Tuesday, July 20, 2010

Þá og nú




Einu sinni fyrir lánga laungu vóru sett lög á Íslandi

Það var hann Gissur biskup Ísleifsson sem réðst í skattheimtu (sem mönnum hefur æ síðan verið í nöp við). Hún var kölluð tíund.
Þessi tíund skiptist þannig að kvart fengu fátækir, kvart fékk biskup, kvart fengu kirkjur og kvart fengu prestar. Tíundin var eitt prósent af markaðsvirði skuldlausrar eignar einstaklings, af hvoru kyni sem var, sem væri fullra sextán vetra.
Og menn borguðu, enda mátti vel eins gifta heimasætuna prestræflinum eða senda erfingjann í læri á sunnudögum.

Þetta skattkerfi hélst mjööööög lengi óbreytt miðað við lög nútímans.
Og það var af því að þau voru góð lög, þó siðferðislega hafi þau verið helzt til rýr.
Góð lög, eins og allir vita sem hlusta á tónlist, eru oftast Mjög Einföld.

Það besta sem ég sé samt við þessi lög, er að í þau eru bundin fjárlög ríkisins og tryggingastofnun á einn stað. Eitt kvikindi sem tekur við og deilir út. Eftir einni leið. Og enginn getur tekið upp á því að setja alla peningana á einn stað, því það má ekki.

Og svona var þetta eiginlega alveg óslitið til 31.desember 2005. Þá var eignarskattur afnuminn. Eftir eittþúsund ára andlegan þroska fundu stjórnvöld út að þeir sem ættu mest, ættu minnst að gefa. Áður hafði reyndar óþokki í Kaupmannahöfn hirt tíundina á móti fátæklingum en fátækratíundin var lögð niður 1914, (en það ár fannst enginn fátækur í landinu, geri ég ráð fyrir?).


Og ég verð að viðra þá skoðun mína, að þetta sé bæði ósmekkleg og kaldrifjuð þróun mála...

Ef við förum bekk tú beisikk. Hvernig á þá tíundin okkar að skiptast? Hversu fáa grunnflokka getum við fundið? Hverjum verður tryggð afkoma fyrst, banka eða barni? Ef einhvernveginn væri hægt að binda í stjórnarskrá slíka skiptingu yrði gerð árlegra fjárlaga einfaldari. Velferðin kostar þetta, á kosnað kaldrifjaðra fjárfesta, hvaðan sem þeir koma.

Svo hef ég aldrei skilið af hverju við viljum erlenda risafjárfesta hingað. Það er miklu betra að reyna að fullvinna hráefnið okkar og reyna að skara fram úr á sem flestum sviðum og vera erlendi fjárfestirinn sem allir vilja fá til sín? Er það ekki?

Sunday, July 11, 2010

Það er allt að gerast


Ég er að reyna að finna tilgang lífsins.

Það gengur vel og ég er búin að hafa kolrangt fyrir mér í alltof mörg ár. Ég treysti eiginlega alltof mikið á framheilann í mér. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Núna ligg ég og öppdeita alla ofurspekina sem ég hef "haft til hliðsjónar" og set hana í fyrsta sæti. Rökhugsunin fær að fara í númer tvö.

Svo sjáum við til hvernig það virkar...

Thursday, July 8, 2010

Málfræði smálfræði




Það er(u) TÖGGUR í drengnum!

was?

ég ekki skilja

Hvernig er rétt að fara með þetta orð í öllum orðhengilsháttum?
Hvernig er rétt skýring á þessu orðskrípi?

Af hverju er ekki hægt að kaupa brúnar töggur?

Nú er illt í efni ekkert tyggja má......

Wednesday, July 7, 2010

Smá pæling




Fordómar í garð trúarbragða eru mér hugleiknir þessa dagana.

Einkum og sér í lagi þykir mér merkilegt að þeir sem ákafast tala gegn trúarbrögðum virðast ekki getað séð málin öðru vísi en með röri þar sem Einn Algildur Sannleikur hlýtur að yfirbuga allar aðrar pælingar.

Að kalla kristni hjátrú er skoðun sem á fullkominn rétt á sér. En það sem ég er að velta fyrir mér er hversu mikil hjátrú ríkir almennt í þjóðfélaginu. Og í heiminum öllum.
Hjátrú sem tengist á engan hátt trúfélögum. En er engu að síður margfalt öflugri en nokkur trúarbrögð, a.m.k. á vesturlöndum.

Dæmi um hjátrú er tilbeiðsla á t.d. merkjavöru, selebbrití, íþróttafólki eða liðum, stjórnmálaflokkum eða mönnum og svona mætti lengi telja.

Hello Kitty vörumerkið er dæmi um þetta.
Barn safnar öllu sem er merkt Hello Kitty, gengur í Hello Kitty fatnaði og sefur með Hello Kitty sængurföt. Ef um væri að ræða maríumynd eða íkonamynd af Kristi myndu flestir álíta að foreldrar barnsins væru snældu geðveikir. Og þetta yrði kallað ofsatrú.

Hello Kitty stendur ekki fyrir neitt. Hefur ekkert andlegt gildi. Kennir ekkert. Kostar bara hellings peninga. Og það er þessvegna sem við kaupum það. Hello Kitty endurspeglar nauðsyn þess að kaupa sér hamingju með innihaldslausu kjaftæði.

Og eins er það með Puma og D&G og Prada og Volvo og JVC og I-phone og svo framvegis...

Vörumerkjadýrkun er þó lítið vandamál þegar miðað er við íþróttafélög.
Venjulegur Íslendingur getur skilið við makann, yfirgefið börnin sín, yfirgefið þjóðkirkjuna, yfirgefið bankann sinn, yfirgefið landið, vinnustaðinn og nánast allt. Nema uppáhaldsliðið sitt í ensku úrvalsdeildinni. Ef það ber ekki keim af skurðgoðadýrkun, ber ekkert keim af skurðgoðadýrkun.

Ég er ekki að segja að íþróttafélög séu í eðli sínu slæm heldur virðist vera að um leið og áhugi manna á andlegum og siðferðilegum málaflokkum dregst saman virðist mannskepnan þurfa að tilbiðja eitthvað. Eins og það sé fast á harða disknum í okkur að Tilbiðja.

Ég er bara ekki frá því að svo sé.

Og þá er spurningin: Hvort gæti hugsanlega hjálpað meira til, nágungakærleikur eða knattspyrna?

Tuesday, July 6, 2010

A (algjörlega) G (glatað) S (sjitt) II





Mig langar að benda á nokkrar staðreyndir um AGS sem ekki hafa komið fram hérna á blogginu mínu enn sem komið er:


  1. Sjóðurinn hjálpar ekki bágstöddum þjóðum, er ekki skilgreindur sem hjálparstofnun, og flest ríki sem hafa notið þess vafasama heiðurs að njóta "neyðarastoðar sjóðsins" hafa í raun endað umtalsvert verr en áður. Það er mín skoðun að vinnubrögð íslenskra fjármálafyrirtækja endurspegli nákvæmlega siðgæðisskort AGS þar sem skýlaus krafa um gróða á kostnað almennings er hornsteinninn. Þessa sömu skoðun tjáði fyrrverandi framkvæmdarstjóri AGS (sem er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði) og uppskar það að vera rekinn.
  2. Þegar ríki semja við AGS (og fá neyðaraðstoð eins og við höfum fengið) eru aldrei ræddar opinskátt þær kröfur sjóðsins sem við verðum að uppfylla. Við skulum athuga það að framkvæmdarstjóri sjóðsins er Breti og opinberar yfirlýsingar bæði Breta og Hollendinga eru á þá leið að við munum ekki fá stuðning þeirra innan AGS nema við borgum Icesave, og þá sennilega í topp. Um það er væntanlega búið að semja, þó svo að við heyrum ekki af því í opinberum fjölmiðlum.
  3. Hagfræðileg hugmyndafræði AGS er einkavæðing. Númer eitt, tvö og þrjú. Að tryggja að erlendir fjárfestar geti fengið aðgang að hvaða ríkisstofnun sem er, auðlindum og fjármálafyrirtækjum. Þetta er mjög líklega ein af frumkröfum AGS fyrir láninu frá þeim.
  4. AGS semur ekki við lönd sem geta hugsanlega rétt úr kútnum og borgað lánin til baka. Þá væri viðkomandi land ekki nógu rækilega á hausnum. Flest þau lönd sem AGS semur við, þurfa að semja aftur við þá um greiðslur og þá eru engin glæsikjör í boði.
  5. Árið 2001 kom upp hneyksli innan AGS þar sem stjórnin varð að gangast við því, að á bak við lánasamninga til handa ríkjum í fjárhagsvandræðum voru skilyrði sem ekki mátti gera opinber, þar sem þau gengu þvert á lög og báru vott um hyglingar og einkabrask. Þarna varð ljóst að AGS er gjörspillt stofnun.
  6. Bandaríska fjármálaráðuneytið á 51% í AGS og þar sem bankinn (systurstofnun sem millifærir peninga) er rekinn í Bandaríkjunum samkvæmt bandarískum lögum, nú þá ráða þeir yfir honum. Alveg.
  7. Til gamans má nefna að AGS á 3005 tonn af gulli sem eru metin á um 6.3 milljarða dollara. Þannig að það er ekkert skrýtið að þeir horfi í aurana....

Þessar staðreyndir eru ekki einhverjar samsæriskenningar og vitleysa. Ég hvet ykkur að skoða þetta hvar sem þið getið fundið á netinu. Gúgglið og skoðið. Og hlustið svo á fréttir.

Það mun koma ykkur lítið á óvart hversu Seðlabankinn og ríkisstjórnin standa þétt að baki nýjum og erlendum eigendum bankanna.
Hversu mikilvægt er að einkavæða hitt og þetta strax.
Hversu illa verður tekið á færslu auðlinda eins og orkufyrirtækja til erlendra aðila og hvers vegna ekki er búið að tryggja með lögum yfirráð okkar yfir þeim.
Og svo framvegis.

Monday, July 5, 2010

A (algjörlega) G (glatað) S (sjitt)




Ég hef óbeit á alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF)

Seðlabanki Íslands er fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) fyrir hönd íslenska ríkisins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (e. International Monetary Fund) hefur frá stofnun haft það að markmiði að efla alþjóðlega samvinnu í gjaldeyrismálum, stuðla að stöðugu gengi mynta og greiða fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum.

Starfsemi sjóðsins er einkum þrenns konar:
• Eftirlit með efnahagsmálum aðildarlanda sjóðsins og alþjóðahagkerfinu í heild.
• Tæknileg aðstoð við aðildarríkin.
• Lánveitingar til aðildarríkja í greiðsluerfiðleikum.

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru í Washington D.C. og fer dagleg yfirstjórn fram þar. Ísland á samstarf við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin á vettvangi sjóðsins. Þessi lönd mynda eitt af 24 svokölluðum kjördæmum sjóðsins.

Það er gaman að skoða hvernig seðlabankinn setur þetta upp (hér að ofan). Starfsemi sjóðsins fer fram í BNA. Það er hefð fyrir því að stjórnarformaðurinn sé breskur og bankastjóri alþjóðabankans (sem er systurstofnun AGS) sé bandarískur. Helvíti lýðræðislegt ekki satt?

Þessi sjóður var stofnaður 1945 og erum við Íslendingar stoltir stofnfélagar þessa bákns. Þegar bankakreppan skall á, skulduðum við þessum sjóði ekki neitt.

Upphafleg hugmynd var að tengja dollarann við verð á gulli og aðildarríki áttu svo að tengja sinn gjaldmiðil við annað hvort dollarann eða gull. Altso svo að peningar endurspegluðu einhvers konar verðmæti. Árið 1971 áttaði bandaríkjastjórn sig á því að það væri erfiðara að svíkja fé af fólki ef fólk gat gert sér einhverja grein fyrir því hvers virði þeir væru. Þeir aftengdu dollaran frá gullinu.

Árið 1990 var ákveðið að hægt yrði að svipta aðildarríki atkvæðisrétti. Lýðræðislegt það?

Það er skondið að einn af þremur grundvallarpólum AGS er að hafa eftirlit með efnahagsmálum aðildarlanda sjóðsins og alþjóðahagkerfinu í heild.

Maður spyr sig: Hvor var heimskari í útreikningum sínum á ástandi íslenska fjármálakerfisins og bankanna, Moody's Investors Service (í UK) eða AGS (í BNA) ?

Eins og ég hef áður sagt þá höfðum við ekkert val. Við urðum að treysta þeim. Ekki satt?

Það er frekar hallærislegt að hlusta á íslenska pólitíkusa. Þeir eru hræddir við AGS. Og ESB. Hversvegna í ósköpunum?

Við stofnuðum AGS. Það er bara þannig. Og við eigum ekkert að vera hrædd. Andskotinn hafi það.

Ef Bandaríkjamenn og Bretar ætla að setja okkur á hausinn með peningalegri kúgun og pyndingum þá geta þeir bara sagt það hreint út. Hætt að nota þennan sjóð sem þeir einoka í eigin þágu sem grýlu á aðildarríki.

Annars fáum við bara kínverja með okkur í lið.
Og rússa.
Og palestínu.
Og færeyinga.
Og allskonar....

Já bara!