Ég hélt að ég væri ljót.
Ég hef lifað í þeirri fullvissu að ég sé ljót og ógeðsleg í mjög langan tíma. Í hvert skipti sem ég hef horft í spegilinn hef ég séð veru sem ég hata og fyrirlít. Allt mitt líf hef ég leitað að og fundið sannanir fyrir þessari fullvissu minni. Hvert einasta komment um ófullkomleika minn og ljótleika hef ég tignað og tilbeðið í þeirri fullvissu að sannleikurinn fælist í að sjá gallana.
Mér hefur þrisvar sinnum verið tjáð að ég sé falleg. Útlitislega séð. Og það hefur verið hin merka undantekning frá ófrávíkjanlegri reglu tilvistar minnar. Eðli mitt og atferli hafa sannað með algjörri fullvissu og vísindalegum vinnubrögðum að ég er viðbjóður. Skoðanir mínar, persónuleiki og athafnir renna stoðum undir þá kenningu að ég sé ógeðsleg. Atferlið sannar kenninguna. Ég er vond manneskja. Vond við annað fólk og dómhörð með eindæmum. Hrokafull, eigingjörn og ill.
Í gær var ég að reyna að jútjúba hugleiðslutónlist og rakst á myndband sem átti að "lækna fortíðina". Þetta fannst mér í fyrsta lagi fáránlegt og í öðru lagi sprenghlægilegt. Að jútjúbmyndband gæti endurraðað mistökum fortíðarinnar er jafn bjánaleg hugmynd eins og tíminn í 3D. Ég varð að prófa.
Það má bæta því við að ég hef alveg ljómandi gott ímyndunarafl, get stokkið inn í heimatilbúnar bíómyndir með mig í aðalhlutverki hvenær sem mér sýnist.
Allavegana, einhver kona sagði mér að leggjast niður, anda svona og hinsegin og sjá fyrir mér liti og ljós hér og þar. Ekkert mál. Þegar ég hafði legið þarna og liðið asnalega í svolitla stund, gerðist svolítið merkilegt. Ég hætti eiginlega að heyra í konunni og fór að gera það sem hún sagði. Ef hún bað mig að sjá eitthvað, birtist það ljóslifandi inni í hausnum á mér, áreynslulaust.
Og ég fór alla leið í Bláskóga 6. Þar sat lítil stelpa hágrátandi í efri koju og angist hennar og þjáning var slík að mér féllust hendur. Ég settist hjá henni og strauk henni blíðlega um vangann og velti því fyrir mér hvað væri að. Ég reyndi að senda henni ljós og kærleika með huganum og hún leit hissa upp. Í ljósinu frá götunni leit ég í fallegustu bláu augu sem ég hef nokkurntíma séð.
Allt við þetta barn var fullkomið. Silkimjúkt hárið, gallalaus húðin og fegursta bros allra tíma.
Hún starði út á ljósið og tárin blikuðu á kinnunum. Ég tók hana í fangið og hvíslaði að henni að allt yrði gott. Hún væri góð, hún væri falleg og hún mætti ekki trúa neinu öðru, sama hvað.
Ég fann hjartapíslina hennar slá og fann þegar hún smám saman róaðist og sofnaði í fangi mínu.
Allan tímann hélt ég henni þétt að mér og elskaði hana heitar en ég hef nokkurntíma elskað nokkurn hlut. Ég lagði hana blíðlega niður á koddann sinn og kyssti hana á ennið í kveðjuskyni.
Svo hélt ég heim á leið.
Þegar þarna var komið rankaði ég við mér og leit hissa yfir stofuna mína og heyrði í bílunum úti.
Raunveruleikinn var mættur í öllu sínu veldi.
En það furðulegasta er eftir.
Þegar ég leit í spegilinn í dag, sá ég að hún hafði komið með mér til baka. Augun hennar og yndisleiki blöstu við mér. Allt sem hún hefur gert og allt sem hún mun gera í framtíðinni er hluti af ferðalagi sem við köllum lífið. Hver einasta stund er gríðarlega mikilvæg. Með hana með mér, verð ég að fara varlega. Ég verð að passa uppá hana og elska hana hverja stund. Ég verð að gæta hennar og gera það sem henni er fyrir bestu. Hvað hún borðar og hvað hún gerir, má ekki skaða hana. Hún er bara lítið saklaust barn. Og núna þegar ég er með þennan farþega um borð, er lífið einhvernveginn skemmtilegra. Ég verð aldrei framar einmana, döpur eða hrædd.