
Þannig Hljómar Hið Heilaga Orð!
Fyrst ætla ég að leggja á borð tilvitnun í Boðbera Sannleikans:
Þessi öfl óskynseminnar geta leitt yfir okkur nýjar miðaldir, því þegar guðsótti, hjátrú og hindurvitni ná yfirhöndinni hefur Upplýsingin beðið skipbrot. Til að axla sögulega ábyrgð okkar og tryggja að Upplýsingin og gildi hennar haldi velli þurfum við að kveða niður trú á djöfla, guði, spádóma, eilíft líf og ámóta fjarstæðu.Svo ritar hinn háheilagi og alvitri spámaður Reynir Harðarson formaður Vantrúar.
(ætli það sé til sálmur um Upplýsinguna?)Ég reyni að láta trúmál ekki fara í taugarnar á mér. Í sannleika sagt er ég á þeirri skoðun að trúarskoðanir fólks séu algerlega þeirra persónulega mál og komi engum við en þegar um beina innrætingu (svokallað trúboð eða tilmæli um trúarlega vakningu) er að ræða vil ég meina að það sé ofbeldi.
Allt trúað fólk, hvort sem það trúir á Upplýsinguna (eins og Reynir Harðarson) , á Allah eða á anda í stokkum og steinum, hefur þá skoðun að það sem það trúir á, sé Sannleikurinn. Fólk með sömu trúarafstöðu hópast nefnilega gjarnar saman í félög og má þar nefna Þjóðkirkjuna og Vantrú. Þetta köllum við trúfélög.
Það hefur orðið mikil réttlætisbylting í trúmálum á Íslandi síðastliðna áratugi, en betur má ef duga skal. Trúarleg innræting, hvort sem henni er beint að börnum, veikum eða öðrum ætti að vera með öllu bönnuð. Þá á ég líka við Vantrú. Þeir verða einfaldlega að gera sér grein fyrir því að þeir eru sjálfir að stunda trúboð á Sannleikann og ég verð að viðurkenna að það er farið að fara svolítið í taugarnar á mér.
Ef múslimar á Íslandi gengju fram af sömu hörku (þá er oft talað um trúarofstæki) og Vantrú, er ég viss um að Vantrúarfólki yrði illa brugðið. Eins og Vantrú, trúa múslimar á Sannleikann. Þeir kalla hann bara annað en Upplýsinguna. Upplýsingin held ég að sé vísindin, eða allavega sú vitneskja sem maðurinn býr yfir. Sú sama og sagði okkur að jörðin væri flöt, að menn gætu aldrei flogið, að menn kæmust aldrei út í geiminn og svo framvegis. Daglega breytist Upplýsingin og dag einn gæti upplýsingin skýrt hitt og þetta sem "trúað" fólk kallar sannleikann. Hvað þá? Satt best að segja þykja mér trúarskoðanir Vantrúarmanna afar áhugaverðar og síst bjánalegri en margt annað. Enda bý ég með manneskju sem trúir ekki á neitt sem tilheyrir trúfélugum.
En þetta er ekki allt.
Vantrú virðist vera á móti eldheitum skoðunum fólks, svo lengi sem hægt er að belndla þær við eitthvað sem ekki verður sannað með aðferðum homo sapiens sapiens að svo stöddu.
Við skulum skoða málið.
Hvað er ást? Hvað er heppni? Hvað er hamingja? Svona mætti lengi telja. Orð sem við notum yfir persónuleg tilfinningalega túlkanleg fyrirbrigði sem ekki er hægt með neinu móti að sanna að sé til í raunveruleikanum. Eða með öðrum orðum nokkurnveginn nákvæm skilgreining Vantrúarmanna á orðinu Guð. Þetta fer að verða ansi hæpið hjá þeim, ekki satt.
Ég er Kærleikurinn. Við skulum pæla aðeins í því!
Að endingu vil ég taka undir þá skoðun margra að Kaþólska kirkjan hefur gert rangt með því að skjóta skollaeyrum við og horfa fram hjá glæpum og ofbeldi, sem oftar en ekki hefur bitnað á börnum. Þrátt fyrir þetta er það mín skoðun að Kaþólska kirkjan sé ekki Vond af þessum sökum og Allir sem tilheyra henni. Hvers vegna var það ekki fyrr en í gær að lögregla í Belgíu réðst til atlögu gegn helvítis perrunum þar? Ofbeldi á ekki að fá að dafna í þögninni. Nýleg skrýrsla sýnir að meirihluti ofbeldis á Íslandi fer fram inni á heimilum af fólki sem er tengt fjölskylduböndum. Eigum við þessvegna að banna Fjölskyldur og Heimili? Er allt fólk sem á Heimili barnaníðingar af því að það er á heimilum sem glæpir þeirra eiga sér stað? Auðvitað ekki. Vont fólk finnur sig þar sem það kemst upp með glæpi sína. Það er í höndum samfélagsins alls að reyna að sporna gegn því.
Nágungakærleikur, að þekkja og láta sér annt um alla sem mæta okkur á þessari lífsins göngu. Það að vera ekki skítsama um allt nema helvítis rassgatið á sjálfum sér. Umbera skoðanir annara og taka með æðruleysi því sem gerir okkur gramt í geði. Tjá okkur án þess að vera með sleggjudóma eða hatursfullar yfirlýsingar. Kurteysi. Sýna virðingu. Treysta á þann sannleika allavegana að við sjálf berum ábyrgð á okkar hamingju og að við verðum að treysta því að hana getum við öðlast án þess að meiða aðra.
Það er náttúrulega að segja ef hún er til.
es. ef einhvern langar að rökræða þetta mál frekar er viðkomandi bent á þá trú mína að þetta sé persónuleg og prívat skoðun mín sem ég kýs að ræða ekki á opinberum vettvangi og hinsvegar að þrátt fyrir að þetta tiltekna rifrildi sé sennilega það elsta í heiminum hafa menn aldrei náð að sanna nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum né heldur komist að neinni niðurstöðu.
Amen.