Það vekur mér jafnan ugg þagar stjórnmálamenn túlka niðurstöður kosninga.
Eins og venjulega eru allir sigurvegarar. Það breytist ekki.
Menn ætla að hafa að engu skoðanir kjósenda, útmála niðurstöður sem sigra og varnarsigra og telja að sinn flokkur þurfi ekki að breyta neinu. Svo og svo margir séu ánægðir með störf meirihluta.
Jafnvel núna þegar landsmenn allir eru óánægðir með stöðu sveitarstjórnarmála og landsins í heild.
Eftirfarandi er mín túlkun á þessum kosningum og þar sem ég hef ENGRA PERSÓNULEGRA HAGSMUNA AÐ GÆTA held ég að mín túlkun sé bæði réttari og betri en allra sem sem tengjast stjórnmálum persónulega á einhvern hátt.
Við skulum byrja á almennri skynsemi:
- Ekkert framboð á Íslandi hlaut fylgi kjósenda af því að viðkomandi flokkur hafði staðið sig vel. Það er staðreynd sem frambjóðendur verða að tileinka sér strax og horfast í augu við. Þetta er sá hornsteinn íslensrar pólitíkur sem frambjóðendur hafa, frá Hruni, mistúlkað og snúið án þess að bera gæfu til þess að átta sig á því að menn ganga fremur til kosninga til að refsa heldur en til að verðlauna.
- Þar sem engin ný framboð komu fram, eru úrslit kosninga vafasöm þar sem fólk hafði ekki val um breytingar.
- Þar sem kosningaþáttaka var dræmari en tíðkast, eru úrslit kosninga vafasöm þar sem fólk hafnaði augljóslega öllum sem voru í boði.
- Þar sem meirihlutar héldu velli má áætla að stjórnir hafi ekki verið búnar að setja viðkomandi sveitarfélag á hausinn.
- Í þeim sveitafélögum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi og sjálfstæðismenn héldu velli eða bættu við sig, var fólk að kjósa gegn yfirlýstri fyrningarleið kvótans að hætti VG og Samfylkingar.
- Þar sem Samfylkingin tapaði fylgi var fólk að lýsa andstöðu sinni við inngöngu í Evrópusambandið.
- Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi af því ENGINN veit hvað þessi flokkur stendur fyrir annað en að komast til valda.
- Þar sem VG tapaði fylgi voru menn að refsa þeim fyrir að geta ekki komist að samkomulagi um nokkurn skapaðan hlut og vera almennt á móti atvinnuuppbyggingu.
- Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi voru menn að refsa þeim fyrir að hafa borið ábyrgð á Hruninu, sem þeir og gera.
- Sérframboð gamalla atvinnupólitíkusa röknuðu upp af því að atvinnupólitíkus er annað orð yfir mann sem er búinn að klúðra ferli sínum.
Flokkakerfið er búið að vera. Það ætti að banna pólitíska flokka, þeir eru í eðli sínu spilltir og getulausir. Hvernig einstaklingskosning fer fram er ekki mitt að ákveða. Hvort sem okkur hugnast sú leið að allir séu í framboði eða einn flokkur í boði að hætti kínverskra skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að hagsmunamál þjóðarinnar og einstakra sveitarfélaga séu ekki býttispjöld siðblindra einstaklinga sem komast til valda í gegn um klíkuskap. Svo er það alveg ræpuljóst að flokkspólitíkur muni í framtíðinni verða minnst sem mesta eiginhagsmunapots-kerfis í veröldinni.
Svo mörg voru þau orð.