Monday, August 16, 2010

Það verður alltaf sólarupprás




Æskuárin hafa áhrif á heilsuna

Ég rakst á þetta greinarkorn á mbl.is
Og ég gerði það líka skáletrað og feitt.
Ég krotaði inn í það hinar og þessar vangaveltur, með rauðu.

Mótlæti og streita á æskuárum leiðir til langtíma veikinda og styttir líf fólks, segir hópur sálfræðinga sem hefur rannsakað langtímaáhrif streitu í æsku.

Þetta eru nú alveg sláandi niðurstöður. Hvern hefði grunað að börn þyldu illa skort og ofbeldi? Að vera stöðugt á verði. Hræddur heima og hræddur í skólanum.

Samkvæmt niðurstöðum margra rannsókna bendir flest til að streita í barnæsku, vegna fátæktar eða misnotkunar, geti leitt til hjartasjúkdóma og bólguvandamála, og flýti fyrir öldrun frumna.

Sem merkir að fátæk börn halda að sjálfu sér áfram að vera baslandi, hrætt og fátækt fólk. Fæddist inn í stétt sem engin leið er út úr án hjálpar. Baggi alla tíð.

Á fréttavef BBC er vitnað í breskan sérfræðing sem segir æ fleiri vísbendingar bentu til að streita á æskuárum hafi líkamleg langtímaáhrif.

OMG. Getur þetta staðist?

Í einni rannsókninni skoðaði hópur rannsakenda hjá Pittsburgh háskólanum tengsl milli fátæktar í æsku og fyrstu merkja um hjartavandamál hjá 200 heilbrigðum unglingum.Þeir komust að því að þeir unglingar sem komu frá verst settu fjölskyldunum voru með stífari kransæðar og hærri blóðþrýsting en hinir í hópnum.

Vissuð þið að það eru bein tengsl á milli fátæktar og lífsgæða? Hahahahaha!

Þá leiddi rannsóknin í ljós að börn frá fátækari heimilum voru líklegri til að finnast nokkur tilvik stríðni meðal félaganna vera ógnandi aðstæður.Þau voru líka með hærri blóðþrýsting og hraðari hjartslátt og voru fljótari til að reiðast og sýna fjandsamlega varnartilburði en önnur börn.Að sögn Karenar Matthews, prófessors í sálfræði sem leiddi rannsóknina, eru niðurstöðurnar í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið um sama viðfangsefni.

Er það bara ég sem get séð fyrir mér hrætt ungviði. Lömb, hvolpa, kettlinga, kiðlinga, gríslinga, kálfa, folöld, andarunga og börn. Það þarf lítið til þess að styggja hrætt ungviði. En ef maður er góður við það, verður til traust.

Óöruggar aðstæður og streitukennt umhverfi leiði til þess að börn verði ofur varkár gagnvart því sem þau túlka sem ógn.„Þannig verða samskipti þeirra við annað fólk uppspretta mikillar streitu, sem eykur blóðþrýsting, eykur álag á vefi líkamans og notar upp forðabúr líkamans.“Slíkt eykur áhættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Mér skilst að það sé mælanleg fylgni á milli fátæktar og vannæringar. Vannæring getur skýrt andlegt getuleysi. Sem og líkamlegt.

Önnur rannsókn sýndi fram á að dauði foreldris eða misnotkun í æsku geti gert fólk viðkvæmara fyrir streitu á fullorðinsárum og jafnvel stytt líf þess

Á heildina litið er sumsé búið að sanna það loksins vísindalega að við verðum að vera góð við hvort annað og skilja engan útundan. Teygja höndina inn til þeirra sem eru villtir í myrkrinu og þjást og leiða þá út í ljósið.


Sunday, August 15, 2010

Hin eilífa hringrás orku og massa




Ég hef það fyrir venju að vilja hafa yfirborð hlutanna slétta og fellda. Þannig að það virðist sem álfar fljúgi um hýbýli mín og geri fínt. Þetta er mjög fljótleg og góð aðferð til þess að líða vel heima hjá sér og auðvelt að setja allt aftur á sinn stað. Það sem á engan sinn stað, fer inn í skáp og oní skúffu. Smekklegt.

En það skapar auðvitað vandamál með tímanum. Á endanum er skúffan að verða full og tímabært að vinna þetta niður. Hjá mér er það svona einu sinni í mánuði. Og þá flokkar maður og raðar í einn dag. Næstu daga klárar maður svo að þrífa, allt. Almennilegt.

Ég er akkúrat stödd þarna í bilinu á milli þess að flokka og raða annarsvegar og þrífa hinsvegar. Sorglegt.

Heimasætan er að koma heim í kvöld. Eins gott að allt sé fínt og fallegt þá. Enda hefjast skyldur hennar sem Heimasætu og sambýling og dóttur, þá, að hafa allt fínt. Í samvinnu við alla hýbýlinga. Þægilegt.

Það er grenjandi rigning og ég þarf að fara út í búð og kaupa kattarmat. Kettirnir eru eins og legghlífar utan um fæturna á mér. Malandi en svangir. Tenten er óþekk og hendir hlutum í gólfið. Hún hendir aldrei neinu sem gæti brotnað. Merkilegt.

Herra Hafnarfjörður var að vakna. Það er til merkis um náttfatapartíið okkar í gær. Í boði fm957.
Við erum svo ótrúlega lík að það er stundum soldið skerí. En samt ótrúlega dásamlegt, að geta horft á barnið sitt og vitað hvað það hugsar. Ótrúlegt.

En svona þegar líður á daginn ætla ég að bjóða honum upp á ís. Þá verður hann búinn að fara út með ruslið, hlaupa út í búð og ganga frá dósunum. Tjékk. Og þá þarf ég bara að skúra og þvo þvottinn. Fræðilegt?

Sjáum til.

Ég sendi ykkur öllum ástarkveðjur.

Þeir sem þora mega taka áskoruninni að taka einungis tilfinningalegar ákvarðanir í einn dag. Láta hjartað ráða í öllum tilfellum. Það er mun erfiðara að vera góður en gáfaður.

Friday, August 13, 2010

Eins og ástandið er fyrir botni Miðjarðarhafs




Það er allt að fara til Andskotans og æskan er orðin vitlaus. Og þannig hefur það alltaf verið. Allavega síðan Aristóteles var að digga pælingar. Og hvað með það?

Ef einhver hefði sagt mér að árið 2010 yrðu kettir viðraðir við taum og við ætluðum kannski að selja auðlindir okkar í hendur okurlánara og sækópata, hefði ég nú sennilega hlegið. Allavega árið 1990. Jú og líka 2000. Þetta er núna alveg að fara að verða fyndið í fáránleika sínum.
.
En svo fór ég að prjóna.

Ég held að garðaprjónn geti komið lagi á orkuójafnvægi í fólki og hýbýlum. Svei mér þá.

Og svo er ég líka að fá líkur á heilann. Aðallega fáránlegri notkun á þessum fræðum.

Hnuss...

En hvað með það?
Notið helgina í eitthvað skapandi og skemmtilegt svo þið fáið öll blómstrað.

Sunday, August 8, 2010

Hugleiðing




Ég er búin að vera að pæla svo svakalega að undanförnu. Ég ákvað að reyna að taka greindina á þetta og það hefur kennt mér að greindin ein er ekki lykillinn að hamingjunni. Einhvernveginn hefur heimurinn bara verið að batna með mér eftir því sem ég Zenjóga þetta. Ég er farin að óttast að þetta endi með stofnun nýs trúfélags eða vitavarðastöðu í Langtíburtistans. Ég er nefnilega farin að flokka einstaklinga jafnt sem eintök af tegundinni Sapíens.

Það er alveg merkilegur andskoti hvað þessi afkomuhæfileiki okkar, þekkingarþorsti, vill flækjast fyrir okkur. Það eina sem allar lífverur Jarðar (og sennilega allsstaðar) eiga sameiginlegt er að vera hannaðar til þess að komast af. Ef lífverur breytast ekki með tilliti til heimkynna og aðstæðna, deyja þær út. Sorglegt. Og kannski höfum við þróað með okkur þennan þekkingarhæfileika til þess að komast af? Hausinn á mér er eins og kvikmyndaver með athyglisbrest.

Sjáum fyrir okkur akur. Sjáum gullið kornið vagga í vindinum. Sjáum fyrir okkur mömmu með tvö börn sleppa nokkrum hamstaungum í akurinn í nafni dýraverndunar. Fallegt. Sjáum hamstraungana dafna og vaxa og fjölga sér í stjórnlausri krúttveröld. Sjáum akurinn visna og deyja. Sjáum svo fyrir okkur börn bóndans reyna að sofna á tóman maga. Og feitan kött þvo sér í sólinni.

Hvaða lærdóm má draga af sögunni?

Kannski er sapíens hamstraungi? Kannski er þekkingu okkar ætlað að koma okkur héðan og yrkja ný heimkynni. En við verðum að átta okkur á því að kannski er okkur ætlaður þroski að fara vel með heimkynni okkar svo þau endist okkur í þekkingarþroskanum. Við vitum ekki ennþá hvert eða hvernig við ætlum að fara. En við vitum að plánetan okkar er á tíma. Þegar þar að kemur. Við höfum verið til í okkar mynd í u.þ.b. 130 þús. ár. Erectus var hér í 1.6 mil. ár. Og við höldum að við séum alveg með þetta amk. miðað við þá? Og klukkan tifar.

Og kalliði mig bara geðveika.