí aðra hvora helgi til að fremja glæpi og safna fari fyrir konuna og tengdapabba.

Hver var vitsmunalega fjarverandi þegar við skrifuðum undir þennan fjanda? Allir? Hætta í þessu strax og ekki seinna en strax. Með Sjengen skrifuðum við undir samning undir frjálst flæði á þrælahaldi, fíkniefnum, vopnum og meðlimum skipulagðra glæpastofnana.

Já ! Vegna Sjengen eru börn send í gámum í kynlífsþrælkun. Þetta er ekkert fokking fyndið. Þetta er árás á mannlega virðingu. Þetta er viðbjóður sem líðst vegna þess að í einhverju fyrirfram gefnu dramakasti gæti verið gott að vera í þessu sambandi. Týndur farangur kannski eða eitthvað álíka. Veistu fólk er ekki allsstaðar skotið í hnakkann utan sjengan ef það finnst vegabréfslaust. Þekki til dæmis engan sem hefur lent í því í London.

Ég kann ekkert ein að koma okkur þarna út. Hvað á ég að gera? Læðast inn í alþingi og finna lögin og setja þau í tætarann? Ég er hrædd um að þetta sé aðeins flóknara. Það verður nefninlega að vera svo fokking flókið að allir gefist fyrirfram upp á því að reyna að breyta.

Mótmælum allavega. Það má. Ennþá. Hinum megin við götuna.

Við getum líka tekið heilagt stríð á þetta í nafni Óðins og Ása Þórs og höggvið mann og annann.
Eða bara nefnt þetta issjú við aðra og tékkað á því hvort fólk veit eitthvað í sinn haus almennt.
Ég persónulega ætla að láta stjónmálavitringinn og mannvininn George W Bush blása mér andann í brjóst, því með heilögu stríði sínu gegn terroristum opnaði hann á fyrirbrigði sem ég kýs að kalla "stríð gegn hugmyndum".

Its fokking on - War on Schengen

Friday, November 5, 2010

Sólin kemur upp í Austri




Ég er búin að vera gersamlega á bólakafi í þekkingarpotti alheimsins með viðkomu á googleearth.
Og loksins hef ég fundið eitthvað af viti.

En það er nú önnur saga. Bráðum ætla ég að varpa fram kenningu. Hún verður síðar kölluð almenna kenningin og verður eina lögmálið sem allir í heiminum skilja. Þetta var spádómur.

Ég er svona að æfa mig í að skrifa texta sem hljóma minna geðveikislegir en kóraninn og biblían en eru samt að fást við svipaðar pælingar. Og það, satt best að segja, er miklu flóknara en það hljómar.

Allt frá því að ég lét það eftir mér að leita að svörum, hefur einhvernveginn einhver ósýnilegur kraftur fyllt mig og mér líður eins og ég sé á næringardufti frá heven.com. Mér líður eins og einhver hafi krækt öngli í belginn á mér og togi mig inn í framtíðina. Eða áfram, fyrir þá sem skilja það betur. Og ég finn fyrir þörf að klára. Klára og klára svo ég geti gert meira og nýtt og notið þess á meðan það gerist.

Lífið er dásamlegt í allri mannvonskunni og óréttlætinu og viðbjóðnum sem okkur er samviskusamlega vellt uppúr á klukkutíma fresti út æfina svo við séum nógu hrædd, nógu ljót, nógu skítug og nógu andlega brotin að hægt sé að gera úr okkur sálarlaus vélmenni sem fá verðlaun í formi dópamíns.

Já. Ég er að reyna að færa í orð þá sýn sem ég hef kosið gera að minni framtíðar. Ég er eins og fiðrildasafnari í roki sem hefur ekkert sér til handagagns nema fata-ryk-rúllu. Aðrir gætu orðið sárir. Aðrir sem eru góðir og gegnir og ég ber djúpstæða virðingu fyrir. Ég þarf vonandi ekki að taka tillit til þess að fólk vaknar dautt ef það kaupir diskinn saungvar satans. Það reyndar er bara fyndið að hugsa til þess að ég skuli gera það að möguleika að einhver hafi minnsta áhuga á mínum pælingum. Hver veit, kannski finnast plögginn í framtíðinni og gefa þá til kynna að ég hafi verið eðla.

Eina leiðin til að lýsa þessu erfiða sköpunarferli er að líkja þessu við að sauma sængina utan um fiðrið í stað þess að troða því í eftir á.
Ég verð að sauma varlega og örugglega fyrir svo innihaldið fjúki ekki bara út í bláinn og hverfi.

Þetta ferli er áhugamálið mitt. Fyrsta og eina alvöru áhugamálið sem ég get fullyrt að hafi sinnt og stundað, af misjafnlega miklu kappi, allt mitt líf. Núna er það einfaldlega orðið ráðandi afl í lífi mínu og ég ætla að helga því líf mitt allt. Og nei, ég frelsaðist ekki og ég gekk ekki af göflunum heldur. (fyrir þá sem hafa áhyggjur af heilsu minni þá sef ég eins og engill og borða hollara en ég er vön og hreyfi mig daglega, þó í hófi eins og mér er tamt)

Ég þarf að setjast niður í fyrsta skipti, og flokka og raða þeim hlutum sem skipta máli og eiga kærleika minn allan og traust. Allt sem ég hef flokkað og raðað af ónauðsynlegum þvættingi og óttalistar gerðir yfir komandi deadline hafa undirbúið þessa vinnu. Ég er sérfræðingur í flokkun. Það er einmitt líka það eina sem ég þarf að vera góð í fyrir utan það að geta aldrei haldið mér saman, og það er meðfætt.

Það vitnast hér með, á veraldarvefnum, að ég hef formlega plöggað mig út úr meitrixinu og sný ekki aftur.


Þeir sem hafa verulegar áhyggjur af andlegri heilsu minni er vinsamlega bent á að kynna sér þær andlegu ritningar sem grudvalla trúarhópa jarðarinnar.

Ef þú kaupir aðgang að költinu án þess að vita fyrir hvað það stendur ertu heimskur.