
Það er alltaf svolítið vandræðalegt þegar verið er að ljúga að manni og maður veit það. Maður verður að meta það hvort borgi sig að fronta lygamörðinn eða hvort maður er einfaldlega orðinn svo vanur að hlusta á sama bullið og svo löngu búinn að gefast upp á því að benda viðkomandi á þá staðreynd að hann sé í besta falli að bulla og versta falli að fremja glæp.
Vandræðaástandið í þjóðfélaginu hefur gefið opinberum krappkjöftum byr undir báða vængi. Hver einasti stjórnmálamaður í landinu veit ósköp vel að það er ekki hægt að búa til þúsund störf fyrir iðnaðarmenn. Það er einfaldlega ekki þörf fyrir meira húsnæði. Það er heldur ekki hægt að búa til þúsund bankastörf, starfsmenn í fjármálageiranum voru orðnir allt of margir. Það er heldur engin von á þúsund störfum í þjónustugeiranum, jafnvel þó ferðamennska sé að aukast. Og að lokum verða ekki byggð nein álver. Álverð er í sögulegu lágmarki, ekki til peningar til að virkja og álrisarnir ekki í neinum stækkunarhugleiðingum.
Það blasir við Íslandsmet í niðurskurði. Ég reikna með að heilbrigðis og menntakerfið fari verst út úr því. Ég reikna með að fátækar barnafjölskyldur verði látnar borga brúsann eftir fyllerí sem þær misstu af. Ég reikna með að Vinstri grænir svíki kjósendur sína jafn hraustlega varðandi umhverfismál eins og Evrópusambandsaðlild. Ég á von á því að Samfylkingin sé jafn fyllilega bjargarlaus varðandi efnahagsástandið eins og þegar Geir bað Guð að blessa Ísland.
En þrátt fyrir þetta er ég bjartsýn. Þó svo að ég viti að hið opnbera sé jafn hjálparvana og íslenskur öryrki hef ég fulla trú á íslensku þjóðinni. Við látum ekki deigan síga. Við komum til með að skapa ný störf með framsýni og skapandi hugsun. Við munum standa þetta af okkur, rétt eins og við stóðum af okkur kúgun Dana, pestir, eldgos og frostavetur. Sprotar nýja Íslands eru nú þegar teknir að teygja sig í átt til sólar með nágungakærleika, gildismati sem forfeður okkar treystu í þúsund ár og gafst vel.
Með því að horfast í augu við þá staðreynd að kærleikur, bræðralag, heiðarleiki, dugnaður, kjarkur og auðmýkt gerir okkur sem einstaklinga og þjóð að óvinnandi sigurvegurum.
Guð blessi Ísland.