Sunday, May 30, 2010

Kosningaskoðun



Það vekur mér jafnan ugg þagar stjórnmálamenn túlka niðurstöður kosninga.
Eins og venjulega eru allir sigurvegarar. Það breytist ekki.

Menn ætla að hafa að engu skoðanir kjósenda, útmála niðurstöður sem sigra og varnarsigra og telja að sinn flokkur þurfi ekki að breyta neinu. Svo og svo margir séu ánægðir með störf meirihluta.
Jafnvel núna þegar landsmenn allir eru óánægðir með stöðu sveitarstjórnarmála og landsins í heild.
Eftirfarandi er mín túlkun á þessum kosningum og þar sem ég hef ENGRA PERSÓNULEGRA HAGSMUNA AÐ GÆTA held ég að mín túlkun sé bæði réttari og betri en allra sem sem tengjast stjórnmálum persónulega á einhvern hátt.

Við skulum byrja á almennri skynsemi:

  • Ekkert framboð á Íslandi hlaut fylgi kjósenda af því að viðkomandi flokkur hafði staðið sig vel. Það er staðreynd sem frambjóðendur verða að tileinka sér strax og horfast í augu við. Þetta er sá hornsteinn íslensrar pólitíkur sem frambjóðendur hafa, frá Hruni, mistúlkað og snúið án þess að bera gæfu til þess að átta sig á því að menn ganga fremur til kosninga til að refsa heldur en til að verðlauna.
  • Þar sem engin ný framboð komu fram, eru úrslit kosninga vafasöm þar sem fólk hafði ekki val um breytingar.
  • Þar sem kosningaþáttaka var dræmari en tíðkast, eru úrslit kosninga vafasöm þar sem fólk hafnaði augljóslega öllum sem voru í boði.
  • Þar sem meirihlutar héldu velli má áætla að stjórnir hafi ekki verið búnar að setja viðkomandi sveitarfélag á hausinn.
  • Í þeim sveitafélögum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi og sjálfstæðismenn héldu velli eða bættu við sig, var fólk að kjósa gegn yfirlýstri fyrningarleið kvótans að hætti VG og Samfylkingar.
  • Þar sem Samfylkingin tapaði fylgi var fólk að lýsa andstöðu sinni við inngöngu í Evrópusambandið.
  • Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi af því ENGINN veit hvað þessi flokkur stendur fyrir annað en að komast til valda.
  • Þar sem VG tapaði fylgi voru menn að refsa þeim fyrir að geta ekki komist að samkomulagi um nokkurn skapaðan hlut og vera almennt á móti atvinnuuppbyggingu.
  • Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi voru menn að refsa þeim fyrir að hafa borið ábyrgð á Hruninu, sem þeir og gera.
  • Sérframboð gamalla atvinnupólitíkusa röknuðu upp af því að atvinnupólitíkus er annað orð yfir mann sem er búinn að klúðra ferli sínum.
Ég held að þegar á allt er litið séu niðurstöður kosningana þessar:

Flokkakerfið er búið að vera. Það ætti að banna pólitíska flokka, þeir eru í eðli sínu spilltir og getulausir. Hvernig einstaklingskosning fer fram er ekki mitt að ákveða. Hvort sem okkur hugnast sú leið að allir séu í framboði eða einn flokkur í boði að hætti kínverskra skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að hagsmunamál þjóðarinnar og einstakra sveitarfélaga séu ekki býttispjöld siðblindra einstaklinga sem komast til valda í gegn um klíkuskap. Svo er það alveg ræpuljóst að flokkspólitíkur muni í framtíðinni verða minnst sem mesta eiginhagsmunapots-kerfis í veröldinni.

Svo mörg voru þau orð.

Friday, May 28, 2010

Júró tvö



Er sæl og ánægð með seinni undankeppni Júró. Hí á Svía. Skildi hvort eð er ekkert í þeirra framlagi. Reyndar skildi ég ekkert í Tyrkneska framlaginu heldur en það er nú önnur saga.
Nú spyr maður sig hinsvegar hvernig lördagsaftaninn fari? Ég held auðvitað með Heru, kommón annað væri rugl. En ég held líka pínku með Rússum. Mér fannst það prýðilegt fram-lag.
Írska lagið var náttúrulega bara rugl, eppik feil.
Og hvað var með Ísraela? Þó ég hefði tekið upp geyspið í sjálfri mér og hlustað á það, hefði það sennilega ekki valdið mér eins mikilli vanlíðan að hlusta á, eins og þetta breimavæl sem tókst á einhvern undraverðan hátt að hitta aldrei á neitt sem hefði mátt kalla laglínu. Vááá hvað ég þoldi það EKKI.

Ég held að eitthvað lag sem er svo venjulegt að ég er búin að gleyma því, verði sigurvegarinn í ár. Þannig var það í fyrra. Ég man ekki ennþá hvernig það lag er, nema það er fiðluspil í því.
Það má líka gera ráð fyrir því að Grykkir fari langt, svaðalega smjörkúkslegt sjó hjá þeim sem dillast alveg prýðilega.

Það sem er mest gaman við þessa keppni í ár er að sitja heima og syngja kristilega rokktexta við öll dramatísku lögin sem eru með, það svínvirkar. Og er alveg ógislega fyndið. Cartman og Faith+1 hafa þarna um auðugan garð að gresja. Jibbíkóla.

Að lokum verð ég að koma aðeins inn á það hversu frámunalega stórkostlega yndislegt það er að geta setið heima hjá sér og diskúterað búninga, dansara, brjóst sem eru við það að skoppa uppúr, lúðarokkara, vindvélar, yfirdram og hallæri án þess að neinum sárni. Þetta er það kvöld ársins sem ég skemmti mér hvað best, hlæ sem hæst og fæ að fagna því að vera Íslendingur í hvert skipti sem einhver gefur okkur stig.
Þó það sé bara tvisvar.

Guð blessi Ísland - Best í Heimi

Thursday, May 27, 2010

Óreiðukenndar tilraunir




Mér er svo oft spurn.

Ég er að reyna að skilja samfélagið, mennina, náttúruna og Tilganginn, bara. Og eftir því sem ég zen-jóga þetta meira, verð ég vitrari og sáttari. Og það lagar heiminn og hjarta mitt slær pottrólegt og minnir mig á að ég þarf að hugsa betur um það.
Lífið er nöturlegt. Að minnsta kosti hjá allt of mörgum sapíens á Jörð. Það annað hvort skortir andlega eða líkamlega næringu og hættuleg hörguleinkenni láta á sér kærla.
Ég sé gjarnan hluti fyrir mér. Hausinn á mér er eins og kvikmyndaver með athyglisbrest. Og mér þykir gott að sjá okkur sapíens fyrir mér sem tegund lífvera á plánetunni Jörð. Sem við erum.

Allar lífverur jarðar (og sennilega allar lífverur allsstaðar) eiga það sameiginlegt eitt, að vera hannaðar til að komast af í umhverfi sínu. Og þessi hæfileiki viðheldur tegundunum.
Í ljósi þessa er mikilvægt að velta því aðeins fyrir sér af hverju sapíens hefur þróast eins og raunin er. Við höfum þekkingu til þess að rústa heimkynnum okkar og nýtum hana leynt og ljóst í botn. Og það er kála okkur. Sem tegund erum við líka að klúðra algerlega þeirri reglu náttúrunnar að tilgangurinn sé að komast af. Við göngum af stórum hluta tegundarinnar dauðum með græðgi sem einkennir barnið og þann andlega vanþroska. Þetta er í meira lagi sorglegt.

Sjáum fyrir okkur akur. Sjáum fyrir okkur gullið korn vagga í vindinum. Sjáum fyrir okkur mömmu með tvö börn að sleppa nokkrum hamstraungum frjálsum aftur úr í náttúruna í nafni dýraverndunar. Sjáum fyrir okkur hamstraungana vaxa og dafna og fjölga sér. Fallegt.
Sjáum fyrir okkur akurinn veikjast og hverfa hægt og rólega eftir því sem fleiri hamstrafjölskyldur blómstra í krúttleika sínum. Og sjáum svo fyrir okkur börn bóndans reyna að sofna með tóman maga. Og spikfeitan kött þvo sér í sólskyni.

Hvaða lærdóm má draga af þessari sögu?

Kannski er sapíens hamsturinn í þessari sögu. Kannski þurfum við að dreifa okkur og háma í okkur aðrar lífverur annars staðar til þess að komast af. En til þess að það megi gerast, verðum við að sætta okkur við að vera hluti af náttúrunni. Að það sé engin trygging fyrir því að við komumst héðan áður en við stútum plánetunni. Og þá erum við enn ein tegundin sem rann út í sandinn og hvarf. Sorglegt.

Ég hef þá trú að þegar við finnum plánetu sem hentar okkur, eigum við eftir að þurfa að yrkja hana í mörg hundruð ár áður en við getum lagt hana undir okkur.

Og kalliði mig bara geðveika.

Tuesday, May 25, 2010

RÚV



Maður verður nú að tjá sig um keppnina í ár, er það ekki?

Í fyrsta lagi: VIÐ KOMUMST ÁFRAM! HÚRRA!

Í öðru lagi:

Er alveg merkilegt hvað fólk finnur sig knúið til að drulla yfir þessa keppni. Ég hefði haldið að það væri alveg nóg að slökkva á sjónvarpinu eða skipta bara um stöð. Einfalt mál.
En neeeeei. Það þarf að auglýsa hámenningarlegt fegurðarskyn sitt rækilega. Og gera lítið úr Öllum sem eru svo Vonlausir og Glataðir að virkilega Fíla þessa keppni. Af því að Ótýndur Almúginn grillar og gerir sér glaðan dag og Hatar ekki RUV einn dag á ári.

Mér þykja þeir sem drulla yfir Evróvisjón vera óþolandi hrokapakk sem kann sig ekki.

Og ef menn eru að agnúast yfir einhverjum kostnaði þá langar mig að benda á að Ólympíuleikarnir kosta okkur MIKLU MIKLU meira. Vetrar og sumar. Og aðrir hunddreplegir íþróttaviðburðir, allt frá hestaíþróttum til golfspilunar. Og allt þar á milli.
Að ég tali nú ekki um samnordíska framhaldsþætti og evrópskar jaðarkvikmyndir. Gubb.
Svo þykir mér trúlegt að fræðsluefni eigi ekki beint uppá pallborðið hjá öllum og sitt sýnist hverjum um íslenska dagskrárgerð. Kastljósið og Silfur Egils. Maður spyr sig.

En það dásamlega er, að við eigum ennþá RUV. Sem sýnir þetta allt og gerir þannig næstum allri þjóðinni til geðs. Það er ekki búið að einkavæða þennan ríkisfjölmiðil sem gegnir því mikilvæga hlutverki að ná til allra landsmanna, til sjávar og sveita. Er öryggisventill þegar allt er á hraðleið til Fjandans. Það eru nefnilega ekki allir landsmenn að dunda sér við það að stela efni af internetinu og ég trúi því, rétt eins og KFC agiteraði fyrir, að maður eigi að velja fjölbreytt. Maður hefur gott af því. Það stækkar í manni heilabúið. Og maður kannski heimskast ekki eins rækilega eins og þegar maður festist í einni sápu.

En það er mín skoðun allavegana.

Áfram RÚV, þið rokkið...

Saturday, May 22, 2010

Laugardagur til lukku

Mikið er nú gott að vera heilsuhraustur á laugardegi. Með Engan móral. Jibíkóla.

Búin að fara á fund og stefnan tekin á sund. Langar að fara og kíkja á kosningaskrifstofur en tel fremur ólíklegt að afkomendur mínir hafi áhuga á því.

Það er gaman að pæla í hinu og þessu. Núna er ég einmitt að pæla í því hversu miklum peningum verður sóað í þessa kosningabaráttu. Hvernig hefði verið hægt að verja þeim peningum til þess að gera borgina betri og hvort frambjóðendur geri sér grein fyrir að bruðl eins og þetta er einmitt það sem þjóðin er búin að fá sig fullsadda af. Að ausa takmarkalaust í auglýsingar sem lofa öllu fögru og allir vita að aldrei verður staðið við. Sama helvítis siðblinda hyskið að reyna að tryggja sig inn í heim þar sem hægt er níðast á fátækum, moka undir rassgatið á sér og jafnvel hægt að stökkva inn á Alþingi í drulluslaginn og viðbjóðinn sem þar lýðst. Oj bara.

Ég ætla að varpa sprengjunni.

Ég held að það sé tími til komin að konur stjórni þessu landi.
Bara konur.
Helst engir karlar.
Og sérstaklega aldraðar konur.

Ef það verða endilega að vera karlar með í ráðum þá eiga þeir að vera aldraðir öryrkjar.

Og ef út í það er farið held ég svei mér þá að konur ættu að stjórna heiminum.
Karlar eru eiginlega búnir að klúðra þessu öllu.
Og hana nú...

Wednesday, May 19, 2010

Þjóðarskútan



Frrráábær dagur.

Við Heimasætan geystumst borgarenda á milli og erindrekuðum, svo fékk ég báðar mágkonur mínar með mér á rúntinn og út að borða. Nammigott.

Kvöldið var svo tekið undir hlátur-jóga, sem svínvirkar n.b.

Mig langar að koma þeirri skoðun minni á framfæri hér að ALLIR flokkar nema sá BESTI hafa svikið þjóðina. Trekk í trekk í trekk í trekk.

Að þetta helvítis hyski skuli voga sér að kalla BESTA framboðið lélegan brandara er mér fullkomlega fyrirmunað að skilja.

Dæmi um lélegan brandara er ástandið á velferðarkerfinu en sá djókur hætti að vera fyndinn fyrir svo óheyrilega löngu að mér er óglatt af tilhugsuninni.

Ef einhver siðferðisvottur væri til í íslenskum pólitíkusum myndi Alþingi setja lög sem banna framboð allra einstaklinga og venslafólks þeirra, hvort sem er til sveitastjórna eða til Alþingis, sem hafa átt þar sæti fram að þessum kosningum. Vorhreingerningu Takk.

Jón Gnarr gæti ekki, þrátt fyrir einbeittan brotavilja, klúðrað málum eins fokking hressilega og þjóðarskútuskipstjórar síðustu ára. Og ef menn ætla að réttlæta vesældóm sinn og aðgerðarleysi með einhverri andskotans sjóveiki þá er það klárt mál að við þurfum áhöfn sem er töggur í en ekki veikburða dusilmenni og aumingja.

Tuesday, May 18, 2010

Aftur á bloggið

Jesús Pjétur í allan vetur hvað þessi dagur er búinn að vera geðveikur. Í alla staði. Ég er ekki frá því að næstum öll mín vandamál hafi raknað upp af sjálfu sér og kærleikur og hamingja streyma í þvílíkum boðaföllum í átt til mín að ég er bara klökk af þakklæti.

Ég elska ykkur góða fólk, það er bara þannig.

Rokkstig dagsins fá samt sem áður heittelskuð mágkona mín og bróðir hennar fyrir að hafa læknað bílinn minn, einn tveir og bingó. Þið eruð ÆÐI!

Og systir mín er orðin áskrifandi af rokkstigum...

Ég skrapp á fund, þann fyrsta af níutíu á níutíu dögum, og fer vel á því.

Ég bið þess að Guð (samkvæmt skilningi mínum á honum) veri með ykkur, hvar svo sem þið eruð....