Sunday, May 31, 2009

Gleðin ríður vart við einteyming
Þetta var ein af þessum ofurhelgum með framkvæmdagleði í farteski. Veiðiferð, kreppukaffi, leikhús, veisla a la Indland og allskonar.
Mér líður bara svo ljómandi vel þessa dagana og alveg án þess að vera maníubiluð og ósofin. Sef eins og urtubarn á útskerjum um leið og ég leggst á koddann og vakna fyrir hádegi eins og venjulegt fólk. Trallalæ.

Ég held bara að lífið sé nákvæmlega eins erfitt og maður sjálfur ákveður, að minnsta kosti þegar örlögin eru lítið sem ekkert að skipta sér af.

Ég bið að heilsa eftir Inga Té í dag, enda er hann að austan og þangað ætla ég að bruna í fermingu innan tíðar.

Gleðilegt sumar, enn og aftur.

Sunday, May 24, 2009

Sumargleði
Það er verulega hughreystandi að vera að vinna í lúgusjoppu þegar svínaflensan er mætt. Allavega ætla ég ekki að láta hugfallast og mæta í vinnuna klukkan fimm og sjö, níu, þrettán.

Hélt þetta líka bráðfallega kaffiboð á uppstillingardag og frétti af óléttum og barnagleði í allar áttir.

Langar svo að bjóða til sölu vel með farinn og glæsilegan þurrkara frá Ariston, tekur sjö kíló og ef þú hefur ekki átt þurrkara get ég lofað því að hann verður nýi besti vinur þinn...

Halelúja

Tuesday, May 19, 2009

Svala Drullfinns
Ég óð eins og flóðhestur með gyllinæð út á svalir í gær að endurheimta þau svæði á vesturbakka íbúðarinnar sem hertekin hafa verið af einnota drykkjarumbúðum.
Ekki var einskismannsland unnið á einni nóttu og seinnipartinn klára ég seinnipartinn. Og á þá þrjá glæsilega fermetra af sól og blíðu sem þarfnast blóma, borðs, grills og stóla.

Það sem er svo gasalega sniðugt við þetta alltsaman er að ég sé fram á slíkt ríkidæmi af þessum dugnaði að ég get hæglega fjárfest í blómum, stólum, borði og grilli.

Jibbíkóla-alkóhóla!

Monday, May 18, 2009

Jáhm...
Hvað er svo títt af tíkarskarinu?

Allsherjarhreingerning, geðtruflað nostalgíu evróvisjónpartý, Nasa, veiðistangir, vinna, út að borða, skrabbl og Rojalbúðingur komu við sögu um þessa líka dááásamlegu helgi.

Í núinu svífur húsfreyja um salarkynnin með nýlakkaðar neglur og höfuðið vafið í baðmullarklæði eftir slökunarbað. Hún dreypir annars hugar á heitu súkkulaði með rjóma og reynir að muna hvaða verkefni það eru sem skulu forgangsraðast með nýrri viku. Kisurnar keppast um að þvo hvorri annari í bjarmanum af vanillukerti sem lýsir upp skál með pistasíuhnetum.

Og þrátt fyrir kreppu blása nýustu tölur Kaupþings lífi í ryðguð hjól efnahagskerfis Eyrúnar en þessi kona ávaxtaði einu bankainneign sína um 21.7% árið 2008. Jíííí-haaaah!

Áfram Ísland og Guð veri með ykkur.

Thursday, May 14, 2009

Aumingja kisa
Vesalings kisa litla fór í aðgerð í gær. Var skorin upp og gerð ófrjó. Hún hafði grátið nær stanslaust í tvær vikur af skorti á viljugu fressi en er þögul sem gröfin í dag. Ég held að henni líði miklu betur. Spurning hvort maður ætti að prófa þetta sjálfur og athuga hvort maður verði sáttari með karlmannsleysið?

Framundan er besta helgi ársins. Júróvisjón-helgin. Mér þætti vel við hæfi að gera hana að þriggja daga helgi með rauðum dag öðru hvoru megin við sig. Það gæti aukið líkurnar á því að komast í Evrópusambandið. Á þessu heimili verður haldið partí að hætti Moi með blöðrum og ljúfengum veitingum.

Ég óska landsmönnum til hamingju með Jóhönnu, hvort sem það er Guðrún eða Sigurðardóttir, og vona að allir hafi það gott og glatt á hjalla...

Monday, May 11, 2009

Tekið til hendinni
Það er alltaf svolítið vandræðalegt þegar verið er að ljúga að manni og maður veit það. Maður verður að meta það hvort borgi sig að fronta lygamörðinn eða hvort maður er einfaldlega orðinn svo vanur að hlusta á sama bullið og svo löngu búinn að gefast upp á því að benda viðkomandi á þá staðreynd að hann sé í besta falli að bulla og versta falli að fremja glæp.

Vandræðaástandið í þjóðfélaginu hefur gefið opinberum krappkjöftum byr undir báða vængi. Hver einasti stjórnmálamaður í landinu veit ósköp vel að það er ekki hægt að búa til þúsund störf fyrir iðnaðarmenn. Það er einfaldlega ekki þörf fyrir meira húsnæði. Það er heldur ekki hægt að búa til þúsund bankastörf, starfsmenn í fjármálageiranum voru orðnir allt of margir. Það er heldur engin von á þúsund störfum í þjónustugeiranum, jafnvel þó ferðamennska sé að aukast. Og að lokum verða ekki byggð nein álver. Álverð er í sögulegu lágmarki, ekki til peningar til að virkja og álrisarnir ekki í neinum stækkunarhugleiðingum.

Það blasir við Íslandsmet í niðurskurði. Ég reikna með að heilbrigðis og menntakerfið fari verst út úr því. Ég reikna með að fátækar barnafjölskyldur verði látnar borga brúsann eftir fyllerí sem þær misstu af. Ég reikna með að Vinstri grænir svíki kjósendur sína jafn hraustlega varðandi umhverfismál eins og Evrópusambandsaðlild. Ég á von á því að Samfylkingin sé jafn fyllilega bjargarlaus varðandi efnahagsástandið eins og þegar Geir bað Guð að blessa Ísland.

En þrátt fyrir þetta er ég bjartsýn. Þó svo að ég viti að hið opnbera sé jafn hjálparvana og íslenskur öryrki hef ég fulla trú á íslensku þjóðinni. Við látum ekki deigan síga. Við komum til með að skapa ný störf með framsýni og skapandi hugsun. Við munum standa þetta af okkur, rétt eins og við stóðum af okkur kúgun Dana, pestir, eldgos og frostavetur. Sprotar nýja Íslands eru nú þegar teknir að teygja sig í átt til sólar með nágungakærleika, gildismati sem forfeður okkar treystu í þúsund ár og gafst vel.

Með því að horfast í augu við þá staðreynd að kærleikur, bræðralag, heiðarleiki, dugnaður, kjarkur og auðmýkt gerir okkur sem einstaklinga og þjóð að óvinnandi sigurvegurum.

Guð blessi Ísland.

Saturday, May 2, 2009

Cris Cornell er bara sætur
Jæja góðir landsmenn til sjávar og sveita.

Fátt er svo með öllu gramt að eigi boði nokkra gleði. Nú þegar sonurinn hefur verið krýndur skákmeistari Reykjavíkur og dóttirin er á leið á óséð stefnumót (á bókasafni) er ekki hægt að vera í fýlu. Svo er ég líka búin að kaupa mér bíl í kreppunni og hef þessa líka fínu vinnu til að drepa tímann. Hvernig er hægt annað en fagna mávahlátrinum við tjörnina og plotta skemmtireisu í garð húss og dýra.

Eins og í gamansögu eftir Dabba feita líð ég um salarkynnin og töfra fram hreinlæti í hverju horni með ívið lengri sprota en Harry Potter hefur í fórum sínum og ilmurinn af nýþvegnum þvotti blandast lokkandi vanillukertailmi úr IKEA.

Lífið er stutt og dauðinn þess bogun, gleðjumst í dag og aftur á morgun.

Heydo alla flyckar och so videre...