Saturday, February 28, 2009

Heima er bezt



Ég er komin heim úr skattaparadísinni Bifröst þar sem Sigurður Líndal svífur yfir vötnum og meðalgreindir háskólanemar sjúga þumalinn í sturtunni þegar félagaréttur og arðsemisgreining stingast eins og prjónar í gegn um mjúkan heilabörkinn. Ég er ekkert smá stolt af henni systur minni að vera að meika þetta sull eins og ekkert sé.

Ég braut blað í sjálfri mér þegar ég fjárfesti í fyrsta dvd disknum handa sjálfri mér í dag. Í Nexus. Sumsé fjárfesti í 35 þáttum af Klaufabárðunum sem heita víst Pat & Mat. Uppá tékknezku geri ég fastlega ráð fyrir. Kvöldið lítur því býsna vel út þar sem Heimasætan gerði líka reyfarakaup í The melancoli of Haruhi Suzumiya, allri fyrstu seríu.

Jæja, það er bezt að hundskast í ljós, maður fær víst ekki húðkrabba af sjálfu sér, er það?

Kærlig hilsen

Friday, February 20, 2009

Orlof

Ég er á leiðinni í orlof. Vestur í Borgarfjörð. Það vill svo til að taugar mínar eru með viðkvæmara móti og í stað þess að fara í heilsubótarferð á Frönsku Rívíeruna (sem ég hef ekki alveg efni á) ætla ég að láta Borgarfjörðinn duga. En þar er að finna ókeypis heilsurækt, hollan og góðan mat, andlega uppbyggjandi félagsskap og fallegu litlu stelpuna mína sem ég sakna á hverjum degi. Ég hlakka svo til .

Vinnan mín er búin að vera svolítið erfið síðustu vikur en núna sé ég fram á að geta hlaðið batteríin og keyrt upp andann og massað upp musteri sálarinnar. Ekki veitir af.

Ég vona að þið hafið það gott um helgina og gangið hægt um gleðinnar dyr..

Guð blessi ykkur.

Wednesday, February 18, 2009

Gleðipillur

Loksins sofnaði ég. Og svaf eins og rotaður rostungur Lengi.

...og þegar ég vaknaði loksins aftur var ég hætt að vera geðveik og rugluð í hausnum og leið aftur eins og kýr að vori. Svona getur góður nætursvefn reynst hið besta meðal við heilastropi og geðbólgu.

Það virkar hinsvegar ekki þannig að kreppuskitan og baslið gufi upp, því miður. Svo ég ætla að fara í vinnuna og vinna að settum markmiðum mánaðarins og vera dugleg og brosandi. Það er nebblega ekkert í heiminum sem ræður því hvernig skapferli mínu er háttað, nema akkúrat ég sjálf. Allir fýlupúkar eru skítapakk sem virðast ekki ná hausnum út úr borunni á sér og halda að heimurinn og tilveran hafi eitthvað með það að gera hvernig boðefni og efnaskipti sullast um í hausnum á þeim. Hnuss!

Bæ ðe vei

...ég EELLSKA júróvisjónlagið í ár.

Guð veri með mér í dag og veiti mér oggoponsu æðruleysi...

Og koma svo!

Tuesday, February 17, 2009

Eins og batterí úr ársgömlum nokiasíma

Ég vildi óska þess að ég væri frekar með gláku og helmingi rangeygðari en þetta...

Monday, February 16, 2009

Það er að hlýna

Þegar veðrið fer að hlýna og daginn að lengja lyftist aðeins á manni brúnin. Ekki satt?

Ég ætla að fara í labbitúr í dag og drekka í mig fyrirboða vorsins.

Friday, February 13, 2009

Naglasúpan

Það liggur fyrir að Hannesarvörnin góða sé sama stropið og téður Hannes hefur haft tilhneygingu til að æla yfir þjóðina í tíma og ótíma síðustu ár. Blindar bókstafstrúarhugmyndir sem ekki standast grundvallarhugmyndir manna um alheiminn.

Það verða ekki til peningar úr engu. Frekar en súpa af nagla.

Nú þegar menn eru í rólegheitum að átta sig á því að súpan góða er næringarlaus og lítt stemmandi er ekki úr vegi að spökúlera aðeins í því hvað við eigum sem ekki er einskis virði.

Fiskur
Við verðum að auka verðmæti sjávarafurða með fullvinnslu hráefnis og skapa þannig störf fyrir landann. Þetta hefur legið ljóst fyrir frá því að fyrsti gámurinn fór héðan til fullvinnslu á erlendri grundu.

Landbúnaðarafurðir
Við verðum að tryggja að íslenzkar landbúnaðarvörur séu samkeppnishæfar og útflutningur landbúnaðarvara hefur aldrei verið eins mikilvægur og einmitt nú. Aukin skilvirkni og aukin vinnsla á landbúnaðarvörum er gullnáma sem við verðum að læra að nýta hérlendis. Danir kunna þetta og ekki úr vegi að fá þá til samvinnu með þennan málaflokk.

Ál
35% af veltu álrisanna verður eftir í landinu. Reynum að draga úr geðshræringu þjóðarinnar og þökkum pent fyrir að þessir auðvaldsterroristar settust að hér.

Hugvit
Ég er enginn sérfræðingur um hugvit enda hugvit-laus. En segja mér fróðir menn að með rækt við þau sprotafyrirtæki sem eru að vinna að útflutningi á hugviti megi bæði skapa gjaldeyristekjur og störf fyrir menntað fólk. Allt í lagi að skoða það aðeins.

Skógrækt
Er framtíðarhugsjón með aur við sjóndeildarhringinn. Það er hægt að rækta peninga og það er pláss fyrir tré á Íslandi. Tilvalinn hugmynd að atvinnubótavinnu. Vistvæn, hnattvæn og náttúruleg leið til þess að skapa verðmæti. Bæði fyrir ferðaþjónustu og timburframleiðslu í framtíðinni. Lengi lifi Fljótsdalshérað!

Grænmetisframleiðsla
Það má með litlum tilkostnaði rækta hérlendis nægilegt grænmeti fyrir landann allan og jafnvel Skandinavíu líka. Það er alltsaman spurning um pólitískan vilja. Við eigum orkuna, viljum við nota hana til þess að skapa tekjur eða viljum við bara selja öðrum hana til stóriðju? Fyrir slikk, nóta bene..

Ég læt þetta nú bara duga á þessum föstudegi þrettánda. Allt í lukkunar velstandi og börn og bura væntanleg í móðurfaðm. Er á mörkum maníu þessa dagana og þessvegna einhvernveginn allt að gerast, en á meðan almenn geðveiki er innan skekkjumarka er yfir fáu að kvarta.

Guð blessi ykkur hvort sem ykkur líkar betur eða verr...

Góða helgi.

Thursday, February 12, 2009

Þér hámenningarstétt

Hnuss!

Ég er búin að fá nóg af því að heyra að smekkur minn á tónlist sé einhvernveginn annarsflokks ef ekki Vondur. Það þykir víst allt í lagi að drulla yfir þá sem hlusta á Fm957 af því það eru hnakkar og ljóskur sem láta fóðra sig hugsunarlaust með auglýsingaskrumi og fjöldaframleiddri tónlist.

En það er bara alls ekki í lagi að gera lítið úr fólki sem hefur annarskonar smekk en aðrir. Ég hef bara ekki verri smekk á tónlist en hver annar.

Máli mínu til stuðnings langar mig að árétta að Allar íslenzkar sveitir sem ætla að meika það erlendis vilja komast í fjöldaframleiðslu, en þær eru oftar en ekki, langt frá því að vera nógu góðar. Stóra meikið hans Magna segir okkur eitt og annað um gæði sveitaballasöngvara. Þeir eru bara helvíti góðir margir hverjir.
Í vinnunni minni er hlustað á Fm957, á öllum sólbaðsstofum sem ég hef komið á í Reykjavík, er útvarpið stillt á Fm957, allir klúbbar spila sömu tónlist og spiluð er á fm957 og svona mætti lengi telja.

Ég held að það sé kominn tími á að þeir sem hlusta á annað en ég, læri að halda kjafti í návist sálar og komist yfir það í eitt skipti fyrir öll að hvorki Björk né Sigurrós verða nokkurntíma eins vinsæl og Justin Timberlake.

Það er nú bara þannig elskurnar.

Monday, February 9, 2009

Davíð

Hann vill ekki fara. Hann ætlar ekki að láta bola sér úr embætti eins og hann hafi gert eitthvað af sér sem miður fór. Og hann mun ekki sættast á neinar málamiðlanir.

Það er af því að hann er hálfviti og drullusokkur.

Því miður!

Er búin að vera að reyna að fá einhvern vitrænan botn í þetta Selabankamál alltsaman en niðurstaðan er svona. Hálfviti og drullusokkur.

En að öðru...

Ég held að ég sé að fá enn eitt geðveikiskstið...

Eða að ég var að fá uppvakningu og hugmynd að hinni fullkomnu hamingju...

Og maður spyr ;
Hvað gera bændur þá?

-en að öðru

Vísindamenn við Cambridge-háskóla hafa þróað nýja aðferð við framleiðslu ljósdíóða sem eiga að geta enst í 60 ár. Boða þeir byltingu sem muni ekki aðeins útrýma glóðarperunni, heldur einnig sparperunni.
Ljósdíóður endast miklu lengur en aðrir ljósgjafar, allt að 50.000 klst., og nota miklu minna rafmagn en þær hafa verið nokkuð dýrar. Nýja uppgötvunin gerir hins vegar hvorttveggja, að lengja enn endinguna og gera framleiðsluna ódýrari. Það er því útlit fyrir að margir þurfi ekki að skipta um peru nema einu sinni á ævinni.

Og það er bæði fróðlegt og áhugavert.

-svo tilkynnist það hér með að ég er hætt að versla við IKEA þangað til þeir láta segjast og hætta að nota fiður og dún af lifandi fuglum, sem eru píndir og sveltir, mér býður við slíkri meðferð á lifandi veru. Og andskotinn hafi það...

Saturday, February 7, 2009

Já, þið segið það?

Hófurinn gnat við hálkunni,
hrossið frat og prjónaði,
eins og krati í embætti
áfram ratar hneggjandi.

Thursday, February 5, 2009

Örstutt um Evrópusambandið

Hvað nú ef Evrópusambandið er ekki þetta vináttu/allir græðafjelag sem sumir tala um heldur:

Meira svona "Sameinuð Evrópa" a la Hitler?

Vegna þess að þannig komast fyrrum heimsveldi eins og Frakkar og Spánverjar aftur til hernaðarlegra valda, og Bretar spyrja sig; Gætum við með Evrópu staðið gegn Rússum og jafnvel Bandaríkjamönnum? Þeir eru enn að hugsa sig um. Haldið þið að þetta snúist um Pundið?

Þeir sem gæla við þá hugmynd að ganga í Evrópusambandið gera jafnan grein fyrir því að við gætum á von á "sérmeðferð" þar inn, hraðsendingu. Og hvers vegna? Maður spyr sig hvort kunn hernaðarlega mikilvæg hnattstaða hafi eitthvað með það að gera.

Ég fæ ógeðshroll og geðspreng við þá tilhugsun að þarna úti gangi um einstaklingar sem eru tilbúnir að selja bæði lagavaldið og dómsvaldið í hendur stríðsherra og gróðabraskara, selja burt sjálfstæðið fyrir hvað?

Sjálfstæða Eurovisionkeppni fyrir vesturlöndin?

Well, fuck you all!

Monday, February 2, 2009

Landið og miðin

Silfur hafsins fyllir Vestmannaeyjahöfn. Sem er gott. Dabbi feiti og fjelagar voru flengdir af Jóhönnu Krataformanni, sem er líka gott. Og svo er líka fallegt að hafa snjó yfir öllu.

Jábarasta lífið er alls ekki svo bangið hér í borg óttans.

Set stefnuna jafnvel á sprikl og sólbað á morgun og bý mig þannig til vorsins sem verður komið áður en málhölt hæna nær að segja: Firni af fiðri í syðra firði.

Og hana nú og Guð blessi ykkur

Sunday, February 1, 2009

Skíðalegt

Það er alvega gasalega skíðalegt þessa dagana. Og einkar sorglegt að eiga hvorki bíl né skíði á svona dögum. Hmmm... Kannski er hægt að leigja sér skíði einhversstaðar og bruna niður brekkur með snúð á vör og glampa í augum.

Eins og í kirkjubrekkunni forðum daga. Guð hvað það var gaman. Jesús Pjetur, eða í Oddskarði og á Fagradal og uppí Fjarðarheiði og meira að segja í Stafdal. Jibbíkóla.

Hmmm... Best að láta sig dreyma