Thursday, October 23, 2008

Terroristi

Ég hef ágætan húmor. Svona í alvöru talað. En mér þykir terroristahúmor Tjalla einum of mikið af því góða. Og kröfur þeirra um stríðsskaðabætur dálítið skrítnar. Var það ekki svo að bissnissmenn dauðans fengu líkt og heima hjá sér að hræra í hinu tjallíska hagkerfi eins og í drullupolli. Bretar settu þeim hvergi stólinn fyrir dyrnar og lögðu meðal annars opinbert fé inn á þessa skítareikninga sem víkingasveit dauðans bauð uppá. Ef hvaða stofnun sem er í Bretlandi má fjárfesta í hverju sem er, fæðubótarþríhyrningasölu eða álíka eða senda fé sitt inn á hvaða fjármálastofnun sem þeim dettur í hug, ættu þeir að minnsta kosti að sjá sóma sinn í að hafa eitthvað eftirlit með opinberu fé. Við vorum nú líka að fatta þetta hérna uppi á klakanum að það þarf að hafa reglur og eftirlit svo glæpamenn vaði ekki uppi. Bretar pissuðu í skóna sína og ég ætla ekki að borga það fyrir þá.

Og hana nú...

Saturday, October 18, 2008

Betri eru tveir gestir í húsi en kaka í skógi

Hún ríður sjaldan við einteyming, ógæfan.

Annað barnið þjáist af næringarskorti og þarf sprautur en botnlanginn var skorinn úr hinu.

Bæði eru á batavegi.

Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeir sem vilja minnast oss er bent á það er kreppa.

Góðar stundir

Tuesday, October 14, 2008

Það góða


Þegar allt virðist á beinustu leið til helvítis er gott að staldra við og athuga hvaða jákvæðu afleiðingar ástandið gæti haft.

Mér datt þetta í hug:

Nú þegar pólverjarnir eru að flýja heim til sín verða til störf á leikskólum, elliheimilum, skólum og víðar í velferðarkerfinu sem veruleikafirrtir verðbréfabraskarar geta sinnt. Gamla fólkið gæti jafnvel kennt þessu dóti eitt og annað um gömul og góð gildi, og það á íslenzku.

Þjóðin hefur samkvæmt rannsóknum fitnað í góðærinu, nú má gera ráð fyrir að mörinn fari að bráðna og heilsa landsmanna að batna. Að ég nefni nú ekki tannheilsu barna.

Sjávarútvegur og ferðaþjónusta skapar gjaldeyri. Nú er að sæta lagi og selja útlendingum aðgang að hálendinu. Selja þeim óvissuferðir um borð í frystitogara og allskonar frumlegt. Nú er tími til þess að hugsa útfyrir kassann og græða.

Þar sem ég er loksins orðinn eigandi að íslenska bankakerfinu líður mér eiginlega betur. Það er gaman að eiga banka. Sjitt hvað það væri gaman að eiga kvótann líka.

Ál er hið besta mál. Það er framtíðin. En núna ættum við að hækka svolítið verðið á orkunni okkar til stóriðju og lækka verðið til íslenzkra garðirkjubænda. Mér persónulega þætti eðlilegt að garðirkjubændur fengu sama díl og álverin.

Nú er lag að hækka tolla á óþarfa. Æ rest mæ keis.

Og þeim sem finnst gott að fá sér neðan í því ættu að nýta sér ástandið og læra eitthvað nýtt, til dæmis að brugga.

Með gleði í hjarta og hausinn í lagi.

Heiða

Monday, October 13, 2008

Sjálfsstjórn

Ég var að fatta nýtt trix.

Fólk sem hefur yfirleitt litla stjórn á skapi sínu er upp til hópa með hausinn fastann á kafi uppi í rassinum á sér.

Og mér líkar ekki svoleiðis fólk.

Sunday, October 12, 2008

Hvernig ég hef það?


Ég hef það bara fínt.
Allt gott að frétta.
Bara svona meinhægt.
Þetta er nú meiri tíðin.
Já, kreppa og hver veit hvað.

En andinn er brostinn, veskið er tómt, ástin er horfin, börnin farin og hjartað í molum.

Annað var það nú ekki í bili.

Thursday, October 9, 2008

Hmmfff...

Út er komin bókin Skitið upp á hnakka eftir Davíð Oddson. Bókin er hluti dramaverka í ritröð framámanna á Íslandi eins og Halldór Kvótakall, Geir hrokagikkur og Bankinn Minn eftir Sigurð Einarsson.

Ekki er brotið blað í íslenzkri menningarsögu enda óstjórn og vængeblingaháttur frumskilyrði þátttöku í íslenzku stjórnkerfi.

Ég vil fá að sjá hausa fjúka fljótlega. Það er bara þannig.

Rokkstig dagsins fær Sigríður Ingibjörg Ingadóttir en hún virðist eina manneskjan í Seðlabankaklíkunni sem hefur snefil af manndómi innvortis.

Heyr heyr, fleiri konur í stjórnarstöður!!!

Wednesday, October 8, 2008

Kapítalismi dauðans

Það á að styrkja geðsvið Landspítalans. Ekki veitir af þegar fréttamenn ala á ótta og hræðslu almennings og virðast leynt og ljóst ætla að leggja andlega veikburða fólk í gröfina. Nenniði að halda kjafti í smá stund. Nenniði að auka ekki á það álag sem hvílir á þjóðinni. Nenniði að vera fólk en ekki hýenur ógeðin ykkar.

Og hvenær á svo að þjóðnýta kvótann? Oft var ráð, en nú er nauðsyn. Notum þetta ástand til þess að færa þjóðinni aftur það sem af henni var stolið. Síminn, bankarnir og kvótinn, játakk.

Svo má hugsa sér að víst kynslóðirnar sem lifðu af kreppuna miklu og verðbólgudrauginn lifa enn við hestaheilsu þá erum við varla á heljarþröm, er það.

Það verður svo að segjast eins og er að það hlakkar í mér þegar fólk flykkist í kirkjur landsins og menn ræða frekari álversframkvæmdir. Hér eftir ætla ég að kalla alla hippa og kommúnista fólk með Bjarnfreðarsonarheilikenni. Múhoohaahaa!

Margur verður af aurum api

Guð veri með ykkur

Heiða Darwins

Monday, October 6, 2008

Óstjórn

Mig langaði nú bara að minna ykkur á þá góðu staðreynd að ástandið fyrir botni miðjarðarhafs er enn verra en ástandið á Íslandi. Enn sem komið er eru engir brjálæðingar að sprengja ástvini okkar í tætlur.

Þraukum þorrann og góuna saman og gerum kröfu um að fylleríispakkinu sem setti landið á hausinn verði refsað duglega.

Heiða hin grimma

Friday, October 3, 2008

Þó ég gangi um dimman dal

Sjittur í fokki hvað ég hatan veturinn. Og mér þykir skömm að því að hann ryðjist af stað löngu áður en nokkur tími er til.

Ég sá skemmtiþátt á RUV í gær, Alþingi með stefnuræðu forsætisráðherra og kvabbi og kvarti annara þingfífla. Enginn skammaðist sín fyrir ástandið nema bóndinn í vinstri grænum, en hann hafði engar lausnir í boði fyrir þjóðina frekar en neinn annar. Ég hef alltaf sagt að á hinu háa Alþingi ættu að gilda sömu fjarvistarreglur og í framhaldsskólum og laun ráðamanna ættu að sjálfsögðu að vera árangurstengd. Eins og reyndar kennara.

Alþingi er bara skítasjoppa, því miður. Meirihlutinn er fífl og þeir fáu sem enn muna hvað hugsjón merkir fá ekki að ráða neinu. Hmmfffrr....

En í þessum þjóðfélagslegu hörmungum öllum saman og heimskreppunni er fátt betra en fara í langa göngu, fá sultardropa á nefbroddinn og skríða svo heim í heitt kakó og kleinur. Með góða bók og teppi. Kjams.

Lifið heil. Styrkið Krónuna ef þið getið. Farið varlega með aurinn ykkar.

Heiða hamhleypa

Wednesday, October 1, 2008

Fátt ber til tíðinda í kreppunni









Þá er bara að hefja rannsóknarblaðamennsku og rannsaka blöðin. Hvað ber þar nú hæst?

Ó, jú, viti menn það er K R Ó N A N sem smyr sér á forsíðurnar rétt eins og hún hefur smurt sér á sívaxandi síðuspik manna í gósentíðinni síðustu ár. Hversu óhemju þunglamalegar geta fréttir orðið? Jah, maður spyr sig.

Svo er víst komin ísöld fyrir norðan og hér syðra er skítaveður. Geisp.

En viti menn, hvað laumar sér með heimsendaspámennskufréttum? Herregud, forsetinn ætlar að færa þjóðinni 1.des aftur og hefja þann dag til virðingar.

Svo er bara að vona að hann verði málaður rauður svona í tilefni dagsins.

Kossar og knús

Heiða hamingjusama