Monday, December 27, 2010

Saga af litluheiðu
Ég hélt að ég væri ljót.

Ég hef lifað í þeirri fullvissu að ég sé ljót og ógeðsleg í mjög langan tíma. Í hvert skipti sem ég hef horft í spegilinn hef ég séð veru sem ég hata og fyrirlít. Allt mitt líf hef ég leitað að og fundið sannanir fyrir þessari fullvissu minni. Hvert einasta komment um ófullkomleika minn og ljótleika hef ég tignað og tilbeðið í þeirri fullvissu að sannleikurinn fælist í að sjá gallana.

Mér hefur þrisvar sinnum verið tjáð að ég sé falleg. Útlitislega séð. Og það hefur verið hin merka undantekning frá ófrávíkjanlegri reglu tilvistar minnar. Eðli mitt og atferli hafa sannað með algjörri fullvissu og vísindalegum vinnubrögðum að ég er viðbjóður. Skoðanir mínar, persónuleiki og athafnir renna stoðum undir þá kenningu að ég sé ógeðsleg. Atferlið sannar kenninguna. Ég er vond manneskja. Vond við annað fólk og dómhörð með eindæmum. Hrokafull, eigingjörn og ill.

Í gær var ég að reyna að jútjúba hugleiðslutónlist og rakst á myndband sem átti að "lækna fortíðina". Þetta fannst mér í fyrsta lagi fáránlegt og í öðru lagi sprenghlægilegt. Að jútjúbmyndband gæti endurraðað mistökum fortíðarinnar er jafn bjánaleg hugmynd eins og tíminn í 3D. Ég varð að prófa.

Það má bæta því við að ég hef alveg ljómandi gott ímyndunarafl, get stokkið inn í heimatilbúnar bíómyndir með mig í aðalhlutverki hvenær sem mér sýnist.

Allavegana, einhver kona sagði mér að leggjast niður, anda svona og hinsegin og sjá fyrir mér liti og ljós hér og þar. Ekkert mál. Þegar ég hafði legið þarna og liðið asnalega í svolitla stund, gerðist svolítið merkilegt. Ég hætti eiginlega að heyra í konunni og fór að gera það sem hún sagði. Ef hún bað mig að sjá eitthvað, birtist það ljóslifandi inni í hausnum á mér, áreynslulaust.

Og ég fór alla leið í Bláskóga 6. Þar sat lítil stelpa hágrátandi í efri koju og angist hennar og þjáning var slík að mér féllust hendur. Ég settist hjá henni og strauk henni blíðlega um vangann og velti því fyrir mér hvað væri að. Ég reyndi að senda henni ljós og kærleika með huganum og hún leit hissa upp. Í ljósinu frá götunni leit ég í fallegustu bláu augu sem ég hef nokkurntíma séð.
Allt við þetta barn var fullkomið. Silkimjúkt hárið, gallalaus húðin og fegursta bros allra tíma.

Hún starði út á ljósið og tárin blikuðu á kinnunum. Ég tók hana í fangið og hvíslaði að henni að allt yrði gott. Hún væri góð, hún væri falleg og hún mætti ekki trúa neinu öðru, sama hvað.
Ég fann hjartapíslina hennar slá og fann þegar hún smám saman róaðist og sofnaði í fangi mínu.
Allan tímann hélt ég henni þétt að mér og elskaði hana heitar en ég hef nokkurntíma elskað nokkurn hlut. Ég lagði hana blíðlega niður á koddann sinn og kyssti hana á ennið í kveðjuskyni.
Svo hélt ég heim á leið.

Þegar þarna var komið rankaði ég við mér og leit hissa yfir stofuna mína og heyrði í bílunum úti.
Raunveruleikinn var mættur í öllu sínu veldi.

En það furðulegasta er eftir.

Þegar ég leit í spegilinn í dag, sá ég að hún hafði komið með mér til baka. Augun hennar og yndisleiki blöstu við mér. Allt sem hún hefur gert og allt sem hún mun gera í framtíðinni er hluti af ferðalagi sem við köllum lífið. Hver einasta stund er gríðarlega mikilvæg. Með hana með mér, verð ég að fara varlega. Ég verð að passa uppá hana og elska hana hverja stund. Ég verð að gæta hennar og gera það sem henni er fyrir bestu. Hvað hún borðar og hvað hún gerir, má ekki skaða hana. Hún er bara lítið saklaust barn. Og núna þegar ég er með þennan farþega um borð, er lífið einhvernveginn skemmtilegra. Ég verð aldrei framar einmana, döpur eða hrædd.

Dæmisaga

Heiða var alveg hissa.

Hún var að baka vanilluhringi þegar jörðin fór að skjálfa og bjart ljós birtist á himninum.
Hún æddi út á svalir og leit til himins. OMG. Þeir voru komnir.

Hún sá risavaxin ljós á himninum og þrátt fyrir að hafa alltaf langað til að verða til vitnis um lífverur frá öðrum hnöttum var þetta engan veginn eins og hún hafði séð það fyrir sér.
Þetta minnti ekkert á Hollywood og hún vissi að það kæmi enginn Will Smith á orustuflugvél Bandaríska hersins og bjargaði öllu. Það lá alveg ljóst fyrir.

Þetta sem hún horfði á var bara einhvernveginn allt öðruvísi en allt sem hún hafði ímyndað sér. Risavaxin ljós sem sveimuðu í einkennilegum þríhyrningslaga þyrpingum og bjartir ljósgeislar virtust skjótast neðan úr þeim og á jörðina.

Það var eins og það hægði á tímanum. Hún mundi eftir sögum af fólki sem hafði lent í slysum, sem sögðust upplifa tímann líða hægar. Smátt og smátt varð til raunveruleiki í hausnum á henni.
Það yrði allt í lagi með allt.

Lítið barn hljóp út úr húsi og ljósgeisli hæfði það. Hún horfði á með hryllingi og bjóst við að sjá það splundrast í tætlur. Enn hægði á tímanum. Hún sá barnið horfa á ljósið á himninum, breiða út faðminn og svífa með örmjóum bláleitum ljósgeisla upp til móts við hið óþekkta. Foreldrar þess öskruðu og reyndu að grípa um ljósrákina svo þau gætu hrist barnið sitt niður. En þau gátu ekki gripið um ljósið og barnið færðist ofar og ofar. Móðirin kallaði á það í örvæntingu og bað það að sleppa, en barnið leit við skellihlæjandi og hrópaði til baka að þetta væri allt í lagi.
Þeir eru góðir mamma, treystu mér. Komdu með.

Hún sá gamla konu fljúga af stað upp til himna, og hún sá hunda og ketti fljúga til himna. En fyrst og fremst sá hún fólk þjást af eftirsjá eftir þeim sem flugu á brott. Fólk sem náði ekki taki á geislanum. Angist og sorg lýsti úr augum þeirra sem eftir sátu og fólk hrópaði upp til ljóssins, hvers vegna tekur þú það sem ég elska frá mér. Uppfullt af kvöl þess sem ekki skilur.

Og mitt í þessum yfirþyrmandi veruleika lokaði hún augunum og hvíslaði:
Ég er tilbúin - ég gef þér líf mitt - ég gef þér framtíð mína - ég gef þér börnin mín - ég gef þér allt.
Og á þrítugasta og áttunda aldursári sínu skyldi hún loksins að það að trúa á eitthvað var nákvæmlega það sama og treysta einhverju.

Hún fann þegar máttur henni framandi togaði í hana og hún fann fæturna lyftast frá jörðinni sem hafði verið viðkomustaður hennar lengi.

Hún var farin heim.

Saturday, December 25, 2010

Bréf Eyrúnar til Elísabetar Englandsdrottningar
Sæl vertu Beta, af ættum Engilráðs hins ríka.

Ég geri mér grein fyrir því að þú trúir því að vald þitt á jörðinni sé komið frá Guði. Fyrir löngu. Og hafið yfir öll önnur lög alheimsins. En það er bjánaskapur og barnahjal.

Rómverjar áttu England. Það er vísindaleg staðreynd. Þegar rómverjar höfðu drepið þá sem höfðu eitthvað á móti þeim og kúgað aðra til hlýðni var ekki margt eftir í ríki þínu sem hægt er að monta sig af. Þá kom ég til sögunnar. Ég er víkingur úr norðrinu.

Ég er af ætt manna sem neituðu að fara að reglum hinna ríku og leitaði skjóls undan ranglæti á stað sem enn þann dag í dag er vart byggilegur. Og sigraði. Eldgos, kúgun vina þinna í danmörku, kirkjan og óblíð veður hafa ekki bugað mig. Hvað þá bjánalegt fyrirtæki sem lagðist í víking og tók brot af þýfi þínu á heimsvísu með sér heim sem sigurvott.

Það væri engin Elísabet önnur englandsdrottning ef ekki hefði verið fyrir mig. Hverjir heldur þú að hafi hjálpað Engilráði forföður þínum í baráttunni við dani og norðmenn? Sem lögðu grunn að velferðarríki byggðu á lýðræði? Það vorum við hérna á Thule. Þessir sem þú kallar ísbjörgina eða icesave. Það er ekki mitt mál að ætt þín beygði sig undir hina kristnu kirkju og framseldi lýðræðið peningamönnum. Það er þitt mál. Og það er þitt val að viðhalda þeirri hefð að taka án þess að gefa til baka. British Museum er til marks um það, beljan þín.

Rannsóknir á genum sýna að konur hér á Thule eru genafræðilega skyldari keltum en karlar eru líkari norðmönnum. Þess vegna eru fegurð og hæfileikar til þess að búa til góðan mat sjaldséðar í ríki þínu. Þjóð þín seldi víkingum börnin sín í þeirri von að þar ættu þau framtíð, ólíkt því sem þau lifðu við. Og víkingarnir giftust þessum stúlkubörnum og ólu afkvæmin upp af nærgætni og ást.

Og þú ert afrakstur þeirra sem eftir sátu, forljót kerling sem kann ekki að búa til mat og kann ekki að nýta sér náttúruna til lækninga. Treystir á þræla þína að færa þér lausnirnar, eins og þú ert vön. Reyndu að horfast í augu við raunveruleikann álkan þín. Trúir þú því í alvöru að Arþúr hafi náð náð sverðinu úr steininum? Hallærisleg eftirlíking af víkingi er það sem hann er. Stolin saga. Aumkvunarverð tilraun lúða að vera karlmenni. Ég þarf að gubba.

Við víkingar lögðum rómarveldi að fótum okkar. Áttum í viðskiptum við þrælahaldara þína og drukkum sigurskál okkar í miðausturlöndum. Við fundum Ameríku og við kunnum að lesa og skrifa. Og við eigum okkur sögu. Við áttum bestu skipin, fórum víðast og börðumst ber að ofan við hvern þann sem við skilgreindum handhafa valds komið frá mönnum. Og sigruðum.

Það voru kviðmágar þínir í danmörku, úrkynjað guðlegt vald, sem komst næst því að knésetja okkur. En það tókst ekki og mun aldrei takast. Því við erum víkingar.
Við sigruðum breska heimsveldið í þorskastríðinu. Mannstu eftir því? Heldur þú að við séum hrædd við ykkur? Og bestu vini ykkar í BNA?
Nei við erum ekki hrædd við ykkur. Höfum aldrei verið það og verðum það aldrei. Við sendum fátæku fólki í London ullarteppi til þess að halda á sér hlýju. Þannig erum við.

Nú mælist ég til þess að þú og mannleysuleppar þínir í Hollandi (sem er þjóðin sem þið börðust við þegar þið eignuðuð ykkur demantanámur Afríkulanda og hafið enn ekki skilað) troðið því sem þið kallið æseif upp í boruna á ykkur. Við ætlum ekki að borga þetta frekar en þið ætlið að greiða okkur bætur fyrir BP stórslysið. Og það þó við séum fiskvinnsluþjóð sem á allt sitt undir hafinu.

Ef þú ert ekki að sætta þig við þessa niðurstöðu, er mér alveg sama. Fuck you bitch.

Eyrún hin vitra
Thule Borealis
af ætt víkinga

Friday, December 24, 2010

Jólakortið
Kæru landsmenn til sjávar og sveita.
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir það gamla. Eyrún Heiða Skúladóttir

Léttreykt partýskinka eða andlegur lærifaðir
-hvað má bjóða þér?ps. ég sendi líka von og ósk um að leitin að hamingjunni verði skemmtileg og ástin fylgi ykkur hvert skref.

Það er mín bjargfasta sannfæring að algjör uppgjöf gagnvart valdi ástarinnar sé nauðsynleg til þess að við fáum náð til himna, í þessu lífi eða annarsstaðar. Hvað sem það merkir annars.
Og þessvegna verðum við líka að elska okkur sjálf, litla barnið sem við vorum, erum og verðum.

Peace out hippies and communists of the whole.

Thursday, December 23, 2010

Óskalistinn 2010
Kæri jóli.

Ég er svo blessuð að hafa allt sem ég þarf. Þannig að ef þú gætir frekar farið og veitt fyrir mig menn, með samböndum þínum, og komið mér í kynni við nokkra aðila, yrði ég ákaflega þakklát og hamingjusöm.

Ég er bæði búin að vera notí og næs á árinu. Veit eiginlega ekki stöðuna sjálf, því miður er heimilisbókhaldið líka svona hjá mér. Ég treysti þér betur til að fara yfir stöðuna heldur en presti eða præsvoterháskúpers. Þú finnur út úr þessu (ég hef heyrt að þú sért með fjöldan allan af litlum grænum mönnum þér til aðstoðar).

Allavega. Fólkið sem ég þarf að ná sambandi við, verður að hafa þekkingu til þess að svara nokkrum undirstöðuspurningum fyrir mig og hjálpa mér að skilja hvernig niðurstaðan var fengin.

Hér er listinn:
Eðlisfræðingur
Guðfræðingur
Jarðfræðingur
Stærðfræðingur
Taugasálfræðingur
Siðfræðingur
Sannkristinn skv. kirkjunni
Trúleysingi
Heilög manneskja (helst með superpowers)
Ofurmanneskja (sem virðist geta upphafið lögmál vísindanna með öðrum aðferðum)
Virkur alkóhólisti sem kærir sig ekki um aðstoð
Trúboði
Einhver sem trúir á kærleika

Ég lofa að skemma þá sem þú sendir mér eins lítið og ég get og ég lofa því að skila hverjum og einum til baka. Ég þarf þá mislengi.

Þín Heiða

Tuesday, December 21, 2010

Sæll vertu Benedikt af Róm
Ég er svo óheppin að þekkja ekki almennilega sögu þína en þar sem þú varst kosinn í embætti 2005 af félögum þínum í klíkunni má gera ráð fyrir að þú vitir eitt og annað sem ég þarf að heyra.

Ég er búin að lesa Biblíuna. Og verð að viðurkenna að það er alveg helvíti mögnuð bók. Sögurnar af Jesús frá Nasaret eru þar fremstar í flokki og mitt persónulega uppáhald.

Nú er það svo að allir sem hafa áhuga á þessari bók (fræðilega fremur en í leit að lausn) vita að hún er sett saman af mörgum ólíkum bókum. Í stað þess að vitnisburður allra postulanna færi í biblíuna, var ákveðið að setja inn fjórar svipaðar greinar (eða ævisögur) um líf Jesús, restin (ca.75% af biblíunni) eru regluverk gyðinga og hugmyndafræði annara en hans sjálfs.

Það er vísindaleg staðreynd að þið kirkjunnar menn reynduð að uppræta allt sem ekki þjónaði hagsmunum ykkar á fyrstu árum kirkjunnar. Guðspjöll annara lærisveina voru bönnuð, meira að segja guðspjall Péturs (sem kirkjan þín í Vatikaninu heitir eftir og sem venjulega er kallaður fyrsti páfinn). Hvers vegna var það?

Ég er að leita að sannleikanum. Ekki þinni túlkun á honum, ekki túlkun gyðinga og ekki túlkun hatursmanna kirkjunnar. Mig langar bara að fá aðgang að upplýsingum.

Má ég koma í Vatikanið og lesa mér til í bókunum í kjallaranum, sem enginn fær að skoða?
Af hverju má enginn skoða þær? Er það ekki satt að sannleikurinn muni gera mig frjálsa?
Hvers vegna að geyma bækur sem innhalda lygi? Eruð þið hræddir við orð Krists? Eruð þið hræddir um að orð hans veiki undirstöðu stærsta veldis mannkynssögunnar?
Af hverju eruð þið ekki löngu búnir að brenna þetta allt og opna bókasafnið?
Eruð þið hræddir um að Guð refsi ykkur?

Leyndarmál ykkar koma í veg fyrir það að ég geti verið frjáls frá getgátum og myrkri þekkingaleysis. Má ég biðja kaþólsku kirkjuna um að treysta mér? Ég hef ekkert að fela.

Að lokum langar mig að vita hvers vegna gyðingættir Jósefs smiðs skipta máli. Þeir voru ekki einusinni skyldir, hann og fóstursonurinn Jesú. Af hverju verður Jesús að tilheyra gyðingum í föðurætt?

Þín Heiða af Héraði
dóttir Önnu og Skúla
af ætt víkinga.

Saturday, December 18, 2010

Dýravernd
Fátt er eins tilfinningabólgið sem dýravernd.

Almennt er fólk hlynnt dýravernd og andsnúið illri meðferð á dýrum.
Það er þó oftar en ekki aðeins í orði en ekki á borði. Því miður. Flestir versla egg og kjúklinga sem framleidd eru með svo hrottafengnum hætti að fólki sundlar þegar því er boðið uppá að skoða aðstæðurnar. Og það er svona eins og vatnsglas sem skvett er í sjóinn, toppurinn á ísjakanum.

Ég sé enga ástæðu hér að tíunda illa meðferð á dýrum. Þá fer ég bara að gráta og finn til fullkomins vanmáttar. En mig langar að velta því fyrir mér hvað er snjallt og hvað ekki.

Sumir halda að aðrar tegundir dýra búi yfir tilfinningum og rökhugsun. Og ég er sjálf ekki frá því að það sé bara soldið satt. Aðrir fara með þetta lengra og segja að plöntur og tré hafi líka tilfinningar og geti fundið til sársauka. Ég veit ekki með það, en virði þessa skoðun. Fáeinir vilja svo meina að allt búi yfir anda eða vitund. Steinar, plöntur og dýr. Hver veit.

Ég veit það allavega að mér sjálfri er fyrirmunað að skilja mannskepnuna. Tilfinngar hennar, hugsun og hegðun eru svo stjarnfræðilega fjölbreytileg að ekki er nokkur leið að átta sig á henni. Það er einmitt þess vegna sem ég læt það fara svolítið (hressilega) í taugarnar á mér þegar fólk alhæfir um tilfinningastöðlun annara tegunda.

Sú hugmynd að einhverjar skepnur séu svo alheilagar að tilvera þeirra sé hafin yfir hringrás lífsins er mér framandleg. Að með tilfinningarökum sé ókey að frelsa einhverjar tegundir frá dauða í vistkerfi sem á allt sitt undir því að maðurinn taki jafnt af hverri auðlind. Það er alveg ljóst að við fáum ekki að vera með í Evrópusambandinu nema að gefa upp hvalveiðar. Yfirlýst frá Brussel.

Það skiptir engu máli að við vitum að þessar risaskepnur eru hluti af flóknu lífrænu kerfi og þjóna þar jafn mikilvægu hlutverki og rækjur. Það er bara búið að heilaþvo fólk með bulli og kjaftæði og enginn er tilbúinn að segja sannleikann.
Ekki frekar en venjulega. Gremja.

Við eigum ekki að hætta að veiða hvali af því einhver er í tilfinningalegu ójafnvægi vegna þekkingarleysis. Það er algerlega fáránlegt. Hvað gerist þá? Þegar hvölum fer að fjölga hressilega.? Eigum við kannski að ganga alla leið og fóðra þá? Fórna þeim bestu bitunum og syngja þeim lofsöng? Það þætti þeim áræðanlega vænt um.

Það liggur ekkert á. Næstu árin koma háhyrningar til með að naga hausinn af litlum selkópum eins og þeir eru vanir. Og þeir munu líka naga hausinn af börnunum okkar sem leika sér í Nauthólsvíkinni ef við gætum ekki að því að viðhalda jafnvægi í náttúrunni. Hvort sem það er ljótt eða ekki. Lífið gerir það sem það þarf til þess að viðhalda sér. Þess vegna fæðast lítil lömb og litlir grísir, svo við getum skolað þeim niður með rauðvínsglasi. Og ávextir trjánna og fuglar himins. Allt er þetta hluti af þessu stóra stóra sem er alveg sama hvernig okkur líður persónulega. Hringrás lífsins.

Það er ekkert ljótt við dauðann í sjálfu sér. Ef dráp eru hluti af hringrás lífsins get ég ekki haft neitt við það að athuga. Þjáning er ekki það sama og dauðinn, svo að það sé á hreinu. Að meiða er miklu, miklu ljótara en að drepa. Og að drepa eitthvað af hatri eða græðgi er líka ljótt. Ógeð.

Ég hef fyrir svo löngu fengið yfir mig nóg af fólki sem reynir að sannfæra mig um "heilagleika" ákveðinna tegunda að ég gæti ælt. Þetta eru trúmál en ekki vísindi. Tilfinningaleg bókstafstrú.
Ég er samt til í skoða málið þegar tegundin sem ég er af, getur látið af þeirri hefð að drepa ungviði af eigin sort.

Með þátttöku okkar í NATO samþykkjum við slátrun á börnum. Oftast í nafni frelsis en raunveruleikinn er sá að eiginhagsmunapot spilltra manna er rótin.

Verum góð hvort við annað og þakklát fyrir að fá að borða. Reynum að draga úr þjáningu í heiminum í stað þess að berjast gegn tilgangi dauðans. Hann mun sigra hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Thursday, December 16, 2010

Fyrir hverja er veröldin?
Er veröldin aðeins heimili þeirra sem geta komist af án hjálpar?
Eiga þeir veikburða skilið að deyja?
Er fullnaðarsigur yfir öðrum eina leiðin í lífinu?
Er umhyggja úreld?

Í stað þess að spyrja bara spurninga sem enginn kærir sig um að svara, ætla ég að svara þeim öllum í sömu færslunni til tilbreytingar. Af hverju? Af því ég hef gaman að því.

Það er mín skoðun að allir þeir sem fæðast á þessari jörð hafi jafnan rétt til alls. Hverjir sem þeir eru, hvaða trúarhópi sem þeir tilheyra eða hvað. Allt annað er kjaftæði og bull og ætti að banna.
Þeir veikburða eiga ekkert skilið umfram þá sterku og ekkert minna heldur. Allt annað ætti að banna.
Fullnaðarsigur kemur hamingjunni ekkert við. Að halda öðru fram, ætti að vera bannað.
Umhyggja er það eina sem getur lagað ástandið í heiminum. Að halda öðru fram, ætti að vera bannað.

Og núna þegar ég er farin að tíunda það sem ætti að vera bannað, er best að nefna nokkur önnur atriði sem ættu að vera það.

Auglýsingar Hafa ekki skilað neinu hingað til nema ríkidæmi í fárra vasa.
Fyrirtæki sem rekin eru í þeim tilgangi að gera annað fólk en starfsfólk þeirra ríkt. Eignarhlutur annara en starfsmanna má ekki fara yfir 49%. Aldrei.
Fæðubótarefni. Alla næringu sem þú þarft má finna í mat. Sendum öll fæðubótarefni og vítamín heimsins til Afríku. Þar er ekki til matur.
Róandi lyf og svefnlyf ætti að banna nema á stofnunum. Hvort tveggja má laga án lyfja og enginn hefur dáið úr svefnleysi eða dramakasti. Hingað til. Fjöldi þeirra sem hefur dáið vegna neyslu þessara lyfja hleypur á hundruðum þúsunda, ef ekki milljóna.
Stjórnmálaflokka. Þeir bera ábyrgð á vanheilsu mannkynsins og stríði í heiminum. Út með konseptið í heild sinni, á heimsvísu.
Fjölmiðla sem kenna sig við fréttaflutning en segja aldrei neitt nema að eigandinn leggi blessun sína yfir það. Fjölmiðlar eiga að vera óháðir (mér þykir við hæfi að benda fólki á veðurfréttir í þessu samhengi, það sjá það allir að ef alltaf spáir sól og fullyrt er að það hafi verið sól þegar hún sást hvergi, missa veðurfréttir fullkomlega tilgang sinn, þó svo að neytandinn vilji hafa sól).
Tóbak. Ég nenni ekki að færa rök fyrir því. Það er augljóst.
Öll fyrirtæki og stofnanir sem hafa að markmiði sínu að fólk líti betur út. Fólk lítur alveg rétt út, almennt. Notkun á orðinu heilsurækt ætti að vera bönnuð þar sem fatnaður, speglar, fæðubótarefni eða hvað sem er, styður við fáránleika útlitsdýrkunar.
Öll störf sem í eðli sínu eru svo siðlaus að börnin þín ættu ekki að vinna við þau.

Man ekki eftir fleiru í bili. En það er ábyggilega fullt.

Wednesday, December 15, 2010

Að hrista mjólkurkirtlana framan í fólk
Ég elska Feisbúkk.
Á feisinu sér maður svo gjarnan hvernig fólk hugsar og hvernig fólk dæmir umhverfi sitt og sjálfan sig, út frá viðteknum venjum.

Núna fékk ég til dæmis innsýn í hugarheim nokkurra þegar stripp-andsnúin kona tjáði sig um þann starfa að glenna sig og hrista í kynferðislegum tilgangi. Henni þótti það ekki viðhalda mannlegri reisn.

Næstum allir voru henni ósammála. Þeir sem vildu gera þetta að starfi höfðu fullan rétt á því.

Fólk nennir yfirleitt ekki að ræða skoðanir sínar málefnalega. Það endar nefnilega svo oft á því að fólk málar sig út í horn og neyðist til að skipta um skoðun. Og það er allt of erfiitt og niðurlægjandi að hafa rangt fyrir sér. Að viðurkenna að hafa rangt fyrir sér er tabú fyrir flesta.

Hérna er hugmynd.

Ef þér þykir káf í góðu lagi
Ef þér þykir vændi í góðu lagi
Ef þér þykir stripp í góðu lagi
Ef þér þykir mannsal í góðu lagi
Ef þér þykir það réttur hvers og eins að gera það sem hann vill.

Ókey. Nú þarftu að hugsa þér lítið barn. Helst strák. Einhvern sem þú þekkir persónulega og þykir vænt um í alvörunni. Helst lítinn bróður eða son.

Á hann að alast upp í þeirri sannfæringu að aðrir karlar megi snerta hann þegar þeim sýnist?
Ætlar þú að kynna honum þann raunhæfa kost, að selja öðrum karlmönnum blíðu sína (það sparar margra ára nám og gefur betur í aðra hönd)?
Ætlar þú að kynna honum þann raunhæfa kost, að fara úr fötunum og reyna að æsa aðra karlmenn upp kynferðislega (sparar magra ára nám og gefur betur í aðra hönd)?
Ætlar þú að hvetja hann til þess að notfæra sér aðra drengi til þess að hagnast á vændi þeirra til karlmanna?

Hvernig ætlar þú að fara að því að tryggja það, að hann geri það sem hann vill, ef þú setur ekki störfin hér að ofan inn í jöfnuna sem raunhæfan valkost?

Er eitthvað niðurlægjandi við það að örva ókunnugt fólk kynferðislega, gegn greiðslu?

Hversu marga karlmenn þekkir þú sem hafa nefnt það sem raunverulegan valkost í kreppunni, að selja sig öðrum karlmönnum? En konur?
Kommón. Fullt af peningum í boði. Einhver?
Halló. Þetta er vinna en ekki framhjáhald. Bisniss not plesjör.

Ef þú ert ekki til í þetta sjálfur, þekkir engan sem er tilbúinn í þetta, vilt ekki að börnin þín taki þetta að sér eða maki þinn, hvers vegna í helvítinu heldur þú að þinn veruleiki endurspegli bara fólk sem vill ekki vera með í þessum bransa?

Gæti verið að þú trúir því innst inni, að allt fólk sem ÞÚ þekkir sé ólíkt öðrum af tegundinni homo sapiens sapiens? Er það gáfuleg afstaða?

Ég held að margir séu til í kaupa þjónustuna.
Enn fleiri séu umburðarlyndir þangað til einhver sem það þekkir verður innvolverað.
En einhverra hluta vegna viljum við ekki vita neitt. Aldrei.

Gefðu nú þeim sem þér þykir vænt um eitthvað fallegt í jólagjöf.

Drátt.

Sunday, December 12, 2010

Sést það?
Það er verulega dónalegt að tjá skoðun sína um holdarfar einstaklinga. Að segja að einhver sé að detta í sundur er samt skárra en segja að einhver sé feitur. Það er dauðasynd.
Svo má kalla alla sem eru kynþokkafullir eða klæða sig ögrandi, illa gefna. Það er viðtekin venja.
Það er bannað að kalla stjórnmálamenn spillta. Slíkt verður farið með sem húmbúkk.

Þó er það aðallega þrennt sem má ALLS EKKI nefna.

Fjárhagur fólks, þekking þess og hverjir eru alkóhólistar.

Þetta eru stærstu tabú samfélagsins.
Börn mega ekki spyrja: Hvað kostaði þetta? Þegar þau fá jólapakka. Það er ljótt.
Ef maður spyr einhvern hvort hann sé illa upplýstur um ákveðið mál, móðgast hann.
Og það jafnvel þó hann hafi nákvæmlega ENGA þekkingu á viðfangsefninu. Hugsanlega skoðanir sem byggja einvörðungu á tilfinningalegu mati. Fáránlegt. Það er eins og fólk haldi (þrátt fyrir að hafa ratað menntaveginn áratugum saman, sumhverjir) að greind og upplýsing sé það sama.
Svona eins og banani og tannkrem. Bæði sett í munninn. Djísöss.

Svo er það alkóhólismi.

Fólk er tilbúið að trúa því að fæðingarþunglyndi karla sé sjúkdómur, en ekki alkóhólismi. Hvaða rugl er það. Alóhólismi hefur verið skilgreindur geðsjúkdómur jafn lengi og þunglyndi. Ekki röskun, heldur geðsjúkdómur. Greining sjúkdómsins er auðveld. Fólki sem er ekki alkóhólistar er vísað af Vogi.

En að kalla alkóhólista, alkóhólista, er eins og kalla einhvern antíkrist eða pedófíl. Viðbrögðin eru svipuð. Fólk heldur að það verði að ákveða það sjálft hvort það er alkóhólisti. Það er nákæmlega jafn gáfulegt eins og að ákveða það sjálfur hvort maður sé með krabbamein eða geðklofa, eða ekki. Það er ekki hægt.
Fyrir utan þá staðreynd að næstum allir sem þekkja viðkomandi, vita að neyslan hefur verið vandamál. Maður kallar fólk ekki alkóhólista til þess að særa. Maður gerir það til þess að viðkomandi leiti sér hjálpar og hætti að leggja fjölskyldu sína í einelti með helvítis sjálfselsku, sjálfsvorkun og þess á milli þunglyndi og geðvonsku. Að haga sér eins og dóni og tík.

Geðvonska er einkenni alkóhólista sem langar í glas og veit að það stendur ekki til. Sjaldnast meðvitað. Fólk sem drekkur (eða dópar) meira en aðrir, er jafnan geðvont út í allt og alla, ef það getur ekki svalað þörfinni.
Hin staðreyndin er sú að enginn alkóhólisti sem hefur búið með öðrum (þá sérstaklega börnum) getur komið í veg fyrir vanlíðan þeirra sem búa með þeim, nema annaðhvort skjóta sig í hausinn eða drulla sér í meðferð. Og já, BÖRNIN VITA ÞETTA alltaf.

Það er hægt að taka fimm ólík sjálfspróf á vef SÁÁ.
Þetta er það einfaldasta:

Cage spurningarlistinn.

Hefur þér einhverntímann fundist að þú þyrftir að draga úr drykkjunni (taka pásu) ?
Hefur fólk gert þér gramt í geði með því að setja út á drykkju þína? (afskiptasemi)
Hefur þér liðið illa eða haft sektarkennd vegna drykkju þinnar? (bömmer)
Hefur þú einhverntíma fengið þér áfengi að morgni til að laga taugakerfið eða losa þig við timburmenn? (hresst þig við með afréttara)

Ekkert já = ekkert vandamál
Eitt já = ekkert vandamál
Tvö já = staðfestir alkóhólisma í 80% tilfella
Þrjú til fjögur já = staðfestir alkóhólisma í nær 100% tilfella.

Athugaðu að orðið áfengi er notað yfir öll vímuefni.
Parkódín er dóp.
Gras er dóp.
Svefnlyf eru dóp.
Morfín er dóp.
Íbúkód er dóp.
Hass er dóp.
Amfetamín er dóp.
Öll róandi lyf eru dóp.

Getur þú hugsar þér lífið án þess alls? Alltaf?
En ef börnin þín yrðu hamingjusamari?
En ef það lengir líf þitt?

Ekki halda að þú komist upp með að ljúga að sjálfum þér. Það á pottþétt eftir að koma þér verulega á óvart að allir vissu að þú værir fyllibytta LÖNGU áður en þú ákvaðst að fara í meðferð.
Sennilega allir sem þekkja þig.

Taki til sín sem eiga.

Thursday, December 9, 2010

Miðaldaskilgreining nútímamannsins á eignarrétti
É á etta
É á víst ammæli
É má
É vigl
org
osfv....

Þannig hljóma börnin okkar í frekjukasti. Og við reynum eftir öllum mætti að uppræta þessa hugsun þeirra þegar hún bitnar á okkur sjálfum. Hlýddu krakki, einn.. tveir...þrír... eða hvaða aðferð sem menn nota. Árangurinn er misjafn eins og aðferðirnar og einbeiting foreldra og barns.

En þegar fólk verður fullorðið er engin leið að breyta því. Nema að fólk vilji sjálft breytast.
Allir hafa frjálsan rétt til að segja og gera og eiga hvað sem hverjum sýnist.

Við miklahvell og í framhaldi af honum varð til allt sem er. Hvert einasta atóm varð til. Löngu seinna kom fram þekking á þessum alheimi. Sem er samanlögð reynsla manna á jörðinni og túlkun á henni. Hvergi nokkursstaðar á jörðinni hefur nokkur lífvera "skapað" eitthvað frá grunni. Aldrei í sögu tímans hefur einni lífveru tekist að skapa atóm úr engu.

Þess vegna spyr maður sig, hvernig gat næstum allt á jörðinni endað sem eign einhvers?

Og málið er einfalt. Menn slógu eign sinni á hluti, kosept og þekkingu og sögðust hafa "skapað" verðmæti. Sem er kolrangt. Menn hafa nýtt gjafir jarðar sjálfum sér til framdráttar og tryggt sínum persónulegu genum afnot af sömu forréttindum.

Mér er drullusama hvort er um að ræða vísindalega þekkingu eða eldgömul atóm. Enginn á þetta. Og enginn getur eignað sér neitt. Af því við eigum ekkert í raun. Allt sem við söfnum að okkur er byggt á sameiginlegri þekkingu mannsins og atómum. En er ekki okkar eign. Okkur ber að deila með öðrum gjöfum jarðar.

Þetta gildir jafnt um ný lyf sem koma á markað (efnafræðileg þróun byggð á rannsóknum og samanlagðri þekkingu manna á efnisheiminum og mannslíkamanum) sem og lag á FM957 (samið úr tónum og tíðni sem finna má í geimnum og í vindinum og allsstaðar, en raðað upp á nýtt).

Ef þekking þín og sköpunarmáttur þinn "býr til" eitthvað nýtt, er það ekki þín eign. Aldrei.
Af því þú bjóst til eitthvað úr einhverju en skapaðir ekki neitt úr engu.

Skilurðu muninn?

Ef þú sannarlega getur skapað eitthvað úr engu og nýtt til þess þína eigin frumsömdu þekkingu sem byggir ekki á neinu þekktu í alheiminum,

ertu Guð.

Endilega hringdu í mig ef það er tilfellið, ég þarf að ræða eitt og annað við þig....

Tuesday, December 7, 2010

Bíddu þessi er búin að vera andlega fjarverandi lengiVerið nú sælir og blessaðir hroðgorssperðlarnir mínir.

Það er nú meira bölið með hana Þjóð. Þessi spræka skepna er ekki nema svipur hjá sjón. Enda engin von miðað við helvítis hóreríið á henni fram um allar sveitir. Svo var fartin orðin á henni að geldféð á Þinghúsum, fékk kipp í klofið og styggð kom að því, þá hún stormaði þar hjá. Þrjá vetur síðan.

Hyskið á Þinghúsum fékk þó skepnuna í sinn hlut, enda kom enginn annar böndum á hana. Talað er um að þetta Guðlausa pakk hafi borið fé á erlendan galdramann, ráðunaut, og með hans hjálp bugað skepnuna. En ég held þetta boði ekki gott. Nei gæskan. Ég held að þessar mannleysur séu enn að berja blessaða skepnuna. Helvíti bara. Hún getur ekki að því gert hvernig hún er.

Það verður einhver að bjarga blessaðri skepnunni.
Hún jafnar sig ef einhver er góður við hana.

Monday, December 6, 2010

Hátíð í bæ
Núna er aðventan gengin í garð.

Hún er stórkostlegt tækifæri.
Þá er í góðu lagi að éta smákökur yfir sjónvarpinu. Allar stelpur fara í klippingu og kaupa sér ný falleg föt. Og fólk dansar og syngur og gerir sér glaðan dag. Fólk horfir upp til stjarnanna og lætur það eftir sér að dreyma, kveikir lítil ljós og færir hinum sem eru horfnir á braut, fórnir sínar og kveikir þeim ljós til blessunar. Fólk gefur til góðra mála og skiptist á gjöfum.

Fólk er þakklátt og spennt. Tilhlökkunin í augum barnanna og samveran með vinum og ættingjum við laufabrauð. Þetta er ævintýri, öll aðventan. Svo nær hún hámarki á jólunum í dásamlegri stund með nánustu ástvinum. Þetta eru töfrum slungar stundir. Himnaríki á jörðu.

Ég ætla að gera smá tilraun. Ég ætla að halda hefðbundna aðventu og jól. Svo ætla ég að gera það aftur í febrúar. Og mars og svo framvegis. Mig grunar að ég hafi meira að gefa en ég hef haldið hingað til.

Áskorun til allra að halda notalega aðventu og muna að það er ekki áfangastaðurinn heldur ferðalegið, sem skiptir raunverulega máli.

Höldum jólin allt árið....

Wednesday, December 1, 2010

Ég er Guð og þetta eru loforðin mín.
Hjá þér

Ég og þú við verðum að gera samning.
Við verðum að endurlífga frelsið.
Þar sem er ást, þar verð Ég.

Ég rétti þér hönd mína og hef trú á öllu sem þú gerir.
Kallaðu bara Nafn mitt og ég verð þar.
-Ég verð þar, að hugga þig.
Byggi veröld mína og drauma umhverfis þig.
-Ég er svo glöð að hafa fundið þig.
-Ég verð þar, sem ástin sterk.
-Ég verð styrkur þinn og ég held áfram.

Leyfðu mér að fylla hjarta þitt af gleði og hlátri.
Samvera er það eina sem ég þrái að öðlast.
Ef þú þarfnast mín, verð ég þar.

Ég verð þar til að vernda þig
-með óeigingjarna ást sem virðir þig.
Kallaðu Nafn mitt og ég verð þar.

Ef þú skyldir finna einhvern nýjan,
er eins gott Hann sé þér góður.
Því ef Hann er það ekki, verð ég þar.

Ég verð þar
Ég verð þar
Kallaðu nafn mitt
Og ég verð þar

Höf: The Jackson five
Þýð: Ég með hjálp andans.

Tuesday, November 30, 2010

Karllæg gildi samfélagsinsFlestir karlar snúast til varnar þegar hugmyndir á borð við kynjakvóta eru viðraðar. Hvort sem um er að ræða í stjórnmálum eða annars staðar. Karlar fullyrða að slíkur kvóti sé óréttlátur og siðlaus.

Ef málið er skoðað með opnum huga og vísindalegum aðferðum má sjá að kynjakvóti er ekki bara nauðsynlegur heldur í meira lagi réttlátur.


Jörðinni er stjórnað af körlum. Og þannig hefur það alltaf verið síðan í árdaga mannkyns. Margir halda að í heiðnum sið hafi verið jafnræði á með kynjum en svo er ekki og engar rannsóknir benda til þess. Reyndar eru bara til mýtur um kvennaveldi eða jafnréttisveldi. Engar vísbendingar eða vísindalegar sannanir benda til þess að slíkur Edengarður mannlegs eðlis hafi nokurntíma verið til.


Þetta merkir að flest samfélgasleg gildi eru karllæg. Þau hljóta að vera það og ef þau eru skoðuð nákvæmlega má finna fjölmargar sannanir þess að svo er.

Sem dæmi má nefna að laun með tilliti til menntunnar eru ekki reiknuð með þjóðfélagslega hagkvæmni að grundvelli, heldur eru stéttir og störf metnar til fjár út frá áhugasviðum karla.

Þannig er það betur borgað að vera handlangari hjá málara en háskólamenntaður kennari (kennarar nutu virðingar þjóðarinnar og fengu há laun á meðan karlar voru þar í meirihluta).


Hjúkrunarfræðingur er verr borgað starf en tannlæknir. Hvers vegna?

(og hvers vegna er ekki til stétt tannviðgerðarmanna?)


Hvers vegna eru ummönunarstörf ekki jafn verðmæt og ruslabílaakstur?


Það er alls ekki nóg að setja lög sem tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu. Það þarf að tryggja kvenlægum gildum brautargengi með peningalegum verðlaunum.


Ég skora á karlmenn sem trúa því innst inni að konur verðskuldi réttindi og virðingu til jafns við karla að berjast fyrir réttlæti með því að hafna regluverki karllægra gilda og berjast fyrir réttindum dætra sinna, eiginkvenna og mæðra. Konur eiga aldrei eftir að ná fram leiðréttingu á kjörum sínum og öðlast tækifæri til hamingjunnar án hjálpar réttsýnna karla. Og þeir fjölmargir og við elskum þá alla.


Þeir karlar sem trúa því að kerfið sé réttlátt og endurspegli jafnrétti kynjanna eru að mínu mati annaðhvort illa upplýstir eða illa innrættir. Breytinga er þörf og það vita þessir illa innrættu og berjast af heift fyrir því að viðhalda kerfinu. Það er afar skynsamlegt fyrir þá sjálfa, með tilliti til þeirra forréttinda sem þeir njóta.


Svo mörg voru þau Orð.

Monday, November 29, 2010

Þjóðsöngurinn
Næstum allir frambjóðendur til stjórnlagaþings vilja aðskilnað ríkis og kirkju.
Ber að virða það.

Allir sem ekki eru í þjóðkirkjunni vilja aðskilnað ríkis og kirkju.
Skiljanlega.

EN ENGINN vill skipta út þjóðsöngnum?
..............eins og það sé ekki í samhengi eða eitthvað...............

Þjóðsöngurinn er sálmur. Söngur til dýrðar Drottni Biblíunnar. Þeir sem trúa mér ekki geta lesið textann.


Lofsöngur

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

AMEN

Saturday, November 27, 2010

Í tilefni dagsins
Þetta kvæði er eftir Davíð Þór Jónsson.

Kosningar

Senn eru kosningar, kátt er í bænum,
hjá kapítalistum sem vinstrigrænum
menn biðja um stuðning sem blíðast.
Alls staðar eru á faraldsfæti
frambjóðendur með ys og læti
vinsælda að afla sem víðast
og þjóðin kinkar kolli hissa
og krossinn ákveður að rissa
við sama fólkið og síðast.

Þetta er til þess að þjóðin velji
þá sem hún vill að sig píni og kvelji
og fari með landið til fjandans,
hækki vexti og skuldir og skatta,
skósveina útlenskra pípuhatta
og aðra óvini landans,
þó að þeir vitaskuld þykist allir
þjóðhollir, réttsýnir, greindir og snjallir
vinir vegfarandans.

Í útvarpi og sjónvarpi er masað mikið
og minnt á allt sem var logið og svikið.
Þótt fjaðrir af flokkunum reytist
og þingmannsefnin sér hrósi og hæli
og hræðsluáróðri frá sér dæli
þjóðin hún hreinlega þreytist.
Á endanum sigri allir fagna,
áróðursraddirnar hljóðna og þagna
og ekkert að eilífu breytist.

Svona er lýðræði lélegt kerfi
og litlu skrárra en að völdin erfi
kóngur af aðalsættum,
því þrátt fyrir þetta lýðræði landa
lenda þau jafnan í slæmum vanda
og hagfræðilegum hættum.
Enn eru hér til yfirstéttir
og aðrir miklu lægra settir
í Bónusfötum bættum.

Friday, November 26, 2010

Almenna kenninginAlmenna kenningin.
(sem er græn)

Orð eru til alls fyrst.

1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekkert, sem er til.
4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.
5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Þetta er formúla sem kall sem hét Jói skellti fyrir framan frásögn af gaur sem hann þekkti.

Ef við reynum að fá botn í nr. 1 þá er það helst svo að skilja að Guð sé orð. Öll orð sem hafa verið, eru og verða. Það er nú talsvert, er það ekki. Hvað ætli þau séu komin upp í mörg? Og ef til eru geimverur bætast orð þeirra við líka, og draugar og englar og hvert orð sem við hugsum líka.
Það er alveg á hreinu að öll þessi súpa orða er alveg merkingarlaus nema hvert orð sé skoðað í samhengi. Ef orð eru sett saman í samhengi mynda þau þekkingu. Rökhugun. Og þannig er Orðið það sama og við köllum vísindi.

Svolítið yfirþyrmandi.
Dæmigerður Guð, ekki satt.

En áttum okkur á því að Orðið var líka guð. Þekkingu fylgir vald og sá sem getur beitt þessu valdi ber ábyrgð. Heilög skylda að beita því ekki til ills. Sem þýðir að hverri veru sem getur hugsað í orðum ber skylda að beita ekki því valdi öðrum til tjóns. Skilurðu?

Orðið var hjá Guði. Þekkingin og valdið eru óaðskiljanlegir hlutir. Við treystum á samvisku okkar þegar rök brestur, Jarðnesk tilfinning sker úr um hvort við rísum undir þeirri heilögu skyldu okkar að vera góð.

Þegar við vitum að Orðið Guð merkir í sjálfu sér vald rökhugsunnar, getum við haldið áfram að skoða hugmyndir Jóa.

Ef við setjum alheiminn og eðliskrafta hans í stað orðsins Hann í nr.2 , er auðvelt að túlka setninguna sem svo að ef alheimurinn væri ekki gæddur eðliskröftum, væru orð merkingarlaus og engin vísindi til. Eðliskraftar alheimsins skapa orðin. Og orðin eru þekking. Og þekking er vald. Og valdið skapar heilaga skyldu valdhafans.

Er ég nokkuð að skjóta alveg út í bláinn? Er einhver sem ekki skilur? Þetta krefst smá víðsýni ég skil það, þetta eru svolítið róttækar hugmyndir. En við erum að tala um ný trúarbrögð. Nýjan Guð.

Núna segir nr. 3 sig sjálft. Allir hlutir urðu fyrir náttúrukrafta, án þeirra hefur ekkert orðið, sem er til. Stytting: Allt hefur orðið til vegna náttúrukrafta.

Nú er ég farin að æða áfram. (sjáið til þegar grunnurinn er ljós er svo auðvelt að skilja restina, alveg eins og í stærðfræði)

Nr. 4 liggur líka mjög einfaldlega fyrir, enda vita allir að lífið býr í alheiminum og náttúrukraftarnir viðhalda því.
Ljósið merkir vonina og ástina. Lífið er ástkær von veraldarinnar.

Ljós sólarinnar nærir jörðina eins móðurmjólkin nærir barnið. Vonin er fólgin í að kærleikurinn næri lífið.

Vá, hvað þessi trú á þessa kenningu gæti dregið úr spillingu og ofbeldi. Spáið í því.


Að lokum í nr. 5 er okkur svo að endingu tjáð að ástin og vonin skíni í myrkrinu. Myrkrið er þekkingarleysið og óttinn sem því fylgir. Vonin og ástin nær ekki til þess sem ekki skilur tilgang hennar. Ímyndanir óttans um framtíðina hverfa þegar ástinni og voninni er beitt að vopni. En sá sem skilur það ekki viðheldur myrkri þekkingarleysisins.

Jæja. Svo mörg voru þau Orð.

Það er alveg svakalega gaman að reyna þessa kenningu á orð Jesú Krists. Sjá hvort þessar orðskýringar virðast opna á þá hugmynd að hann hafi verið hér til að reyna eitthvað annað en láta hefta sig á plús.

Ef einhver töggur er ennþá í mönnum Péturs í Róm eru allar líkur til þess að ég verði sjálf heftuð á plús ef þessi nýja kenning mín fær almennt fylgi kristinna manna.

Og segið svo að það sé ekki gaman að lesa Biblíuna. Jói var allavega eldklár. Hann er kannski sá eini sem tókst að koma inntaki upprunalegu guðshugmyndarinnar sem Jesú Kristur predikaði, inn í hina heilögu ritningu, fram hjá eftirlitskerfi jarðneska valdsins, Kaþólsku kirkjunnar.

Hver veit?

Svo er nottlega líka svakalega gaman að setja þetta fram sem kenningu þó ekki væri nema til þess að opna möguleikann á einhverri þróun í kristni með gagnrýnni hugsun. Þá á ég við að fleiri og helst allir komi með kenningar sjálfir.

Og ef ég hef rétt fyrir mér er ég andlegur Einstein og sennilegast gáfaðasta manneskja jarðarinnar. En ég hef engar verulegar áhyggjur af því í bili að þessi skýring höfði jákvætt til margra, til þess er hún alltof róttæk. Við erum ekki tilbúin til þess að rísa undir því að guðdómurinn búi í okkur sjálfum og náttúrunni. Við erum týnd í myrkri óttans og höfnum hugmyndinni um kærleika sem leiðandi og lifandi lögmáli.

Hún geyspaði og hló. Velti því fyrir sér hvort róttækar skoðanir hennar bæru geðveikismerki. Já sjálfsagt. En henni var eiginlega alveg sama. Ekki endurspeglaði samfélag manna á Íslandi neitt andlega heilbrigt í fréttatímanum. Veröldin er klikk ákvað hún og gekk til jólahreingerninga.

es. Ég ákvað að benda fólki á það eftir á , að samkvæmt Almennu kenningunni (sem er græn) var rökhugsunin með frá byrjun. Alls. >=)

ees. Ætli ég geti komist í heimsmetabókina fyrir stystu trúarkenningu allra tíma?

eees. Vissir þú að nafnið mitt merkir Viska/Galdur Eyjunnar-Hin bjarta. Mamma ákvað nafnið mitt þegar hún var sjálf lítil.

eeees. Ég persónulega kýs að trúa ekki á yfirnáttúru

Wednesday, November 24, 2010

Ranghugmyndir um stjórnarskránna
Fyrst skoðaði ég mjög nákvæmlega 10% slembiúrtak frambjóðenda til stjórnlagaþings án tillits til kyns. Það var nóg til þess að ég sannfærðist um að sú hugmynd mín um að kjósa einungis konur væri góð.
Ég nenni ekki að tíunda þá niðurstöðu mína frekar hér en þeir sem hafa áhuga á að vita meira um það geta sent mér tölvupóst.

Fólk var spurt þriggja spurninga.

Í fyrsta lagi hvort þyrfti að breyta stjórnarskránni núna.

Margir telja að tímasetningin skipti ekki máli. Það er kolrangt. Núna er nákvæmlega besti tíminn til þess að breyta henni. Það er söguleg staðreynd að bestu stjórnarskrár heimsins hafa verið samdar til þess að friða öskureiðar þjóðir sem hafa gert byltingu og heimtað réttlæti í kjölfar kúgunnar og óréttlætis. Það eru nákvæmlega þær aðstæður sem ríkja hér á landi. Fólk er einfaldlega ekki tilbúið um að semja um bita af köku sem það bæði bakaði og á.

Svo eru þeir sem segja að hún hafi staðist tímans tönn en þar sem sé búið að sólunda fjármunum í þennan málaflokk hvort sem er, sé eins gott að klára þetta. Alla frambjóðendur sem hafa þessa skoðun ætti að hýða opinberlega öðrum til varnaðar. Þetta fólk hefur smekk fyrir þessari skoðun á sama tíma og bankakerfið fellir niður milljarðaskuldir óhæfra stjórnenda og lánar þeim svo upp á nýtt. Sama óhæfa fólkið lánar sama siðspillta pakkinu peningana okkar. Ef einhver nefnir bruðl varðandi þetta stjórnlagaþing ætti sá hinn sami að skammast sín. Sú skoðun að stjórnarskráin hafi staðist tímans tönn er líka grundvölluð á svo eiginhagsmunalegum grundvelli að hún fellur um sjálfa sig. Stjórnarskráin skilaði okkur nákvæmlega í hrunið 2008. Þráðbeint og markvisst.

Næsta spurning var hverju þyrfti helst að breyta.
Ég veit ekki hvort þetta ÁTTI að vera trikk-spurning eða ekki en hún ER það engu að síður.
Það sem kemur mér mest á óvart er að fólk er fullkomlega blint á þá staðreynd að það þarf ekki að breyta stjórnarskránni heldur semja nýja. Fólk er alveg stjarnfræðilega hrætt við þá hugmynd að faxa þessa helvíts tímaskekkju aftur upp í rassgatið á Margréti Þórhildi.
Flestir frambjóðendur vilja að farið sé lið fyrir lið yfir stjórnarskrána og henni breytt. Mikilvægast af öllu sé að halda í það góða sem í henni er. Enginn nefndi dæmi og þetta góða. Hvers vegna ætli það sé? Einn frambjóðandi hélt því meira að segja fram að grunnur stjórnarskrárinnar væri einhverskonar siðfræðileg niðurstaða vestrænnar baráttu fyrir réttlæti. Guð Almáttugur hjálpi mér ef það fífl nær þarna inn.

Síðasta spurningin var hversvegna frambjóðendur buðu sig fram. Merkilegt nokk, mjög fáir klúðruðu því svari. Næstum allir vilja taka þátt í því að skapa réttlátt samfélag.

Þetta var gert nákvæmlega svona:
1874 var okkur afhent þessi stjórnarskrá af danska konunginum. ÁTJÁNHUNDRUÐSJÖTÍUOGFJÖGUR.
1944 var hún svo samþykkt sem stjórnarskrá landsins af 95% þjóðarinnar sem treysti nýtilkomnum forráðamönnum landsins til að standa við það að henda henni og gera nýja að ári.
Það er fyrsta kosningaloforð flokkræðisins sem ákveðið var að svíkja. Og það ekki að ástæðulausu. Þetta mölétna konungsræðisplagg hentaði nefnilega MJÖG svo vel til að vildhalda völdum, kóngurinn fær vald sitt frá Guði og valdið þessvegna hafið yfir gagnrýni. Þó svo að orðinu konungur hafi verið skúbbað út er inntakið óbreytt. Og það var vandamálið.
Í meira en sextíu ár hafa flokkarnir mygið utan í þá hugmynd að gera eitthvað í þessu, sérstaklega þegar hefur kurrað reiðilega í þjóðinni, en kjaftað málið af fagmennsku inní frumskóg nefnda og álitsgjafa sem skila svo engri niðurstöðu, aldrei.
2009 í kjölfar Hrunsins heyrðist ekki kurr lengur í þjóðinni. Í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins lét þjóðin í sér heyra. Ég held að þjóðfundurinn hafi verið tilraun stjórnvalda til að svæfa málið eina ferðina enn. Það tókst bara ekki. Fólkið mætti fullt eldmóðs og þjóðin fylgdist spennt með. Niðurstöður voru ekki bara skýrar, heldur róttækar.
Æææ. Og stjórnlagaþingið er næsta tilraun til að stoppa okkur. Andskotinn að við komumst að samkomulagi þar, það getur ekki verið. Ég held að sumir frambjóðendur bjóði sig fram til þess eins að reyna að viðhalda þinghefðum okkar sem grundvallast í baráttu en ekki samvinnu. Séu það sem í dag er kallað terroristi. Þeir fara inn til þess að verjast breytingum. En það má ekki virka hjá þeim.

Að lokum ætlar svo alþingi að skoða málið.

Ég legg til að alþingi fái fyrirfram ákveðinn frest til að afgreiða málið. Ég tel að tveir mánuðir séu algert hámark. Við skulum átta okkur á þvi að þeir hafa haft yfir 60 ár til umhugsunnar.
Ef alþingismenn hafa uppi einhver önnur áform en að vísa frumvarpinu beint til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu vil ég fá að vita af því NÚNA svo ég geti terroræsað þá einstaklinga sem landráðamenn allan tímann sem stjórnlagaþingið starfar. Best að senda þeim póst. Öllum.

Tuesday, November 23, 2010

Svar óskast

Ég fékk tölvupóst frá frambjóðanda til Stjórnlagaþings. Viðkomandi sendi mér póstinn úr vinnunni þar sem hann vinnur hjá Vinnumálastofnun og hann fékk netfangið mitt í vinnunni. Og hann notfærði það sér til framdráttar. Ég reikna með að hann hafi sent þennan áróðurspóst á öll netföngin sem hann komst yfir í vinnunni.

Með öðrum orðum:
Hann misnotaði tengsl Vinnumálastofnunar sér til framdráttar.
Hann misnotaði aðstöðu sína.

Af geðvonsku ákvað ég að svara póstinum.
Svona hljómaði það:

Sæll Gissur og takk fyrir sýndan áhuga á atkvæði mínu.

Það er skoðun mín sem Íslendings að allir sem bjóða sig fram til Stjórnlagaþings með stefnuskrá eins og þína (sem segir mér ekkert um afsöðu þína til nokkurs og sem virðist endurspegla stefnuskrá fjórflokksins um að segja ekkert sem gæti fælt kjósendur frá í stað þess að segja þeim hreint út hver þú ert og hvað þú raunverulega vilt) séu að sækja um notalegt starf sem lagi stöðuna í kreppunni.

Þú gerir þau taktísku mistök að segja mér hvar þú hefur unnið og hvað þú hefur lært í stað þess að segja mér hver afstaða þín er til samkynhneigðar, kynjakvóta, þjóðnýtingu kvótans, EB og þar fram eftir götunum. Það eru skoðanir þínar sem endurspegla hver þú ert ekki stofnanir og skólar með ártölum. Ég veit ekki einusinni hvað þú ert gamall hvað þá annað.

Svo virðist sem copy-paste framboðsræða þín sem sennilega hefur átt að laða fólk að með notkun á orðum eins og málefnalegri umræðu, aðskilnað valds og þjóðaratkvæðagreiðslum sé sódastrímtæki pólitíkurinnar. Söluvara sem lofar engu, segir ekkert og gefur engin fyrirheit um persónulegan heiðarleika þinn og staðfestu.

En ég ætla að gefa þér annað tækifæri. Stórt.

Sendu mér e-mail sem segir mér eitthvað um þig. Segðu mér sögu af því hvernig þú hefur hjálpað fólki sem þú þekkir ekki neitt. Segðu mér í hvaða fyrirtækjum þú átt. Segðu mér í hvaða stjórnmálaflokki þú ert. Segðu mér í hvaða trúfélagi þú ert. Reyndu að setja saman texta sem endurspeglar að samviska þín virki. Hvað hefur þú afrekað annað en nám og starf? Er það það eina sem þú ert stoltur af í þínu lífi? Hver ertu?

Að lokum verður þú svo að færa rök fyrir því hvers vegna þú ert hæfari í þetta starf en móðir þín (heitin?) og rökstyðja með skýrum hætti hvað gerir þig verðan þess að ákveða hvað er réttlátt í framtíð barnanna minna. Afstaða þín til Schengen, Nato, EB, Evrusvæðisins og þar fram eftir götunum segði líka heilmikið um persónugerð þína. Er í lagi að framselja löggjafarvald að hluta í hendur annars ríkis eða stofnunar? Er það landráð? Hvað ætti að skilgreina sem landráð að þínu mati?

Ef þú svarar mér ekki sendi ég öllum sem ég þekki skilaboð um að kjósa þig alls ekki og reyni að koma í veg fyrir kosningu þína.

Ef þú svarar á þann hátt að mér sýnist þú hafa eitthvað til að bera að geta valdið þessu starfi mun ég hins vegar persónulega ganga í það að greiða götu þína og aulýsa þig sem eina raunhæfa valkostinn í stöðunni.

Kær kveðja
Heiða Skúladóttir


Þar sem kappinn lagði ekki kapp á að svara mér ákvað ég að pósta þessu hér.

Sunday, November 21, 2010

Aðskilnaður ríkis og kirkju breytir engu.
Af hverju er fólki svona ofboðslega tilfinningalega umhugað um að hér skuli ekki vera þjóðkirkja?

Þjóðkirkjur eru út um allt og eru minnismerki frá þeim tíma þegar kóngurinn þáði vald sitt frá Guði. Eins og málin hafa þróast er aðeins eitt vald í boði. Ríkisvaldið (og Auðvaldið sem stjórnar því). Andlega valdinu var sturtað niður með upplýsingunni. Annars brenn ég í Helvíti.

Ég er í sjálfu sér alveg sammála því að aðskilnaður ríkis og kirkju verður að ganga í gegn fyrr eða síðar, en eins og ástandið er í þjóðfélaginu er mér algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna sú rándýra lögfræðiálitsveisla þarf að fara fram akkúrat núna.

Það er eins og fólk haldi að Þjóðkirkjan hafi einhver frímúrarísk klíkuvöld sem nái til æðstu embættismanna þjóðarinnar og við lifum við trúarlegt ofstæki.
Ef menn kalla fermingarfræðsluboðsmiðana og kannski einhverjar heimsóknir lúðalegra trúboða í skóla ofstæki eru menn á rangri leið. Ég þekki persónulega ENGANN sem hefur frelsast í kjölfar fræðslu Þjóðkirkjunnar. ENGANN. Og ef einhver sem þekkir einhvern sem sem hefur HEYRT um að barn hafi snúist í trú sinni eða trúleysi á band með Þjóðkirkjunni vegna trúboðs í skólum langar mig AFAR mikið að heyra af því. Hinsvegar þekki ég MARGA sem hafa hætt í Þjóðkirkjunni vegna þessa. Ég er sammála því að Þjóðkirkjan eigi að hypja sig úr skólum landsins. Hér ríkir trúfrelsi. En hættum að gera úlfalda úr mýflugu.

Það má leiða líkur að því miðað við málflutning aðskilnaðarsinna að Nýtt Ísland líti dagsins ljós við þennan stórkostlega aðskilnað. Ég reyni með eins miklu ímyndunarafli og mér er unnt (sem er umtalsvert) að sjá þetta fyrir mér. En mér er það bara algerlega fyrirmunað. VEGNA ÞESS AÐ ÞESSI AÐSKILNAÐUR BREYTIR ENGU

Hvaða rannsóknir benda til áhrifa sitjandi kirkjuþings og biskups, á hverjum tíma, á störf Alþingis? Hæstarétts? Stefnu Háskólans? Héraðsdóms? Störf einstakra stjórnmálamanna?
Hvaða gengdarlausu fjárútlát má sanna að ríkisstofnanir hafi veitt kirkjunnar mönnum síðustu 10 ár? Eða brautargengi? Eða lendur eða sálir eða yfirhöfuð HVAÐ?

Aðskilnaður ríkis og kirkju fer fram með þeim hætti að Ríkið og Þjóðkirkjan setjast niður og semja um þann auð sem Danakonungur stal af heiðnum forfeðrum okkar (það sem ekki var flutt sjóleiðis til Kaupmannahafnar). Það er allt og sumt. Ekkert annað breytist.

Eða bíddu við........

Kannski verður aðskilnaðurinn til þess að Þjóðkirkjan SETUR MIKLA PENINGA Í AÐ LOKKA FÓLK TIL LIÐS VIÐ SIG eins og gerist í þeim löndum sem þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju er veruleiki. Ef fólk á erfitt með að sjá fyrir sér hvernig það virkar er auðveldast að skoða Bandaríkin. Þar nota kristnar kirkjur fjölmiðla, þar áttu skjól hjá kirkju sem þráir þig mjög heitt og elskar þig jafnvel meira. Annað en hér (og víðast í Evrópu þar sem ríkiskirkjan er staðreynd) þar sem ÖLLUM er skítsama um þennan málaflokk nema á jólunum.

En hvað sem öllu líður og hvað sem verður þá nenni ég ekki að ræða þetta framar sem eitthvað aðkallandi issjú í þjóðfélaginu. Þetta er dramakast og ekkert annað. Uppblásin tilfinningabólga fólks sem er svo blint í trú sinni á trúleysi að það neitar að vera annað en mannréttindafótumtroðin fórnarlömb kerfis sem er illt.

Get the fokking over yourself.

When I find myself in times of trouble
Á kynjafræðilegan hátt hefur verið staðið ranglega að stjórnlaga-þings-framboðinu.

Ekkert við þetta fyrirkomulag hefur hvatt eina stórkostlegustu konu landsins til að taka þátt. Samt er hún eina manneskjan sem ég myndi persónulega (eins og sennilega langflestir íslendingar) alltaf treysta fyrir leyndarmálum og vangaveltum um allt frá ástinni til Guðs, ég myndi treysta henni til þess að gæta barnanna minna þó ég færi í stríð og ég myndi líka biðja hana um að gæta að eigum mínum umfram alla aðra.
Ég held að flestir treysti henni skilyrðislaust án þess að velta því nokkuð sérstaklega fyrir sér. Hún hefur jú alltaf verið þarna. Og aldrei brugðist okkur.
Hljóð og góð. Vitur og fróð.
Ég sakna hennar alltaf og sérstaklega sakna ég hennar þegar taka á afdrifaríkar ákvarðanir á þingi en hún er bara þannig gerð sjáðu. Hún er hógværðin uppmáluð og tæki ekki í mál að vera að trana sér fram með þessum hætti. En hún myndi baka stóran bunka af pönnukönum og steikja kleinur fyrir þann sem hún elskar þó hún fái aðeins örfáar krónur á mánuði núorðið. Þrátt fyrir bogið bak og endalausa fórnfýsi fyrir okkur hin.
Hún er konan sem ég hefði kosið að tæki völd.
Hún Amma.

Af virðingu við hana ætla ég bara að kjósa konur.

Ég hvet þær konur sem settu X við frú Vigdísi og breyttu heiminum að hafa trú á konunum sem buðu sig fram til stjórnlagaþings og halda áfram að breyta heiminum til batnaðar.
Nú er komið að því að við látum hjartað ráða og treystum hvor á aðra.
Konur til sigurs........

Friday, November 12, 2010

Glópagull
Líður að jólum. Bara orðið sjálft er farið að svífa yfir vötnum. Á ljósvakamiðlum er okkur boðið að koma á tónleika og sýningar, messur og markaði. Fólk kaupir brosandi, varning til styrktar hinum ýmsu hópum, með hjartað fullt af nágungakæreika og allt er dásamlegt.

Fólk missir sig í happdrættiskaup, til styrktar íþróttum, fötluðum, glötuðum og fátækum. Sem betur fer. Mörg góðgerðarmaskínan treystir á þennan stuðning til að greiða götu skjólstæðinga sinna út árið. Björgunarsveitir treysta alfarið á gjafmildi okkar. Og Guð sá að það var gott.

En það er önnur hlið á þessum gullpeningi. Hann er ekki svona fallegur og yndislegur....

Í landinu okkar er eftirfarandi hópum ekki séð fyrir því nauðsynlegasta:
Veikum
Fátækum
Öldruðum
Öryrkjum

Þetta fólk þyggur ölmusu. Sem skaðar mannlega virðingu hvers og eins.

Mig langar að biðja þig að borga happdrættismiðana sem streyma heim til þín. En ekki láta staðar numið þar heldur heimta að skattarnir sem við öll greiðum sé skipt þannig að enginn sé útundan.
Svo er líka hægt að vera góður án þess að kaupa neitt.
Ég mæli með því, það lyftir andanum og sáinni upp á við.
Amen

Tuesday, November 9, 2010

Ich bin auf Gnarrenburg gekommen
Það hlýtur að teljast til tíðinda að maður sem þekktastur er fyrir kjánaskap skuli blása í lúðra og gefa kost á sér í pólitík. Það þarf hugrekki til. Sérstaklega ef maður á fortíð. Hefur jafnvel látið út út sér allskonar vitleysu sem andstæðingar túlka að eigin geðþótta sem neikvæð persónueinkenni fremur en að Gnarrinn sé viljandi að hræra í hausnum á þeim.

Pólitík snýst um ákveðinn kjarna.
Að viðhalda völdum sínum eða auka við þau!

Allir flokkar, líka Bestiflokkurinn, eru klíkur. Innan Bestaflokksins er samt fólk sem hvorki vill né getur logið jafn áreynslulaust og sérþjálfaðir flokksgæðingar. Það reynir ekki að koma sér undan ábyrgð með því að kjósa gegn samvisku sinni í skjóli flokksins. Það má alveg láta reyna á hvort mannleg samviska skili okkur betra samfélagi en ísköld og svört krumla hinnar heilögu ritningu; Stefnuskránni. Þvaðri sem enginn tekur mark á og enginn tekur alvarlegt.

Þetta kerfi er orðið algjörlega úrelt og útbrunnið. Það verður aldrei sátt um áframhald á þessu kerfi. Það eru ekki bara einstaklingarnir sem við verðum að losna við, það eru helvítis flokkarnir líka. Öll þjóðin ætti að vera í einum flokki sem kallast Íslendingar og allir í framboði. Allir þingmenn skili vinnuskírslum í lok vikunnar og birti á netinu. Þar ætti að sjálfsögðu að koma fram afstaða sem varða öll lög sem koma til kasta þingsins. Auk þess allar tengingar viðkomanda í samfélaginu, fjölskyldu og fyrirtækja. Allir yrðu að gera sér prófæl á netinu þar sem kemur fram persónuleg afstaða gagnvart samkynhneigð, feminisma, lögleiðingu eiturlyfja, eignarrétti og svo framvegis.
Menn ættu að þurfa að raða eftirfarandi lista með tilliti til mikilvægis.
Menntakerfið - Heilbrigðiskerfið - Tryggingakerfið - og svo framvegis.
Menn ættu að gefa upp skýra afstöðu í klíkumálum landsins með því að velja hvaða klíkum við ættum að vera í og þannilg líka úr hverjum við ættum kannski að segja okkur.
Schengen, EB, Nató og svo framvegis.
Hugmyndir einstaklingsins varðandi íslenska náttúru.

Jæja.
Þetta er allavega hugmynd.

Mér þykir hún góð. 100 % gagnsæi og lýðræði. Það er það sem þarf.

Saturday, November 6, 2010

Afsakaðu ég var ekki að hlusta
Það er synd og skömm að yfirvöld skuli ekki ná því, hvorki gegnum mótmæli, fréttaflutning af skelfingu né stjörnuvitlaust fólk á netinu, að fólk treystir ekki kerfinu lengur. Þetta hyski er svo tilsniðið í framheilanum að vitund þeirra getur ekki lengur treyst taugakerfinu og tilfinningunum.
Heili þeirra hafnar hugmyndinni um stjórnarfarsbyltingu.

Það er lögmál sem tryggir eitt lögmál. Það er alltaf þannig. Og þess vegna verður engu hafnað nema það sé tætt í sundur í frumeindir og gert að engu. Það er mikil vinna en einhversstaðar verður maður að byrja og innblástur veitti fréttaflutningur af fullum fangelsum á sama degi og Albaníu og einhverjum öðrum var boðið að vera með í mesta bull kerfi sem nokkurn tíma hefur verið búið til. Schengen.
Sjengen

Ef þú ætlar að bóka hótelherbergi á Spáni, leigja íbúð í Tékklandi eða skrá þig í skóla í London verður þú að hafa........????????????

Já. Já og Já. Vegabréf.

Ef þú býrð í fátæku austantjaldsríki, ert með slæmar tennur, atvinnulaus og hatar tengdamóðir þína þá............????????????

Ég veit. Þú setur þig í samband við Tjkztanísku mafíuna í Reykjavík og þeir stilla upp fyrir þig samningi. Þú kemur með helling af dópi inn í landið og ef það tekst færðu fullt af peningum og um þig séð, ef það klúðrast ferðu í sumarbúðir í upphituðum húsum, læknisþjónustu, sálfræðiþjónustu, lífstílsráðgjöf, tannlækni, dóp, vinnu, klippingu og frí aðra hvora helgi til að fremja glæpi og safna fari fyrir konuna og tengdapabba.

Hver var vitsmunalega fjarverandi þegar við skrifuðum undir þennan fjanda? Allir? Hætta í þessu strax og ekki seinna en strax. Með Sjengen skrifuðum við undir samning undir frjálst flæði á þrælahaldi, fíkniefnum, vopnum og meðlimum skipulagðra glæpastofnana.

Já ! Vegna Sjengen eru börn send í gámum í kynlífsþrælkun. Þetta er ekkert fokking fyndið. Þetta er árás á mannlega virðingu. Þetta er viðbjóður sem líðst vegna þess að í einhverju fyrirfram gefnu dramakasti gæti verið gott að vera í þessu sambandi. Týndur farangur kannski eða eitthvað álíka. Veistu fólk er ekki allsstaðar skotið í hnakkann utan sjengan ef það finnst vegabréfslaust. Þekki til dæmis engan sem hefur lent í því í London.

Ég kann ekkert ein að koma okkur þarna út. Hvað á ég að gera? Læðast inn í alþingi og finna lögin og setja þau í tætarann? Ég er hrædd um að þetta sé aðeins flóknara. Það verður nefninlega að vera svo fokking flókið að allir gefist fyrirfram upp á því að reyna að breyta.

Mótmælum allavega. Það má. Ennþá. Hinum megin við götuna.

Við getum líka tekið heilagt stríð á þetta í nafni Óðins og Ása Þórs og höggvið mann og annann.
Eða bara nefnt þetta issjú við aðra og tékkað á því hvort fólk veit eitthvað í sinn haus almennt.
Ég persónulega ætla að láta stjónmálavitringinn og mannvininn George W Bush blása mér andann í brjóst, því með heilögu stríði sínu gegn terroristum opnaði hann á fyrirbrigði sem ég kýs að kalla "stríð gegn hugmyndum".

Its fokking on - War on Schengen

Friday, November 5, 2010

Sólin kemur upp í Austri
Ég er búin að vera gersamlega á bólakafi í þekkingarpotti alheimsins með viðkomu á googleearth.
Og loksins hef ég fundið eitthvað af viti.

En það er nú önnur saga. Bráðum ætla ég að varpa fram kenningu. Hún verður síðar kölluð almenna kenningin og verður eina lögmálið sem allir í heiminum skilja. Þetta var spádómur.

Ég er svona að æfa mig í að skrifa texta sem hljóma minna geðveikislegir en kóraninn og biblían en eru samt að fást við svipaðar pælingar. Og það, satt best að segja, er miklu flóknara en það hljómar.

Allt frá því að ég lét það eftir mér að leita að svörum, hefur einhvernveginn einhver ósýnilegur kraftur fyllt mig og mér líður eins og ég sé á næringardufti frá heven.com. Mér líður eins og einhver hafi krækt öngli í belginn á mér og togi mig inn í framtíðina. Eða áfram, fyrir þá sem skilja það betur. Og ég finn fyrir þörf að klára. Klára og klára svo ég geti gert meira og nýtt og notið þess á meðan það gerist.

Lífið er dásamlegt í allri mannvonskunni og óréttlætinu og viðbjóðnum sem okkur er samviskusamlega vellt uppúr á klukkutíma fresti út æfina svo við séum nógu hrædd, nógu ljót, nógu skítug og nógu andlega brotin að hægt sé að gera úr okkur sálarlaus vélmenni sem fá verðlaun í formi dópamíns.

Já. Ég er að reyna að færa í orð þá sýn sem ég hef kosið gera að minni framtíðar. Ég er eins og fiðrildasafnari í roki sem hefur ekkert sér til handagagns nema fata-ryk-rúllu. Aðrir gætu orðið sárir. Aðrir sem eru góðir og gegnir og ég ber djúpstæða virðingu fyrir. Ég þarf vonandi ekki að taka tillit til þess að fólk vaknar dautt ef það kaupir diskinn saungvar satans. Það reyndar er bara fyndið að hugsa til þess að ég skuli gera það að möguleika að einhver hafi minnsta áhuga á mínum pælingum. Hver veit, kannski finnast plögginn í framtíðinni og gefa þá til kynna að ég hafi verið eðla.

Eina leiðin til að lýsa þessu erfiða sköpunarferli er að líkja þessu við að sauma sængina utan um fiðrið í stað þess að troða því í eftir á.
Ég verð að sauma varlega og örugglega fyrir svo innihaldið fjúki ekki bara út í bláinn og hverfi.

Þetta ferli er áhugamálið mitt. Fyrsta og eina alvöru áhugamálið sem ég get fullyrt að hafi sinnt og stundað, af misjafnlega miklu kappi, allt mitt líf. Núna er það einfaldlega orðið ráðandi afl í lífi mínu og ég ætla að helga því líf mitt allt. Og nei, ég frelsaðist ekki og ég gekk ekki af göflunum heldur. (fyrir þá sem hafa áhyggjur af heilsu minni þá sef ég eins og engill og borða hollara en ég er vön og hreyfi mig daglega, þó í hófi eins og mér er tamt)

Ég þarf að setjast niður í fyrsta skipti, og flokka og raða þeim hlutum sem skipta máli og eiga kærleika minn allan og traust. Allt sem ég hef flokkað og raðað af ónauðsynlegum þvættingi og óttalistar gerðir yfir komandi deadline hafa undirbúið þessa vinnu. Ég er sérfræðingur í flokkun. Það er einmitt líka það eina sem ég þarf að vera góð í fyrir utan það að geta aldrei haldið mér saman, og það er meðfætt.

Það vitnast hér með, á veraldarvefnum, að ég hef formlega plöggað mig út úr meitrixinu og sný ekki aftur.


Þeir sem hafa verulegar áhyggjur af andlegri heilsu minni er vinsamlega bent á að kynna sér þær andlegu ritningar sem grudvalla trúarhópa jarðarinnar.

Ef þú kaupir aðgang að költinu án þess að vita fyrir hvað það stendur ertu heimskur.

Monday, October 11, 2010

Skömm

Mig langar svo til Kína.

Mig langar að vera innan um endalaust fólk sem veit ekki hver ég er og er skítsama. Þar sem stjórnvöld leggja meira uppúr velferð þegnanna en hér. Hversu átakanlega sorglegt sem það er.
Þar sem enginn stjórnmálaflokkur er til þannig. Allir eru skráðir í sama flokkinn við fæðingu.
Þar sem yfirvöld yfir einum og hálfum milljarði manna ná að standa saman. Stjórnvöld þar hafa gerst sek um æði margt ljótt, en ekkert sérstaklega umfram önnur ríki veraldar og ekki hafa þeir gefið auðlindir sínar og hneppt þegna sína í þrældóm.
Það sem Kínverjar hafa þó fyrst og fremst á samviskunni er að brjóta öll siðsemislög vesturlandabúa með því að afla fyrst og eyða svo. Þeir eiga svo mikinn gjaldeyrisforða að hann dygði til þess að kaupa eyjuna okkar og breyta henni í þrælabúðir. Svo eiga þeir bráðum allt á vesturströnd Afríku og nú þegar stóran hluta af fasteignum í bna. Og þeir eru rétt að byrja.

Fyrir ótrúlega stuttu síðan hélt sumt fólk að í Kína færi ekkert annað fram en pyntingar á fólki, tilviljanakenndar aftökur og grimmd. Í hugum fólks er því fræi sáð að Kínverjar hljóti að hafa gert eitthvað mjög, mjög slæmt fyrst þeir eiga allt í einu alla þessa peninga. Well, they played our game. Menntuðu hrísgrjónabændur og fundu mannauð í einstaklingum. Evil.

Mig langar til Kína.

Sunday, October 10, 2010

Afsakið

Ég biðst afsökunar á síðustu færslu.
Henni hefur verið eytt.

Wednesday, October 6, 2010

Mótmæli
Það eru margir þarna úti sem eru að velta því fyrir sér hvers vegna fólk er að mótmæla. Hvers vegna átta þúsund reiðir Íslendingar tóku sér stöðu umhverfis Alþingi og grýttu í bæði fólk og fasteignir.

Ég fór og mótmælti. Fyrir margar ástæður sem ég skal tíunda frekar hér að neðan fyrir þá sem hafa áhuga. En fyrst og fremst mótmælti ég fullkomnu getuleysi fjórflokksins til að stjórna þessu landi náttúruauðæfa og mannauðs.

Ég held að einhverra hluta vegna sé fólk almennt frekar blint á samfélagið. Við höfum verið kúguð svo lengi að við höldum að allt sé í sómanum ef við höfum það skárra en skítt. Það er alls ekki þannig. Við ættum og getum auðveldlega haft það alltaf gott. Og miklu betra en við þekkjum það.

Fyrir því eru margar góðar ástæður og sú fyrsta einfaldlega sú að við erum rík. Mjög rík. Vatnið, plássið, orkan, sjórinn, fjöllin, menntunin og fólkið er það fyrsta sem mér dettur í hug.
En það er fleira.
Hógværð er einn þeirra mannkosta sem Íslendingar telja afar mikils virði. Og að tengja peninga við áveðna hluti hálfgert klám. Það er ekki langt síðan að peningar og náttúra voru ótengjanleg fyrirbrigði. Það hefur breyst.
Hvers virði í peningum er aðgengi að loftrýmis-gæslu-svæðis Íslendinga?
Af hverju fer íslenska ríkið ekki í skaðabótamál við Breta vegna umhverfisslysins hjá BP?
Af hverju fer íslenska ríkið ekki í skaðabótamál við Moodys fyrirtækið sem lagði blessun sína yfir íslenska loftbankakerfið?
Hvers vegna er innlend orka skattlögð eins og erlend?
Hvers vegna eru rafmagnsbílar ekki tollfrjálsir og við þannig sjálfbær um orku?
Hvað fengum við fyrir náttúruauðlindirnar sem komnar eru í hendur fárra? Þetta?
Við fengum ekkert fyrir það sem var tekið frá okkur.
Því var stolið. (það er kallað það þegar við tökum frá öðrum það sem við ekki eigum)

Og það er ekkert því til fyrirstöðu að taka til baka.
Sorrí. Við fengum ekkert borgað.
Joínk.
Þjóðnýting.
Segðu orðið nokkrum sinnum í bland við orðið réttlæti.
Ókei.

Það er einhver á þingi sem hefur hagsmuna að gæta.

Það hefur sýnt sig að enginn flokkur ræður við það einfalda verkefni að vinna að hagsmunum þjóðarinnar. Flokkakerfið er ónýtt. Klíka er og verður klíka. Og hagsmunir klíunnar verða ofar hagsmunum þjóðarinnar. Það er bara þannig.

Hver vegna í andskotanum má ekki skattleggja bankana?
Getur einhver svarað því?

Ég trúi því að Jón Gnarr sé tilbúinn að standa fyrir okkur vaktina fram að fyrstu lýðveldislegu kosningunum í þessu landi.

Persókukjöri.

Friday, September 24, 2010

Föstudagshugvekja

Ísland er landið e. Hallgrím Helgason

Ísland er stjórnlaust, því enginn því stjórnar.
Ísland er fleki af dýrustu gerð.
Ísland er landið sem Flokkurinn fórnar,
Ísland á reki í sjónum þú sérð.
Ísland í forsetans orðanna skrúði,
Ísland sem bankana auðmönnum gaf.
Ísland sem sonanna afrekum trúði,
Ísland er land sem á verðinum svaf.

Íslensk er þjóðin sem allt fyrir greiðir.
Íslensk er krónan sem fellur hvern dag.
Íslensk er höndin sem afvegaleiðir.
Íslensk er trúin: "Það kemst allt í lag".
Íslensk er bjartsýna alheimskuvissan
um íslenskan sigur í sérhverri þraut.
Íslensk er góðæris átveisluhryssan
sem íslenskan lepur nú kreppunnar graut.

Ísland er landið sem öllu vill gleyma sem
Ísland á annarra hlut hefur gert.
Íslenska þjóð, þér var ætlað að geyma
hið íslenska nafn sem þú hefur nú svert.
Íslandi stýra nú altómir sjóðir,
Ísland nú gengur við betlandi staf.
að Íslandi sækja nú alls konar þjóðir,
Ísland er sokkið í skuldanna haf.

Thursday, September 16, 2010

Þversögnin um flokkun og röðunÞegar allt er flokkað og raðað, líður mér vel.
Þá er allt fullkomið.

En það er næstum aldrei þannig mjög lengi.
Þá er allt ófullkomið.

Og það er leiðinlegt.

Þessvegna ætla ég í framtíðinni að nota orðin
FLÆÐI og FERLAR yfir alla skapaða hluti.

Skilgreina allt í verkefnum sem hafa hvorki upphaf né endi, heldur þarfnast betrunar.

Þá get ég sennilega mun betur slappað aðeins af.

Er það ekki.

Friday, September 10, 2010

Penis frá Kana


R I P

Hann persónulega þekki ég ekki. Og langar ekki að kynnast.

En svona fólk vil ég kynna mér. Hvernig getur læknir verið svona fáfróður? Af hverju tekur hann sér dómsvald yfir fólki? Segist hann ekki vera kristinn?

Hvernig stendur á því að þeir sem kalla sig kristna, geta sumhverjir alls ekki farið eftir því sem Guðssonurinn boðaði? Ef þú ert að uppfylla lögmál Móse eða Abrahams í stað Jesú Krists af hverju kennirðu þig þá við Krist?

Þetta er Krist-ni.
Hann er Frelsarinn.
Allt annað en það sem má vitna í hann beint, eru orð manna sem ekki eru Frelsarinn.
Er einhver sem er ekki að skilja mig?

Síminn hjá mér er 618-2727

Ef þú ert ekki að ná þessu hringdu þá í mig og ég sel þér áskrift að tímariti.

Tuesday, September 7, 2010

Minningar af hamingjunni


Ég sat við eldhúsborðið með símann í hendinni. Ég talaði óskaplega mikið í síma í þá daga. Og drakk Kók Light. Og reykti langa gull-litaða Winstoninn. Og gekk í gallabuxum og hettupeysum. Og seldi brennivín í Valaskjálf. Átti klossa og strigaskó.

Ein stígvél samt.

Og sólin skein í heiði og ég heyrði suðið í flugunum, þytinn í trjánum, sull og skvamp, gelt og hávær gleðihróp barnanna. Ég stóð upp og gægðist út um útidyrnar.

Þarna stóðu þau ísköld, brún á kroppinn með bláar varir og blá augu. Og ljóst hár sem límdíst rennblautt við kollinn á þeim. Þau voru að basla við að láta renna úr slöngunni í litla uppblásna sundlaug og sulluðu svo á hvort annað til að hlýja sér.

Brosin
Augun
Leiftrandi hláturinn
Skríkir

.....og hlaupið af stað um alla lóð með hundspottið angnarlítið og svart hoppandi og skoppandi með þeim, gjammandi öll í kór.....

Og þá var ég hamingjusöm

Monday, August 16, 2010

Það verður alltaf sólarupprás
Æskuárin hafa áhrif á heilsuna

Ég rakst á þetta greinarkorn á mbl.is
Og ég gerði það líka skáletrað og feitt.
Ég krotaði inn í það hinar og þessar vangaveltur, með rauðu.

Mótlæti og streita á æskuárum leiðir til langtíma veikinda og styttir líf fólks, segir hópur sálfræðinga sem hefur rannsakað langtímaáhrif streitu í æsku.

Þetta eru nú alveg sláandi niðurstöður. Hvern hefði grunað að börn þyldu illa skort og ofbeldi? Að vera stöðugt á verði. Hræddur heima og hræddur í skólanum.

Samkvæmt niðurstöðum margra rannsókna bendir flest til að streita í barnæsku, vegna fátæktar eða misnotkunar, geti leitt til hjartasjúkdóma og bólguvandamála, og flýti fyrir öldrun frumna.

Sem merkir að fátæk börn halda að sjálfu sér áfram að vera baslandi, hrætt og fátækt fólk. Fæddist inn í stétt sem engin leið er út úr án hjálpar. Baggi alla tíð.

Á fréttavef BBC er vitnað í breskan sérfræðing sem segir æ fleiri vísbendingar bentu til að streita á æskuárum hafi líkamleg langtímaáhrif.

OMG. Getur þetta staðist?

Í einni rannsókninni skoðaði hópur rannsakenda hjá Pittsburgh háskólanum tengsl milli fátæktar í æsku og fyrstu merkja um hjartavandamál hjá 200 heilbrigðum unglingum.Þeir komust að því að þeir unglingar sem komu frá verst settu fjölskyldunum voru með stífari kransæðar og hærri blóðþrýsting en hinir í hópnum.

Vissuð þið að það eru bein tengsl á milli fátæktar og lífsgæða? Hahahahaha!

Þá leiddi rannsóknin í ljós að börn frá fátækari heimilum voru líklegri til að finnast nokkur tilvik stríðni meðal félaganna vera ógnandi aðstæður.Þau voru líka með hærri blóðþrýsting og hraðari hjartslátt og voru fljótari til að reiðast og sýna fjandsamlega varnartilburði en önnur börn.Að sögn Karenar Matthews, prófessors í sálfræði sem leiddi rannsóknina, eru niðurstöðurnar í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið um sama viðfangsefni.

Er það bara ég sem get séð fyrir mér hrætt ungviði. Lömb, hvolpa, kettlinga, kiðlinga, gríslinga, kálfa, folöld, andarunga og börn. Það þarf lítið til þess að styggja hrætt ungviði. En ef maður er góður við það, verður til traust.

Óöruggar aðstæður og streitukennt umhverfi leiði til þess að börn verði ofur varkár gagnvart því sem þau túlka sem ógn.„Þannig verða samskipti þeirra við annað fólk uppspretta mikillar streitu, sem eykur blóðþrýsting, eykur álag á vefi líkamans og notar upp forðabúr líkamans.“Slíkt eykur áhættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Mér skilst að það sé mælanleg fylgni á milli fátæktar og vannæringar. Vannæring getur skýrt andlegt getuleysi. Sem og líkamlegt.

Önnur rannsókn sýndi fram á að dauði foreldris eða misnotkun í æsku geti gert fólk viðkvæmara fyrir streitu á fullorðinsárum og jafnvel stytt líf þess

Á heildina litið er sumsé búið að sanna það loksins vísindalega að við verðum að vera góð við hvort annað og skilja engan útundan. Teygja höndina inn til þeirra sem eru villtir í myrkrinu og þjást og leiða þá út í ljósið.


Sunday, August 15, 2010

Hin eilífa hringrás orku og massa
Ég hef það fyrir venju að vilja hafa yfirborð hlutanna slétta og fellda. Þannig að það virðist sem álfar fljúgi um hýbýli mín og geri fínt. Þetta er mjög fljótleg og góð aðferð til þess að líða vel heima hjá sér og auðvelt að setja allt aftur á sinn stað. Það sem á engan sinn stað, fer inn í skáp og oní skúffu. Smekklegt.

En það skapar auðvitað vandamál með tímanum. Á endanum er skúffan að verða full og tímabært að vinna þetta niður. Hjá mér er það svona einu sinni í mánuði. Og þá flokkar maður og raðar í einn dag. Næstu daga klárar maður svo að þrífa, allt. Almennilegt.

Ég er akkúrat stödd þarna í bilinu á milli þess að flokka og raða annarsvegar og þrífa hinsvegar. Sorglegt.

Heimasætan er að koma heim í kvöld. Eins gott að allt sé fínt og fallegt þá. Enda hefjast skyldur hennar sem Heimasætu og sambýling og dóttur, þá, að hafa allt fínt. Í samvinnu við alla hýbýlinga. Þægilegt.

Það er grenjandi rigning og ég þarf að fara út í búð og kaupa kattarmat. Kettirnir eru eins og legghlífar utan um fæturna á mér. Malandi en svangir. Tenten er óþekk og hendir hlutum í gólfið. Hún hendir aldrei neinu sem gæti brotnað. Merkilegt.

Herra Hafnarfjörður var að vakna. Það er til merkis um náttfatapartíið okkar í gær. Í boði fm957.
Við erum svo ótrúlega lík að það er stundum soldið skerí. En samt ótrúlega dásamlegt, að geta horft á barnið sitt og vitað hvað það hugsar. Ótrúlegt.

En svona þegar líður á daginn ætla ég að bjóða honum upp á ís. Þá verður hann búinn að fara út með ruslið, hlaupa út í búð og ganga frá dósunum. Tjékk. Og þá þarf ég bara að skúra og þvo þvottinn. Fræðilegt?

Sjáum til.

Ég sendi ykkur öllum ástarkveðjur.

Þeir sem þora mega taka áskoruninni að taka einungis tilfinningalegar ákvarðanir í einn dag. Láta hjartað ráða í öllum tilfellum. Það er mun erfiðara að vera góður en gáfaður.

Friday, August 13, 2010

Eins og ástandið er fyrir botni Miðjarðarhafs
Það er allt að fara til Andskotans og æskan er orðin vitlaus. Og þannig hefur það alltaf verið. Allavega síðan Aristóteles var að digga pælingar. Og hvað með það?

Ef einhver hefði sagt mér að árið 2010 yrðu kettir viðraðir við taum og við ætluðum kannski að selja auðlindir okkar í hendur okurlánara og sækópata, hefði ég nú sennilega hlegið. Allavega árið 1990. Jú og líka 2000. Þetta er núna alveg að fara að verða fyndið í fáránleika sínum.
.
En svo fór ég að prjóna.

Ég held að garðaprjónn geti komið lagi á orkuójafnvægi í fólki og hýbýlum. Svei mér þá.

Og svo er ég líka að fá líkur á heilann. Aðallega fáránlegri notkun á þessum fræðum.

Hnuss...

En hvað með það?
Notið helgina í eitthvað skapandi og skemmtilegt svo þið fáið öll blómstrað.

Sunday, August 8, 2010

Hugleiðing
Ég er búin að vera að pæla svo svakalega að undanförnu. Ég ákvað að reyna að taka greindina á þetta og það hefur kennt mér að greindin ein er ekki lykillinn að hamingjunni. Einhvernveginn hefur heimurinn bara verið að batna með mér eftir því sem ég Zenjóga þetta. Ég er farin að óttast að þetta endi með stofnun nýs trúfélags eða vitavarðastöðu í Langtíburtistans. Ég er nefnilega farin að flokka einstaklinga jafnt sem eintök af tegundinni Sapíens.

Það er alveg merkilegur andskoti hvað þessi afkomuhæfileiki okkar, þekkingarþorsti, vill flækjast fyrir okkur. Það eina sem allar lífverur Jarðar (og sennilega allsstaðar) eiga sameiginlegt er að vera hannaðar til þess að komast af. Ef lífverur breytast ekki með tilliti til heimkynna og aðstæðna, deyja þær út. Sorglegt. Og kannski höfum við þróað með okkur þennan þekkingarhæfileika til þess að komast af? Hausinn á mér er eins og kvikmyndaver með athyglisbrest.

Sjáum fyrir okkur akur. Sjáum gullið kornið vagga í vindinum. Sjáum fyrir okkur mömmu með tvö börn sleppa nokkrum hamstaungum í akurinn í nafni dýraverndunar. Fallegt. Sjáum hamstraungana dafna og vaxa og fjölga sér í stjórnlausri krúttveröld. Sjáum akurinn visna og deyja. Sjáum svo fyrir okkur börn bóndans reyna að sofna á tóman maga. Og feitan kött þvo sér í sólinni.

Hvaða lærdóm má draga af sögunni?

Kannski er sapíens hamstraungi? Kannski er þekkingu okkar ætlað að koma okkur héðan og yrkja ný heimkynni. En við verðum að átta okkur á því að kannski er okkur ætlaður þroski að fara vel með heimkynni okkar svo þau endist okkur í þekkingarþroskanum. Við vitum ekki ennþá hvert eða hvernig við ætlum að fara. En við vitum að plánetan okkar er á tíma. Þegar þar að kemur. Við höfum verið til í okkar mynd í u.þ.b. 130 þús. ár. Erectus var hér í 1.6 mil. ár. Og við höldum að við séum alveg með þetta amk. miðað við þá? Og klukkan tifar.

Og kalliði mig bara geðveika.