Wednesday, March 17, 2010

Hvað heldur þú? Er nauðsynlegt að skjóta þá?




Á Grænlandi búa rúmlega 56.000 manns, þar af rúm 13.000 í Nuuk(tölur frá 2001). Sagt er að um 15.000 manns búi nú í Nuuk. Reyndar er álitið að talsvert fleiri búi í Nuuk, en þar er búið mjög þröngt því húsnæði vantar tilfinnanlega. Allar tölur sem vísað er í hér að neðan í köflunum um áfengi, hass, ofbeldi, sjálfsmorð, þyngd, kynlíf og reykingar eru teknar úr nýrri heilbrigðisáætlun stjórnvalda árin 2007-2012 (Folkesundhedsprogram, Landsstyrets strategier og malsætninger for folkesundheden 2007-2012) og eru því opinberar tölur grænlenskra stjórnvalda. Tölur í köflunum heilbrigðismál og sjálfstæði eru tölur sem ég punktaði niður í fyrirlestrum sem haldnir voru fyrir velferðarnefndina og eru því á mína ábyrgð. Neðsti kaflinn í þessari yfirferð er fréttatilkynningin sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs sendi frá sér eftir fund sinn á Grænlandi.

Áfengi, hass:
Árið 2005 neyttu Grænlendingar eldri en 15 ára 12,5 lítra alkóhóls/ári sem er sama neysla og í Danmörku. Danir og Grænlendingar eru talsvert mikið yfir neyslu annarra norrænna ríkja.
Hass er útbreitt á Grænlandi aðallega meðal karla og ungmenna. Önnur eiturlyf fyrirfinnast varla.
Árið 2004 hafði þriðjungur barna yngri en 14 ára orðið drukkinn. Grænlendingar setja markið á að koma þessari tölu niður í 10% árið 2012.
Árið 2003 hafði fjórðungur barna 14-17 ára prófað hass. Þessari tölu vilja þeir einnig ná niður í undir 10% árið 2012.
Árið 1998 hafði fimmtungur unglinga sniffað . Þessari tölu vilja þeir ná niður í u.þ.b. núll árið 2012.

Ofbeldi(vold) :
48% karla og 47% kvenna á Grænlandi hafa orðið fyrir ofbeldi eða alvarlegri hótun um ofbeldi.
Árið 2005 voru 775 slík tilfelli tilkynnt lögreglu.
30% karla og 27% kvenna höfðu orðið fyrir grófu ofbeldi s.s. spörkum, vera sleginn með hnefa eða hlut, vera kastað á húsgagn, í vegg eða niður tröppur, vera tekinn kverkataki eða lent í hnífa- eða skotvopnaárás.
Í Grænlandi eru 6-7 sinnum fleiri ofbeldistilkynningar heldur en í Danmörku og Færeyjum og 14-18 sinnum fleiri tilkynningar um blygðunarbrot (sædelighedsforbrydelser) en í sömu löndum.
Árið 2004 höfðu 28% stúlkna orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og 9% drengja.

Sjálfsvíg:
Sjálfsvíg eru ein meginástæða þess að meðalaldur er lægri á Grænlandi en á hinum Norðurlöndunum meðal karla. Hæst tíðni sjálfsvíga í heiminum er meðal Grænlendinga og Inúíta í Kanada. Á síðustu 50 árum hefur tíðni sjálfsvíga meðal ungra karlmanna í Grænlandi hækkað verulega (dramatisk stigning), en þó verið stöðug frá 1990. Um 50 manns falla fyrir eigin hendi árlega og karlar 3-4 sinnum oftar en konur, sérlega ungir karlar. 50% Grænlendinga hefur átt fjölskyldumeðlim eða vin sem fallið hefur fyrir eigin hendi.
27% Grænlendinga á aldrinum 18-29 ára hefur alvarlegar sjálfsvígshugleiðingar, þó sérstaklega ef viðkomandi býr við áfengisnotkun á heimili eða kynferðislega misnotkun. Ef þetta tvennt fer saman hækkar talan í 80%.

Þyngd:
Grænlensk börn eru þyngst miðað við sambærilega aldurshópa í Evrópu. Árið 2002 voru 20% drengja of þungir og 19% stúlkna. Á landsbyggðinni eru sömu tölur 31% hjá drengjum og 33% hjá stúlkum.

Kynlíf:
Ótímabær þungun (uönsked graviditet) er vandamál í Grænlandi. Næstum 50% þungana lýkur með fóstureyðingu. Dreifing er nokkuð jöfn meðal aldurshópa og er í öllum þjóðfélagshópum.
Kynsjúkdómurinn klamydía er jafnframt útbreiddur, tíðni hans hafði lækkað fyrir stuttu, en fer vaxandi aftur nú miðað við nýjustu tölur.
63% 15 ára unglinga hefur sofið hjá.

Reykingar:
Reykingar eru afar útbreiddar en fara minnkandi. Í dag reykja 64% Grænlendinga. Sama tala í Danmörku er 25%. Grænlendingar stefna á að ná þessari tölu niður í 40% árið 2012. 12% 11 ára drengja hafa reykt og 24% 11 ára stúlkna. Sömu tölur í Danmörku eru 15% drengja og 9% stúlkna.
50% unglinga 15-17 ára reykja daglega í Grænlandi en 14-16% í Danmörku.


Heilbrigðismál:
Tíðniberkla fer vaxandi í Grænlandi. Að sögn fjölskyldu- og heilbrigðisráðuneytisins eru 10-12% skólabarna með berklaveiruna í sér. Þau eru ekki öll smitberar, en virkir smitberar eru í samfélaginu og endurspeglast það í þessari háu tölu.
Í Nuuk er starfandi 41 læknir, aðallega á sjúkrahúsinu. Þar af eru 4-5 grænlenskir læknar á sjúkrahúsinu. Erfitt er að manna sjúkrahúsið svo einungis eru framkvæmdar bráðaaðgerðir í Nuuk. Lengsti biðlistinn er vegna mjaðmaskipta, um 8 ár. Starfsmaður sem heimsótti sjö byggðir nýlega í Grænlandi lýsti því þannig að ungbarnadauði færi minnkandi(er þó 3 sinnum meiri en í Danmörku) og fóstureyðingum fækkaði. Fóstureyðingar eru enn algengar en fóstureyðingar voru færri en fæðingar í einungis í einni af þeim sjö byggðum sem heimsóttar voru. Í hinum sex eru ennþá fleiri fóstureyðingar en fæðingar.

Grænlendingar eru að byggja upp umfangsmikið net fjarlækninga (telemedicin) þar sem ófaglærður starfsmaður sem fær þjálfun á parti úr degi, verður fær um að skoða sjúkling með fjartæknibúnaði og sendir hann svo myndir til sérfræðinga í Nuuk, Danmörku eða annað til aflestrar.

Erfitt er að manna læknastöður á landsbyggðinni þrátt fyrir góð launakjör. Svo virðist sem læknar vilji ekki eða þori ekki að bera ábyrgð á íbúum byggðanna fjarri búnaði og aðstoðarfólki. Sérhæfing lækna veldur því að þeir sækjast ekki eftir því að starfa í byggðunum þar sem þeir gætu þurft að skera upp eða gera annað sem þeir eru ekki sérmenntaðir til. Líklegt má telja að þar spili einnig inn í líkurnar á að staðna í eigin fræðigrein og getu ef þeir eru fjarri möguleikum á sívirkri endurmenntun. Nú eru um 25-30 Grænlendingar í læknanámi í Danmörku sem menn binda miklar vonir um að skili sér heim að námi loknu.

Dýrt er að kalla til þyrlu til að sækja sjúklinga ef með þarf. Slíkt sjúkraflug kostar um 250.000-500.000 DKK eftir því hvar sjúklingurinn er staðsettur. Um 1.400 manns vinna við heilbrigðisþjónustun á Grænlandi þar af um 450 á sjúkrahúsinu í Nuuk. Danir greiða um 1 milljarð danskar króna á ári fyrir heilbrigðiskerfið í Grænlandi, en alls er svokallað bloktilskud Dana (fjárframlag Dana til grænlenska samfélagsins) rúmlega 3 milljarðar danskra króna á ári, þ.a. heilbrigðiskerfið er 1/3 af því.