Monday, March 30, 2009

Út um græna grundu, gakktu hjörðin mín.

Við reddum kreppunni a la Ísland!

Það er löngum ljóst að íslenzk alþýða kann að bjarga sér. Er vægast sagt á heimsmælikvarða þó ekki sé annað en veðrið hérna á klakanum.
Við erum flink í handbolta, fegurðarsamkeppnum, skáldsagnaritun, sjómennsku og jaðartónlist. Og við erum flink í að svindla með peninga og búa til eiturlyf. Það er nú bara þannig. Mér skilst á fréttaflutningi að spíttverksmiðjan í Hafnarfirði hafi verið með svo miklum ágætum að erlendir sérfræðingar fengu hroll þegar þeir sáu hugvitið. Svo má líka ætla að allar þær grasverksmiðjur sem hafa verið gerðar upptækar beri eigendum sínum allsvakaleg merki þess að kunna að bjarga sér OG svindla með peninga. Vá!

En, hvað ef við myndum bara lofa þessu að vera löglegt?

Svar 1. Allt færi þráðbeint til Helvítis.

Svar 2. Jafnvel þó að bara helmingurinn væri talinn fram, væru upphæðirnar svo stjarnfræðilegar háar að útrásarvíkingar og seðlabankastjórar fengu standpínu. Hugtakið erlend lán myndi varla fyrirfinnast næstu hundrað árin. Ísland myndi verða fyrsta græna landið þar sem öll ræktun er lífræn. Rafmagnsbílar væru niðurgreiddir af ríkinu, besta velferðarkerfi í heimi. Fríar tannlækningar, frítt háskólanám, þriggja daga helgi, orðið biðlisti yrði lagt niður.
Ferðaþjónusta myndi þúsundfaldast. Gjöriði svo vel og látið yður dreyma...

Hvað svo stjórnvaldið myndi gera við peninginn er vert að hugsa um núna fyrir kostningar. Veltum því aðeins fyrir okkur hvað varð um strit og erfiði kynslóða við sjávarútveg og sáu til þess að fólk fékk að borða? Allir þessir peningar sem íslenzk alþýða hefur fórnað lífi og limum fyrir síðustu hundrað ár?

Það voru örfáir glæpamenn sem sátu á valdastóli sem sólunduðu þjóðarauðnum og það er mín skoðun að það eigi að dæma HVERN EINASTA fyrir landráð.

Takk fyrir.

Monday, March 23, 2009

Ég held

...að eins og sakir standa, á alheimsvísu, að nú sé kominn tími á að konur stjórni þessari plánetu.

Karlmennirnir eru bara búnir að klúðra þessu.

Thursday, March 19, 2009

Biðin langa....og ég beið og ég beið og ég beið.

En það var ekki hringt í mig. Og þessvegna er hjarta mitt brotið og augun þurr og bólgin. Ég var alveg með það á hreinu innst inni að ég hefði markað einhver spor, en svo virðist ekki vera. Ég var ein til. Og mér finnst ég vera eins og tyggjó sem einhver hefur klístrað ofan í öskubakka.

En það er ekki eins og ég hafi gert ráð fyrir að þetta lukkaðist. Miklu frekar eins og að kaupa miða í víkingalottóinu og vona það besta.

Hlutskiptið er skárra en Bólu-Hjálmars en lífið kennir. Ég verð bara að læra að búa með mér og þykja það dásamlegt. Enda er ég ekkert rosalega leiðinleg, held ég...

Meira að segja alveg ágæt bara...

Guð blessi mig í dag

Monday, March 16, 2009

Allra jafna

...léti ég veðrið ekki fara í taugarnar á mér, en önnureins fjölviðris kuldasúpa og boðið er uppá þessa dagana er farin að höggva skörð í jafnaðargeðið.

Ég hef það annars fínt, ætti ekki að vera að kvarta, enginn lofaði vori í mars. Enda hefði það verið stjúpid.

Andleysið svífur yfir vötnum...


Friday, March 13, 2009

Klepptækur
Nú er ekkert framundan nema vinna vinna vinna...

Sem er gott í kreppunni ef maður vinnur sig ekki vitlausan. Ég ætla allavega að stilla allri félagsiðju í hóf næstu vikuna. Meika hreinlega ekki meira en vinnuna svona rétt á meðan törnin endist.

Og í gegn um búkollustækju og djúpsteikingarbrælu berst mér glansmynd af sjálfrennireiðinni sem verður mín í júní.

Framtíðin er björt, nútíðin er lala og fortíðin er liðin.

Elska ykkur öll!

Wednesday, March 11, 2009

Auglýsingaskrum
Ég hef komist að því að ég er engan veginn í sambandi við húmor ársins 2009.

Hinar nýju auglýsingar Símans bera þess gott merki. Til dæmis er dagskrárliðurinn ólympíuleikar aldraðra á Kanaríeyjum eitthvað sem ég myndi ekki missa af. Sjáið fyrir ykkur spretthlaup kvenna 80+ ára? Hindrunarhlaup og hástökk. Þetta yrði sennilega eini íþróttaviðburður sjónvarpssögunnar sem ég myndi límast við frá upphafi til enda.

Og svo myndi ég hiklaust velja ævintýramyndina um inúítann sem rekur á kajak sínum til Svalbarða fremur en Confessions of a shopaholic...

Það er nú bara þannig...

Monday, March 9, 2009

Og helgin er á enda

Það var líf í tuskunum á þessu heimili um helgina. Heimasætan og Mikki kúrðu í móðurhúsum og Nóa litla kom og gisti hjá okkur. Við spiluðum skrabl og horfðum á meistarastykki Almandovar, Volver, og troðfylltum okkur af menningu.
Frábær helgi og batteríin fullhlaðin fyrir vinnutörn næstu tveggja vikna.

Heilsan hefur verið með besta móti síðastliðnar vikur og er enn, ef frá er talin stóreinkennileg bólga í vinstrihlið efrivarar. Ég lít út eins og einhver hafi kýlt mig í andlitið en kannast enganveginn við neinsskonar skakkaföll. Þetta nýja andlitslýti hefur kveikt hinar ýmsustu spekúleringar og er ég helst á því að þetta sé karmabólga af einhverri sort.

Að lokum langar mig að senda hugheilar samúðarkveðjur til allra sem sakna hans Konna á Húsum. Þar kveður drengur góður og spakur og víst er að mín menntaskólaganga hefði ekki verið eins ef hans hefði ekki gætt þar á göngum.

Guð blessi þig Hákon Aðalsteinsson og þakka þér fyrir öll góðu augnablikin og hlýjar minningar frá menntaskólaárunum.

Wednesday, March 4, 2009

Jah! Svei mér þá
Ég er ennþá hálf flissandi eftir að hafa verið inni á Feisbúkk og séð stadusinn á Eiríki Brynjólfs:

Lets Play Carpender, First We Get Hammered Then I Nail You !!

Bwaaahahahahaha!

Lítið gleður vesælan eins og þar stendur...

En að öðru og öðruvísi. Það eru mánaðarmót og krepputaugadrullan í stjarnfræðilegri þenslu. Sé samt fram á að geta hugsanlega keypt mér sjálfrennireið í júní ef ég verð jafn mikil hagsýnishúsmóðir og síðustu mánuði. Endilega látið mig vita ef þið vitið um skrjóð sem kostar næstum ekkert og bilar aldrei. Myntkörfulán vinsamlegast afþökkuð!

Ég var að finna skyndihjálparskírteinið mitt. Sem er svosem ekki í frásögur færandi nema að ég drap blessaða dúkkuna í prófinu, svo ég skil ekki hvers vegna ég var útskrifuð í þessu. Hreiðar Gíslason skrifaði allavega upp á þetta. Ég rak augun í málsgrein neðst aftan á bleðlinum sem sagði að réttast væri að endurtaka námskeiðið eftir tvö ár.... Það hefði þá átt að vera 1992....

Nú er algerlega rétti tíminn til þess að ganga í Ársæl og læra þetta drasl almennilega með hjálp manna á stórum jeppum sem fara á fjöll og eru sterkari en ég.... mmmm....

Læt mig dreyma heima!

Monday, March 2, 2009

Þakkargjörð
Og akkúrat þannig líður mér í dag...

Sunday, March 1, 2009

Bjórinn

Áður mátti ekki neitt
undir valdsins hæl
En bótagjörð svo fékk því breytt
að byttan brosti sæl.

Kneifðu loksins öl á krá
kappar stórir, smáir
Áratuga þrautar þrá
þreyttir voru fáir.

Fyrst var einn og annar til
ó, mín flaskan fríða
Þriðji fauk og fjórða vil
fljótt og ekki bíða.

Ljóst var strax og leifðist öl
landinn drykki meir
Afleiðingin, bjórsins böl
beiskir sopar þeir.

Hér var áður yndi vort
oft um kvöld að eira
útúrdrukkin laus við skort
Þarf svo eitthvað fleira?

Hátt á himnum leika sér
hæstir guðir saman,
heyrum hvernig er, og fer
Helvíti er gaman.

Djúpt í viðjar drykkjuböls
dregnir voru senn
sukku burt í sinni öls
sómakærir menn.

Drekkur eigi dropa sá
sem dánumaður er
En drykkjusvínin ekki sjá
sæmd, er hægan þver.