Wednesday, June 30, 2010

Hið illa plan mitt
Allir saman - það er gaman


Það hefur orðið mér mikið hugstrump hvernig megi með löglegum aðgerðum kveða niður íslenska ógeðspólitík eins og hún hefur þrifist frá stofnun lýðveldisins.

Ég held að ég sé komin með svarið!

Ef allir ganga í stjórnmálaflokk og bjóða sig fram í trúnaðarstörf og á framboðslista, verður gamla flokkakerfið ónýtt. Sem er frábært.
Hins vegar langar sennilega ekki alla til þess að gegna trúnaðarstörfum eða vera á framboðslistum fyrir neinn flokkanna. Nú, þá bara kýs maður þá í prófkjörum sem maður hefur aldrei heyrt um og vill að komi í staðinn fyrir myglusveppina sem nú sitja við völd.
Ef flokkarnir reyna að snúa á þetta með því að stilla upp lista, svo þeir geti komið fyrrnefndum skítableðlum í gegn, þá bara safnar maður undirskriftum innan flokksins og heimtar prófkjör.

Lengi lifi lýðræðið....

Göngum í stjórnmálaflokk og skemmum hann innanfrá.

Það besta við þetta er, að maður getur einmitt valið flokkinn sem maður hatar mest til þess að skemma....

Húrra!

Friday, June 25, 2010

Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð
Þannig Hljómar Hið Heilaga Orð!

Fyrst ætla ég að leggja á borð tilvitnun í Boðbera Sannleikans:
Þessi öfl óskynseminnar geta leitt yfir okkur nýjar miðaldir, því þegar guðsótti, hjátrú og hindurvitni ná yfirhöndinni hefur Upplýsingin beðið skipbrot. Til að axla sögulega ábyrgð okkar og tryggja að Upplýsingin og gildi hennar haldi velli þurfum við að kveða niður trú á djöfla, guði, spádóma, eilíft líf og ámóta fjarstæðu.

Svo ritar hinn háheilagi og alvitri spámaður Reynir Harðarson formaður Vantrúar.
(ætli það sé til sálmur um Upplýsinguna?)

Ég reyni að láta trúmál ekki fara í taugarnar á mér. Í sannleika sagt er ég á þeirri skoðun að trúarskoðanir fólks séu algerlega þeirra persónulega mál og komi engum við en þegar um beina innrætingu (svokallað trúboð eða tilmæli um trúarlega vakningu) er að ræða vil ég meina að það sé ofbeldi.

Allt trúað fólk, hvort sem það trúir á Upplýsinguna (eins og Reynir Harðarson) , á Allah eða á anda í stokkum og steinum, hefur þá skoðun að það sem það trúir á, sé Sannleikurinn. Fólk með sömu trúarafstöðu hópast nefnilega gjarnar saman í félög og má þar nefna Þjóðkirkjuna og Vantrú. Þetta köllum við trúfélög.

Það hefur orðið mikil réttlætisbylting í trúmálum á Íslandi síðastliðna áratugi, en betur má ef duga skal. Trúarleg innræting, hvort sem henni er beint að börnum, veikum eða öðrum ætti að vera með öllu bönnuð. Þá á ég líka við Vantrú. Þeir verða einfaldlega að gera sér grein fyrir því að þeir eru sjálfir að stunda trúboð á Sannleikann og ég verð að viðurkenna að það er farið að fara svolítið í taugarnar á mér.

Ef múslimar á Íslandi gengju fram af sömu hörku (þá er oft talað um trúarofstæki) og Vantrú, er ég viss um að Vantrúarfólki yrði illa brugðið. Eins og Vantrú, trúa múslimar á Sannleikann. Þeir kalla hann bara annað en Upplýsinguna. Upplýsingin held ég að sé vísindin, eða allavega sú vitneskja sem maðurinn býr yfir. Sú sama og sagði okkur að jörðin væri flöt, að menn gætu aldrei flogið, að menn kæmust aldrei út í geiminn og svo framvegis. Daglega breytist Upplýsingin og dag einn gæti upplýsingin skýrt hitt og þetta sem "trúað" fólk kallar sannleikann. Hvað þá? Satt best að segja þykja mér trúarskoðanir Vantrúarmanna afar áhugaverðar og síst bjánalegri en margt annað. Enda bý ég með manneskju sem trúir ekki á neitt sem tilheyrir trúfélugum.

En þetta er ekki allt.

Vantrú virðist vera á móti eldheitum skoðunum fólks, svo lengi sem hægt er að belndla þær við eitthvað sem ekki verður sannað með aðferðum homo sapiens sapiens að svo stöddu.

Við skulum skoða málið.
Hvað er ást? Hvað er heppni? Hvað er hamingja? Svona mætti lengi telja. Orð sem við notum yfir persónuleg tilfinningalega túlkanleg fyrirbrigði sem ekki er hægt með neinu móti að sanna að sé til í raunveruleikanum. Eða með öðrum orðum nokkurnveginn nákvæm skilgreining Vantrúarmanna á orðinu Guð. Þetta fer að verða ansi hæpið hjá þeim, ekki satt.

Ég er Kærleikurinn. Við skulum pæla aðeins í því!

Að endingu vil ég taka undir þá skoðun margra að Kaþólska kirkjan hefur gert rangt með því að skjóta skollaeyrum við og horfa fram hjá glæpum og ofbeldi, sem oftar en ekki hefur bitnað á börnum. Þrátt fyrir þetta er það mín skoðun að Kaþólska kirkjan sé ekki Vond af þessum sökum og Allir sem tilheyra henni. Hvers vegna var það ekki fyrr en í gær að lögregla í Belgíu réðst til atlögu gegn helvítis perrunum þar? Ofbeldi á ekki að fá að dafna í þögninni. Nýleg skrýrsla sýnir að meirihluti ofbeldis á Íslandi fer fram inni á heimilum af fólki sem er tengt fjölskylduböndum. Eigum við þessvegna að banna Fjölskyldur og Heimili? Er allt fólk sem á Heimili barnaníðingar af því að það er á heimilum sem glæpir þeirra eiga sér stað? Auðvitað ekki. Vont fólk finnur sig þar sem það kemst upp með glæpi sína. Það er í höndum samfélagsins alls að reyna að sporna gegn því.

Nágungakærleikur, að þekkja og láta sér annt um alla sem mæta okkur á þessari lífsins göngu. Það að vera ekki skítsama um allt nema helvítis rassgatið á sjálfum sér. Umbera skoðanir annara og taka með æðruleysi því sem gerir okkur gramt í geði. Tjá okkur án þess að vera með sleggjudóma eða hatursfullar yfirlýsingar. Kurteysi. Sýna virðingu. Treysta á þann sannleika allavegana að við sjálf berum ábyrgð á okkar hamingju og að við verðum að treysta því að hana getum við öðlast án þess að meiða aðra.

Það er náttúrulega að segja ef hún er til.

es. ef einhvern langar að rökræða þetta mál frekar er viðkomandi bent á þá trú mína að þetta sé persónuleg og prívat skoðun mín sem ég kýs að ræða ekki á opinberum vettvangi og hinsvegar að þrátt fyrir að þetta tiltekna rifrildi sé sennilega það elsta í heiminum hafa menn aldrei náð að sanna nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum né heldur komist að neinni niðurstöðu.
Amen.

Thursday, June 24, 2010

Með lögum skal land byggja
Á Íslandi er gott að vera.

Í áranna rás höfum við haft það ágætt svo ekki sé meira sagt. Svo kom hrunið og fólk hópaðist saman til þess að mótmæla. Ég mótmælti sjálf og er stolt af því. Barði pott og hrópaði slagorð.
Ég fann enga þörf hjá sjálfri mér að ögra lögreglumönnunum sem voru þarna, en þeirra er að gæta þess að tryggja öryggi ef mótmælin breytast í óeirðir. Óeirðir eru allt annað en mótmæli. Þau einkennast af tilefnislausu ofbeldi og lítilsvirðingu fyrir löggæslumönnum. Erlendis kemur það gjarnan fyrir að það sem fer af stað sem friðsamleg mótmæli breytist á svipstundu í vígvöll þar sem menn kasta bensínsprengjum og troðast undir og hvaðeina.

Á Íslandi er lögregla. Afar mörgum er uppsigað við lögregluna af því þeir eiga að framfylgja lögum sem einhverjum þykja bjánaleg. Og hlutverk lögreglunnar er afar víðtækt og flókið og illa borgað og viðbjóðslegt. Og það er til fólk sem sér sig knúið til þess að fara ekki eftir tilmælum lögreglu, hvort sem um ræðir að aka undir áhrifum áfengis eða halda sig á mottunni í mótmælum. Mér þykir hvoru tveggja bera vott um siðblindu og glæpahneigð.

Ef við gefum okkur það að félagar í LÍÚ myndu fjölmenna fyrir utan Alþingi til þess að mótmæla einhverri fyrningarleið og ryðjast inn og hafa í frammi óspektir og yfirgang (þannig að starfsmaður Alþingis lægi eftir slasaður), ætti lögreglan þá ekki að skakka leikinn?
Ef einstaklingur sem tók myntkörfulán gengi berserksgang á skrifstofum sýslumanns, ætti þá ekki að kalla til lögreglu?

Það er hlutverk lögreglu að halda uppi lögum og reglu. Við þær aðstæður sem sköpuðust í Alþingishúsinu þennan örlagaríka dag var engan veginn hægt að tryggja öryggi nema að takamarka fólksfjölda. Ákveðnir aðilar töldu sig hafna yfir landslög og ekki þurfa að fara að tilmælum lögreglu og þeir voru ákærðir. Eins og sést greinilega á myndbandinu er ekki um friðsamleg mótmæli að ræða. Ef þá hægt er að tala um mótmæli, enginn sérstakur boðskapur kemur fram annar en að reyna að koma á byltingu með stjórnleysi.

Ég vona þessir hrokafullu hálfvitar sem þarna voru, horfist í augu við brot sín. Ég vona að þessir sjöhundruð (0.2% þjóðarinnar) sem eru að heimta að verða ákærðir átti sig á því að ástæðan fyrir því, að þeir eru það ekki, er sú að þeir voru ekki handteknir við að brjóta lögin. Þeir mótmæltu vonandi friðsamlega.

Mér þykir það epískt hallærislegt að reyna að búa til eitthvað Aung San Suu Kyi mál úr þessu. Nenniði að bera virðingu fyrir lögunum. Og þeim sem framfylgja þeim. Það er svo miklu einfaldara fyrir alla ef fólk getur hagað sér eins og fólk.

Tuesday, June 22, 2010

Gremjulisti
Vááá hvað margt getur farið í mínar ofur-viðkvæmu taugar.

Pétur Blöndal er þar ofarlega á blaði, esvíspík. Hann á svo fokking bágt að þurfa að vera Alþingismaður að hann er að kikna.
Hei, Pétur:
HÆTTU Í PÓLITÍK STRAX APINN ÞINN - FARIÐ HEFUR FÉ BETRA

Svo er vegurinn yfir Hólmaháls bæði glænýr og ónýtur.
Hei, Vegagerð:
HÉR ÁÐUR FYRR BYGGÐU MENN VEGI MEÐ SKÓFLUM OG HJÓLBÖRUM SEM ENTUST LENGUR - HÁLFVITAR

Svo náttúrulega Svika-Mörður Árnason sem með föðurlegum áminningartón tjáði að menn verða að borga skuldir sínar.
Hei, Mörður:
EKKERT MÁL AÐ BORGA ÞETTA ÞEGAR ÞESSAR SÖMU STOFNANIR HAFA ENDURGREITT LANDSMÖNNUM ÞAÐ SEM HVARF Í HRUNINU - JÚSTJÚPIDDASHÓL

Vááá maður. Ríkisendurskoðun komst að því að Álftanes þyrfti meiri pening til skólamála en en önnur sveitarfélög vegna þess að þar búa svo mörg börn.
Hei, Ríkisendurskoðun:
Nennirðu að drullast til að leggja fram aukafjárveitingar sem miðast við það hversu margir nemendur eru greindir eitthvað eða af erlendu bergi brotnir. Eins og staðan er ekki hægt að halda úti kennslu víða vegna þessa. Kennarar eiga skilið að fá að vinna vinnuna sína í friði.


Ég er hæstánægð með borgarstjórann, ég veit hann veit hvað hann þarf að gera.

Monday, June 21, 2010

Á ferðalagi
Ég hafði villst út af veginum og hafði gengið dag eftir dag í eyðimörkinni án þess að koma auga á nokkuð eða nokkurn. Hitinn var óbærilegur og varir mínar sprungnar af þurrk. Ég hafði gefist upp á því að ganga og skreið áfram. Þrátt fyrir allt ætlaði ég ekki að gefast upp. Ég mjakaðist áfram metra fyrir metra á viljastyrknum einum saman og fann að brátt yrði þetta búið. En ég ætlaði að komast lengra.
Ég vaknaði við það að einhver var að hella upp í mig vökva. Hann var þykkur og klístraður og ég kúgaðist þegar ég drakk. En ég fann að ég varð að fá meira. Ég opnaði augun og við mér blasti kolsvart andlit, málað með rauðum og hvítum lit. Gular tennurnar mynduðu brosgrettu og svartar hendur færðu tréskál að vörum mínum. Hún var full af blóði.
Mér bauð við volgum vökvanum en vissi að ég yrði að drekka þetta ef ég ætlaði að komast af. Í hvert skipti sem ég kyngdi fann ég lífsandann fljóta um æðar mér og þrátt fyrir klígjuna vildi ég meira. Ég var klístruð í framan og um hendurnar og reyndi að þurrka af mér en fann aðeins brennandi eyðimerkursandinn festast við blóðið og rispa mig.
Þeir voru nokkrir saman. Menn sem drösluðu mér upp á einhverskonar börur sem þeir svo drógu áfram í hitanum. Ég skildi ekki hvað þeir vildu mér en vissi að ég varð að fara með þeim. Það var enginn annar valkostur í stöðinni.
Ég velti því fyrir mér hvort mér yrði nauðgað þegar á áfangastað væri komið. Eða hvort ég yrði fituð og étin. Ég vissi bara að þeir komu fram við mig eins og bráð. Hlógu og bentu með grjóthörð svört augu sem mældu mig út. Ef ég gaf frá mér hljóð, komu þeir með skálina og gáfu mér meira blóð að drekka.
Gegn einbeittum vilja mínum, sofnaði ég. Ég man óljóst að þeir stoppuðu og gáfu mér blóð annað slagið og ég fann þakklætið streyma um mig. Blóð getur verið gott. Ef maður venst því. Innst inni vissi ég þó að þetta blóð var ekki af dýri. Ég sá það í svörtum augum þeirra að hið illa var með okkur í för. Ég fékk vissu mína þegar þeir drápu einn úr hópi sínum og fylltu belgi sína af blóði hans. Ég veit ekki af hverju ég fékk að lifa.
Tíminn þarna í eyðimörkinni var einkennilegur. Ég hafði engan skilning á því hversu lengi ég hafði legið þarna á börunum og hversu mörgum út hópnum varð að slátra svo við hefðum blóð að drekka. Ég vissi það bara að ég var fangi og hvað sem ég gerði, myndi það ekki leiða mig að neinni lausn.

Dag einn komum við að tjaldbúðum. Það var hrópað og kallað og þorpsbúar fjölmenntu að skoða fenginn. Mig. Starandi börn og konur sem skáskutu augum sínum á mig, en litu undan ef ég horfði til baka, nálguðust mig eins og hópur af hýenum í kring um slasað dýr. Það var smjattað og tungur sleiktu þurrar varir.
Allt í einu kom styggð að hópnum. Í gegn um þvöguna kom eldgamall karl haltrandi. Hann var nakinn og allur líkami hans málaður með þessari hvítu og rauðu málningu. Hann var hálf tannlaus og um hálsinn hékk eitthvað þurrkað. Ég hafði á tilfinningunni að það væri barnshöfuð. Ég var sem lömuð af ótta.
Hann gekk rólega í kring um mig, leit aldrei í augu mín en skoðaði mig nákvæmlega. Ég hvíslaði til hans, hvort ég fengi að fara. Hann virti mig ekki viðlits. Hann benti á mig og hvæsti einhverjar óskiljanlegar skipanir og konurnar veinuðu. Börnin tóku á rás í burtu.
Mér var komið fyrir í tjaldi og þar fékk ég vatn. Að drekka og til þess að þvo mér. Ég skalf svo mikið að tennurnar glömruðu upp í mér.

Friday, June 18, 2010

Úgg
Ég er utan af landi. Lengst.

Þar þykir góður siður bæði og spakur að uppnefna fólk. Ekki svo að skilja að það þyki par fínt að æpa ófögnuð á eftir vandalausum né heldur úthúða fólki á bak með spellnefni, heldur eru menn fremur kenndir. Þá jafnan kenndir við eitthvað eða einhvern, sbr. kennitala.

Þykist ég vita að þessi list eða svoleiðis menningarlega arfgengi háttur sé hvorki sér austfirskur né íslenskur. Þó margir vildu Lilju kveðið hafa.

Ég hef stundað þetta af kappi. Alla tíð við jafnan mikla gleði sjálfrar mín. Ég hef þó tekið þetta skrefi lengra á stundum og eins skemmt mér við að enska eða þýska (sbr. íslenska=þýð.) nöfn manna og málefna, staða og hverveithvað. Von Druslhausen, Von Krapphausen, Von Lúðhausen og svo framvegis hafa verið mér traustir vinir þegar minni mitt brestur (oftar en ekki) á upprunaleg skírnarnöfn mannskepna. Svo má nefna ýmsa sem ég er búin að uppnefna svo lengi að ég man ekki lengur hvað þeir hétu. Jón Steinbakur, Kongó, Jóna Paprikupíka og fleiri.

Indjánanöfn eru líka skemmtileg. Ég er til dæmis búin að vera ansi lengi Þoku-auga en tók nýlega upp nafnið Aftur-heiða. Læknirinn minn er Dauður-fiskur.
Og til gamans má svo nefna hér til sögunnar hin ýmsu klassísku uppnefni sem ég nota frá degi til dags. Heimasætan, Mikki (nú nefndur Herra Hafnarfjörður), Geiss, Mangalús, Kisfinns, Tralli, Eðlukona og Svikfinns.

Allir ættu að uppnefna sig. Reglulega. Og hlæja að því með sjálfum sér. Það hefur aldrei neinn dáið af því það var hlegið að honum og fólk ætti að hætta að vera svona hrætt. Það er MIKLU hræðilegra að reyna að fá fólk til að hlæja og mistakast það gjörsamlega en að labba á glerhurð í Kringlunni. Og þá tala ég af reynslu.

Reynum að hafa gaman af þessu...kommón.

Eyrún Von Strop-kopf Mönsjhausen hin þunga

Tuesday, June 15, 2010

H2O
Núna er múgsefjunin enn á ný komin á kreik.

Núna á vatnið að verða eign okkar allra.

Ég hef djúpan skilning á því að vatnið ætti að vera þjóðareign. Rétt eins og fiskurinn í sjónum og orkufyrirtæki. En ég verð að vera því andsnúin að núna sé rétti tíminn til þess að taka þessa auðlind úr höndum fátækustu stéttar landsins.

Það er mín skoðun að hið opinbera hafi ekki staðið sig þegar kemur að því að gæta að hagsmunum þjóðarinnar varðandi náttúruauðlindir landsins. Eins og sakir standa eru bæði fiskurinn í sjónum og orkan okkar á fleygiferð í burtu frá okkur í hendur stórfyrirtækja og útlendinga.
Vatnið fer sömu leið.
Við ættum að standa vörð um að halda þessu vatni frá yfirvaldinu. Annars fer illa. Það er reynslan sem kennir það.

Þegar hið opinbera hefur sýnt í verki, með því að færa áðurnefndar auðlindir þjóðarinnar aftur í hennar eigu með hagsmuni íslenskra heimila að leiðarljósi er sennilega tímabært að fara að skoða næstu skref. Ekki fyrr en þá.

Svo má líka setja spurningarmerki við þá framkvæmd að taka eign af einhverjum.

Síðast þegar ég gáði, hét það að stela.

Sunday, June 13, 2010

Fegurðarsjónarmið í nokkrum þáttum
Ég er ljót!

Ég er nefnilega alls ekki eins og ég á að vera. Að minnsta kosti ef ég á að trúa því sem mér er sýnt og sagt. Það hefur harla lítið með það að gera hversu gömul ég er, hvernig genasamsetning mín er eða hvort ég hafi lifað heilbrigðu eða óheilbrigðu lífi.

Á meðan húðin á mér lítur ekki út fyrir að vera tíu árum yngri, hárið glansar ekki af vellíðan, neglurnar sýnast ekki fullkomnar, ég er ekki í formi eins og nítján ára atvinnukona í íþróttum, fatnaður minn er ekki endurspeglun nýustu hátízku, fituprósenta er yfir vannæringarmörkum, sjón mín er skert og fætur mínir eru þreytulegir er útilokað að samfélagið sem ég tilheyri sjái mig á annan hátt en ófullkomna.
Það er hin nýja skilgreining á falleinkunn. Ófullkomin. Ekki fullkomin.

Og það er af því að ég á að geta keypt þetta allt fyrir peninga. Fixað þetta með aðgerðum og þjáningum. Og ekki síst peningum. Þetta er bara spurning um það hvort að ég hafi áhuga á því að sinna sjálfri mér. Þannig er það presenterað. Mitt val. Algerlega.

Þar sem að ég hlýt samhljóma þjófélagslega falleinkun þegar kemur að útliti, velti ég því fyrir mér hvort ég hafi í raun 0g veru eitthvað val. Ef við gefum okkur það að ég myndi sólunda háum fjárhæðum í alla þá fegrunarþerapíu sem boðið er upp á, myndi ég ekki fremur ná mér í góða vinnu, góðan mann og fólk almennt sjá að þar færi hæfari einstaklingur. Falleg kröftug kona með skínandi sjarma og óbrotna sjálfsmynd? Það er engin spurning.

Þannig að ég hef alls ekki þetta val. Á annan hátt en að ég má velja hvort ég tapa í baráttunni um hamingjuna eða fari með sigur af hólmi. Frábært.

Eeeen....ég á ekki peninga fyrir þessu. Og kannski höndla ég ekki sársaukann og svæfingu. Og kannski verða gerð mistök og og og og og

Maður spyr sig nefnilega þessa dagana hvort kynþokki og fegurð sé það sama. Og hvort eitthvað geti verið fallegt jafnvel þó það falli ekki að smekk allra. Hvort samfélagið geri sér einhverja grein fyrir þeim áróðri sem fjölmiðlar boða börnunum okkar.

Ég veit það þó fyrir víst að kona sem hefur farið í brjóstastækkun er helmingi líklegri til þess að fremja sjálfsmorð en sú sem gerir það ekki. Erum við ekki komin á hála braut í þessu helvítis rugli?

Ég er eins og ég er, því hvernig á ég, að vera eitthvað annað?

Saturday, June 12, 2010

Greiningar
Ég hef verið að hugsa um það hversu heppin við erum hérna á Íslandi að hægt er að láta greina börnin okkar vel frá unga aldri.

Það er liðin tíð að lesblinda, einhverfa, hegðunarvandamál og væg greindarskerðing séu greind með fordómum sem aumingjaháttur eða fávitaskapur. Við Íslendingar erum svo sannarlega ekki ennþá blinduð af gömlum sænskum klisjum um að öll börn séu eins og þannig sé allt nám og öll afþreyging miðuð út frá norm-einstaklingi sem ekki er til. Við höfum séð og samþykkt að hver einstaklingur í samfélaginu er sérstakur á sinn hátt og aðlagað að þeirri staðreynd allt nám og hvers kyns þjálfun.

Með lögum höfum líka tryggt þeirri fögru fjölbreytni að fá að þroskast og njóta sín í umhverfi sem er laust við ofbeldi og afskiptaleysi og tryggt öllum börnum, já öllum þegnum landsins skilyrðislausa ást og hlýju. Umburðarlyndi og velmegun.

Eða ekki?

Erum við kannski bara með þá pólitísku hugmynd að þetta sé svona? Að við séum í rauninni bara komin örstutt á þessari leið til réttlætis?

Við erum sannarlega dugleg að greina vanda. Við vitum nákvæmlega hvernig fátækt eyðileggur fólk. Við vitum nákvæmlega hvernig ofbeldi eyðileggur fólk. Við vitum nákvæmlega að menntun en lykillinn að velgengni þjóða.

Ég ætla ekki að missa þetta út í algera langrullu um jöfnuð. Ég ætla að halda mér við börnin. Fast.

Við erum óheyrilega klár að greina börnin okkar. Já alveg rétt. Greina börnin okkar.

En samt er það svo að þau fá ekki vinnufrið í skólanum. Og ofbeldi í formi eineltis er enn til staðar og hrekur ungt fólk út í vímuefnaneyslu og sjálfsvíg. Í sumum tilfellum.
Það er vegna þess að þrátt fyrir allar greiningar, hefur vantað lausnir.

Hvers vegna eiga börn að þola hávaða og læti á vinnustaðnum sínum?
Af því einhver á bágt? Sennilega.

Ef einhver á þínum vinnustað myndi æpa og öskra meira og minna allan daginn. Myndi henda nestinu sínu í vinnufélagana og henda stólnum sínum út um gluggann með reglulegu millibili. Hversu mikið bágt þyrfti hann að eiga til þess að fyrirtækið myndi þola honum þessa hegðun í 10 ár? Er ekki nokkuð ljóst að viðkomandi yrði látinn fara? Þrátt fyrir bága stöðu? Myndu samstarfsfélagar knýja á um úrræði fyrir viðkomandi? Eða fjölskylda hans? Eða myndu vinnufélagarnir einfaldlega kóa með honum og þagga niður málið af því hann ætti svo bágt?

Ég veit það ekki. Svei mér þá.

Friday, June 4, 2010

Karlar og KonurÉg setti inn hugmynd á Skuggaborg. Svona meira til þess að sjá viðbrögðin heldur en til þess að gera mér vonir um að hún næði að komast á framkvæmdarstig.

Ég lagði til að settur yrði 50% kvennakvóti í stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg.

Menn voru almennt sammála um að það kæmi í veg fyrir að hæfasti einstaklingurinn yrði valinn í starfið. Það yrði að setja einhverja konu í embætti. Guð hjálpi okkur öllum.

Nú er verið að rannsaka þátt kvenna í Hruninu. Það er gert svo sýna megi fram á með rökum að þar sem konur voru við stjórnartaumana, fóru hlutirnir ekki eins illa og að konur réðu nánast engu í þessum darraðardansi útrásarvíkinga.

Það er eins og það sé eitthvað leyndarmál að konur séu ábyrgari í fjármálum. Eitthvað sem við megum ekki segja upphátt því það gæti sært háttvirta fjármálasnillinga þjóðarinnar. Eins og þeir eiga nú bágt um þessar mundir. Settu þjóðina bara óvart á hausinn. Ææææ.

  • Það er margrannsakað, skoðað og útspegulerað að karlar hafa hærri laun en konur
  • Það er tölfræðileg staðreynd að karlar lenda frekar í vanskilum en konur
  • Það er deginum ljósara að karlar telja karla jafnan hæfari í valdastöður
  • Það er niðurstaða Hrunsins að þeir sem stjórnuðu voru vanhæfir
  • Það er óhjákvæmilegt að horfa til kynjaskiptingar í stjórnarelítu landsins
  • Konur eiga ekki að þurfa að keppa við karla eftir þeirra gildismati og reglum

Þær konur sem hafa hellt sér í slaginn og náð árangri hafa þurft að spila eftir löngu útjöskuðum leikreglum karla þar sem græðgi, mannfyrirlitnig og hroki hafa verið grundvöllur allra hugmynda um réttarfar og leikreglur. Það er í besta falli sorglegt og versta falli viðbjóðslegt.
Laun karla og kvennastétta endurspegla þetta enn þann dag í dag. Það er nákvæmlega ekkert fínna við að vera verkfræðingur en leikskólakennari. Það er ekkert fínna að vera húsasmiður en hárgreiðslumeistari. Það er ekkert sem bendir til þess að karlar hafi til að bera neina yfirburðahæfileika til þess að stjórna þannig að allir fái notið sín.

Ég ætla ekki að fara með þessar skoðanir mínar lengra í bili. Af djúpstæðri virðingu fyrir körlum.

Ég vildi bara óska þess að hún væri gagnkvæm.