Monday, April 19, 2010

Vogur og Vík

Ég áttaði mig á því í morgun þegar ég var útskrifuð af sjúkrahúsinu Vogi að ég á bara alls enga vini lengur. Mér datt enginn í hug til þess að hringja í og biðja um að sækja mig og koma mér heim. En það er nú eiginlega bara mér að kenna, ég skal nú alveg viðurkenna það.

Það er rosalega skrýtið að vera búin að koma sér í þessa stöðu.

En ég á fjölskyldu, Guði sé lof og dýrð.

Nú fer ég upp á Vík og læri að vera eins og annað fólk og eftir það heldur stuðningur SÁÁ áfram og eins prógram AA samtakanna.

Ég er þakklát þessa dagana.

Ég á heilbrigð og falleg börn
ég á fjölskyldu
ég á heimili
ég hef heilsu
ég á framtíð
og um fram allt á ég von.

Ég bið alla þá sem ég hef sært að hinkra við, ég er rétt að leggja af stað nýjan veg sem ég kann ekki ennþá alveg að feta. Ég veit að ég hef brugðist ykkur og sært ykkur en ég kann ekki að laga það, a.m.k. ekki ennþá.

Það var aldrei ætlun mín að svona færi, því get ég lofað.

Ef þið eigið ástvini í neyslu langar mig að trúa ykkur fyrir því að þegar þið eruð mest óttaslegin og ráðalaus gagnvart fíkli í neyslu, þá þarf hann mest á umburðarlyndi ykkar og skilningi að halda. Ekki reyna að stjórna eða þvinga, það hefur ekkert upp á sig. Hann er fárveikur og verður að ákveða sjálfur hvort hann ætlar að gefa lífinu von eða halda áfram stjórnlausum flótta frá heimi sem hann fúnkerar enganveginn í og fólki sem hann elskar og getur ekki horfst í augu við af skömm.

Mörg okkar einfaldlega deyja á þessu kapphlaupi, aðrir kjósa að lifa.

Guð blessi ykkur, hvort sem ykkur líkar betur eða verr...