Tuesday, September 30, 2008

Drepfyndið

Það er alveg með ólíkindum hvað alheimurinn er mikið trix. Ég vaknaði í vondu skapi og geðvonskaðist um íbúðina alveg þangað til mér datt í hug að fara í bað.
Góð slökun kemur skapinu í lag, ekki satt. Þar sem ég lá í baðinu og beið þess að fýlan og þunglyndið bráðnaði af mér heyrði ég að nágrannakona mín skellti lagi á fóninn.

Og viti menn, hún er að verða búin að spila alla jólaplötuna með Bóní Emm.

Þá er erfitt að vera fúll, múuhoohaaaaahaaaa.

Saturday, September 27, 2008

Nú gekk fram hjá mér

Klám er sívinsælt umræðuefni. Svona rétt eins og bókmenntir. Maður ræðir hinsvegar klámið síður innan um börn, eða það hélt ég að minnsta kosti þar til í gær.

Strætó er með bókmenntaátak í gangi. Er með öðrum orðum að auglýsa þær bækur sem hellast yfir landann fyrir jól. Á hverju sæti í strætóum bæjarins hangir spjald þar sem hver bók er auglýst fyrir sig. Ég var svo heppin að setjast þar sem bók um enska hóru var kynnt. Ég hef ekki hugsað mér að leggja dóm á verkið, svona fagurfræðilega séð, ég læt öðrum og fróðari það eftir en ég hlýt að setja spurningamerki við það að jafn grófur texti, sem felur í sér nokk nákvæmar lýsingar á hórdómi eigi heima í bland við börn á leið í skóla. Menn verða að átta sig á því að sjö ára gömul börn kunna mörg hver að lesa.

Og þessvegna fær strætó BÁGT! þessa vikuna

Ég kveð með gremju í dag.

Thursday, September 25, 2008

S-24 og þú hagnast

Zúkkan er á leið í Sorpu.

Það er bara þannig og ný leið vor um ranghala borgar óttans er mörkuð gulum vögnum. Ég tók S-24 í morgun og fann mig sem barnapíu í Ártúnshverfi. Ekki amalegt það.

En það verður með bæði sorg og trega sem við kveðjum Zúkku de lúx, nú munu bein hennar hvíla í klumpum hjá Endurvinnslunni en sálin svífur heim til Japans til hinna Samúræjanna.

Far vel, far vel. Fljúgðu á vængjum morgunroðans.

Wednesday, September 17, 2008

Lægð yfir landinu


Þetta er nú meiri lægðin. Barómatið stendur í 972 millibörum og brúnirnar á mér ná saman. Ég er búin að vera með sígeysph í allan liðlangan dag og þyrfti eiginlega að vera löngu dottin í bælið, með sæng uppfyrir haus.

Og svo er mér líka kalt... Brrr...

Friday, September 12, 2008

Föstudagur


Bara kominn enn einn föstudagurinn og má vænta helgar í kjölfarið...
Heimasætan og Mikki verða í móðurhúsum og bíóferð að miðju jarðar með flatböku í forrétt er málið.


Ég hef í annan stað verið að velta fyrir mér þessu krepputali. Ég fæ ekki séð miklar breytingar í mínu umhverfi, fólk hámar í sig pylsur og franskar fyrir það fyrsta, hinir í umhverfi mínu éta á Hámu. Og allir á bíl og allir með vísa og allir að mæðast og allir að eyða og spreða eins og fávitar. Í allt nema skuldirnar sínar.
Vinna meira, éta minna og reyna eins og rjúpa, að rembast við það að vera jákvæður..

Núna ætla ég hinsvegar að skúra heima hjá mér, kauplaust, og syngja ástarljóð til Bahama!


Góða helgi...

Thursday, September 11, 2008

Klasageðstropf


Ég er nemi í HÍ. Það er sko gaamaaaan... Svo til þess að eiga fyrir nánöglum tóbaki hef ég hafið störf við hamborgarasteikingar við Miklubraut og lykta þessvegna eins og hin margfræga Búkolla á stundum.

Annars fer lífið nokk vel með oss og biðjum yður farsældar á tímum heimsendaspámanna...

HANN LIFIR!
hann lifir í þér

Tuesday, September 2, 2008

Nemi

Og núna er maður nemi. Nema hvað?

Fékk fagurlega samsetta stundatöflu og starði á hana lengi dags. Með ofurlítilli angurværð. held ég bara.
Nú þarf maður sem aldrei fyrr að grípa réttri hendi í eitthvað haldbært og gerast dúer, ekki þínker.

Annars bið ég bara að heilsa ykkur öllum elskurnar mínar.