Friday, November 13, 2009

Steingeitin

EINKENNI
Lykilorð: Metnaður
Pláneta: Satúrnus
Höfuðskeppna: Jörð
Litur: Svartur, dökkgrár
Málmur: Blý
Steinar: Svartur ónyx, obsídían
Líkamshluti: Hné, liðamót, húð, bein

Frægar steingeitur
Davíð Oddsson, Nicolas Cage, Ólafur Skúlason, Nixon, Henri Matisse, Janis Joplin, Mao, Bjarni Felixson, Anthony Hopkins og Denzel Washington.

STEINGEIT
Steingeitin rennur oftast saman við fjöldann, því hún er bæði hógvær í klæðaburði og framkomu. Steingeitur skeyta lítið um tískufyrirbæri og klæðast oft íhaldssömum, dökkum fötum úr vönduðu efni, jafnvel þegar þær fara í samkvæmisskrúðann.
Þær eru iðjusamar og þægilegar í viðmóti, vinna skipulega að langtíma markmiðum og stefna að því að öðlast viðurkenningu og virðingu fyrir erfiði sitt. Steingeitin er þolinmóð og yfirleitt metnaðargjörn, einræn og seintekin, en trygg vinum sínum og fjölskyldu og mjög áreiðanleg í öllum samskiptum.
Veraldleg gæði, vegtyllur og vald skipta Steingeitina miklu máli og hún er íhaldssöm á umhverfi sitt og á bágt með að sætta sig við breytingar. Steingeitinni lætur best að vinna þar sem hún getur hækkað í stöðu, en ef hún starfar innan stjórnmálaflokks, hentar henni betur að aðrir standi í sviðsljósinu á meðan hún hefur sjálf töglin og hagldirnar á bakvið tjöldin. Í íþróttum heillast hún yfirleitt af greinum, þar sem hún þarf að sigrast á erfiðleikum, t.d. fjallgöngum eða skíðagöngum.
Steingeitinni hættir til að halda óþarflega mikið aftur af tilfinningum sínum og sjálfsagi hennar og sjálfsafneitun gengur oft út í öfgar. Hún ætti að reyna að vera næmari á þarfir annarra og tilfinningar og losa sig við stífni og óþarfa hlédrægni, en það stafar oft af erfiðri æsku.


Og þá er það á hreinu...

Góða helgi

Thursday, November 12, 2009

Hinir "Brjálæðislegu ofurskattar"

Þeir sem eru með 150.000 kr. í mánaðalaun borga 1.650 kr. minna.

Þeir sem eru með 300.000 kr. í mánaðarlaun borga 800 kr. minna.

Þeir sem eru með 400.000 kr. í mánaðarlaun borga 3.100 kr. meira.

Þeir sem eru með 600.000 kr. í mánaðarlaun borga 16.900 kr. meira.

Þeir sem eru með 1.000.000 kr. í mánaðarlaun borga 32.500 kr. meira.

Afsakið, en ég hef aldrei á æfi minni séð eins réttláta skattlagningu

Fyrir 1650 kr. mínar ætla ég að kaupa mat í Bónus

Lengi lifi brjálæðislegir ofurskattar

Wednesday, November 11, 2009

Neyðin kennir naktri konu að spinna

Mamman og Heimasætan


Þannig fór um sjóferð þá:

Ég skrapp til Ítalíu að athuga hvort allt væri ekki við hestaheilsu og hamingju. Fann þar allt og alla í gúddí fíling og næslegheitum.

Innbyrgði svo geysilega menningu í Feneyjum að kalla má hálf-frelsun og svo má ekki gleyma að nefna alla söguna, arkítektúrinn, mannlífið, náttúruna, dýralífið, verzlanirnar, matinn og Guð.
Ég held að Guð búi á Ítalíu. Allavega virðist fólkið vera í svakalega góðum tengslum við hann þar.

Og mér opnuðust augu. Á norður Ítalíu virðast allir vera fallegir, bótoxaðir, grannir, ríkir og hamingjusamir. Velmegun Guðs kristallast í Péningum og allir gasalega happí með það, meira að segja þó svo að Cosa Nostra og Berlusconi ráði til helmings við Páfa-gaukinn í Róm. En sennilega eru þeir allir vinir.

Mér var lengi ekki ljóst hvaðan allir þessir peningar og hamingja komu. Ekki frá landbúnaði eða sjávarútvegi. Ég sá ekki eitt einasta tölvufyrirtæki. Ég trúði ekki að landinn lifði á tísku, ölgerð eða bankaútrás. En þá fór ég í ferðalag.

Og ég sá hvaðan peningarnir komu. Þeir koma frá kjarnorkuvæddum þungaiðnaði og eiturefnagerð. Sæll.

Við þessa hugljómun kom ég mér upp nýrri skoðun:

Þeir sem vilja vera ríkir eins og í góðæri hérna heima við sundin blá, verða að gleyma því að eiga hreint land. Verða að gleyma því að Evrópusambandið lappi upp á efnahaginn (Ítalir eru í því), verða að átta sig á því að peningarnir verða til með framleiðslu og útflutningi. Og þá dugar hvorki hreindýramosi né íslensk hönnun.

Gaman að því.

Guð veri með ykkur