Það liggur fyrir að Hannesarvörnin góða sé sama stropið og téður Hannes hefur haft tilhneygingu til að æla yfir þjóðina í tíma og ótíma síðustu ár. Blindar bókstafstrúarhugmyndir sem ekki standast grundvallarhugmyndir manna um alheiminn.
Það verða ekki til peningar úr engu. Frekar en súpa af nagla.
Nú þegar menn eru í rólegheitum að átta sig á því að súpan góða er næringarlaus og lítt stemmandi er ekki úr vegi að spökúlera aðeins í því hvað við eigum sem ekki er einskis virði.
Fiskur
Við verðum að auka verðmæti sjávarafurða með fullvinnslu hráefnis og skapa þannig störf fyrir landann. Þetta hefur legið ljóst fyrir frá því að fyrsti gámurinn fór héðan til fullvinnslu á erlendri grundu.
Landbúnaðarafurðir
Við verðum að tryggja að íslenzkar landbúnaðarvörur séu samkeppnishæfar og útflutningur landbúnaðarvara hefur aldrei verið eins mikilvægur og einmitt nú. Aukin skilvirkni og aukin vinnsla á landbúnaðarvörum er gullnáma sem við verðum að læra að nýta hérlendis. Danir kunna þetta og ekki úr vegi að fá þá til samvinnu með þennan málaflokk.
Ál
35% af veltu álrisanna verður eftir í landinu. Reynum að draga úr geðshræringu þjóðarinnar og þökkum pent fyrir að þessir auðvaldsterroristar settust að hér.
Hugvit
Ég er enginn sérfræðingur um hugvit enda hugvit-laus. En segja mér fróðir menn að með rækt við þau sprotafyrirtæki sem eru að vinna að útflutningi á hugviti megi bæði skapa gjaldeyristekjur og störf fyrir menntað fólk. Allt í lagi að skoða það aðeins.
Skógrækt
Er framtíðarhugsjón með aur við sjóndeildarhringinn. Það er hægt að rækta peninga og það er pláss fyrir tré á Íslandi. Tilvalinn hugmynd að atvinnubótavinnu. Vistvæn, hnattvæn og náttúruleg leið til þess að skapa verðmæti. Bæði fyrir ferðaþjónustu og timburframleiðslu í framtíðinni. Lengi lifi Fljótsdalshérað!
Grænmetisframleiðsla
Það má með litlum tilkostnaði rækta hérlendis nægilegt grænmeti fyrir landann allan og jafnvel Skandinavíu líka. Það er alltsaman spurning um pólitískan vilja. Við eigum orkuna, viljum við nota hana til þess að skapa tekjur eða viljum við bara selja öðrum hana til stóriðju? Fyrir slikk, nóta bene..
Ég læt þetta nú bara duga á þessum föstudegi þrettánda. Allt í lukkunar velstandi og börn og bura væntanleg í móðurfaðm. Er á mörkum maníu þessa dagana og þessvegna einhvernveginn allt að gerast, en á meðan almenn geðveiki er innan skekkjumarka er yfir fáu að kvarta.
Guð blessi ykkur hvort sem ykkur líkar betur eða verr...
Góða helgi.